Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um könnun á aðstöðu einstaklinga með glúten-óþol og er hún svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna aðstöðu einstaklinga með glúten-óþol. Skal sérstaklega huga að aukakostnaði þeirra við matargerð og fæðiskostnað. Þá verði kannað með hvaða hætti einstaklingar með glúten-óþol njóti aðstoðar hins opinbera annars staðar á Norðurlöndum, svo sem með greiðslum frá almannatryggingum og hvaða skattalega meðferð þeir fá. Einnig verði kannað hvort gera megi glúten-óþol að skráningarskyldum sjúkdómi hér á landi.``
    Tillaga sama efnis var lögð fram á síðasta þingi en varð þá ekki útrædd. Er því mál þetta endurflutt þar sem ætla má að nægur tími sé til að afgreiða það nú.
    Þessi þáltill. sem hér liggur frammi varðar sjúkdóm sem er frekar fátíður og hefur lítt verið um hann fjallað hérlendis. Starfandi eru íslensk samtök fólks með glúten-óþol en á hinum Norðurlöndunum er starfsemi félaga þessa fólks mjög öflug einmitt vegna þess að sjúkdómurinn hefur hlotið athygli stjórnvalda. Á það skal minnt að hæstv. heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, lét eftirfarandi orð sér um munn fara í tilefni fsp. minnar um glúten-óþol á því fyrsta þingi sem ég sat, með leyfi forseta:
    ,,Hve langt á að ganga í sambandi við greiðslu bóta úr almannatryggingum vegna sérstakra sjúkdóma, umfram það sem almenn ákvæði skipa fyrir um varðandi læknishjálp og lyf?``
    Ég ætla heilbrrh. ekki svo illt að hann standi á móti því að einstaklingar séu sem jafnastir gagnvart heilbrigðiskerfinu varðandi aðstoð hins opinbera. Orð heilbrrh. bera hins vegar vott um að það er áhugi á málinu þótt hann sé afar lítill að því er virðist hjá ráðuneytinu. Og vil ég nefna það hér að sumarið 1985 voru heilbrmrn. sendir útreikningar vegna kostnaðarauka fólks með glúten-óþol. Þessir útreikningar voru sendir ráðherra og ráðuneytisstjóra. Eftir ummæli ráðherra má draga þá ályktun að þeir hafi ekki einu sinni verið skoðaðir.
    Í fyrirspurnaumræðu hvatti ég ráðherra til að sýna málinu áhuga og láta vinna að því í ráðuneytinu. Nú ætla ég að svo hafi verið gert. Tel ég því sérstaka nauðsyn í kjölfar þeirrar vinnu að flytja þessa þáltill. til þess að fá niðurstöðu. Ég vil hér geta nokkurra staðreynda varðandi sjúkdóminn.
    1. Farið hafa fram töluverðar rannsóknir á þessum sjúkdómi á Landspítalanum, framkvæmdar af færustu sérfræðingum, svo sem Gesti Pálssyni, Bjarna Þjóðleifssyni og Helga Valdimarssyni.
    2. Stjórnvöld í nágrannalöndum okkar, sem við berum okkur oft saman við, hafa unnið mjög mikið að málefnum fólks með glúten-óþol.
    3. Það er talið vera allt að fjórum sinnum dýrara að sinna matargerð slíks fólks en annarra einstaklinga.
    4. Sjúkdómur þessi er meðfæddur og við honum fást engin lyf. Sjúkdómurinn dregur úr upptöku

næringarefna og leiðir til næringarefnaskorts viðkomandi einstaklinga.
    5. Þau lyf sem eru gefin eru einungis til að bæta næringarefnaskortinn en gera það ekki að verkum að hinn eiginlegi bati fáist. Hann fæst aðeins með réttu fæðuvali og slík lyfjagjöf hefur engin áhrif á það að öðru leyti.
    6. Miklum fjármunum er á hverju ári varið til heilbrigðiskerfisins með misjafnlega góðum árangri. Það er mikilsvert að sem best nýting verði á þeim. Þess vegna er rík ástæða til að þáltill. verði samþykkt og unnið verði markvisst að málinu því lækning er tiltölulega auðveld en varðar marga þætti daglegs lífs þeirra fáu sem greindir eru með þennan sjúkdóm. Það er því brýn nauðsyn að gert verði átak í þessum málum.
    Þá er ekki úr vegi að upplýsa þm. um það að sjúkdómurinn getur valdið ótímabærum dauða þeirra sjúklinga sem eiga í hlut auk þess sem þeir sem haldnir eru glúten-óþoli eiga oft í verulegum vandræðum með mataræði utan heimilis síns. Það gætu vafalaust allir litið til þess að þeir mættu ekki láta neitt ofan í sig sem innihéldi mjöl eða hveiti, en sú fæða er ríkur þáttur í daglegu fæði hvers og eins. Vandi sjúklinga með glúten-óþol er miklu meiri en menn gera sér grein fyrir. Margir sjúkdómar sem eru smávægilegir og orsakast
af fötlun sem er ekki nándar nærri eins tilfinnanleg og glúten-óþol hafa fengið stuðning af almannatryggingafé. Það er því brýnt að þessi þáltill. verði samþykkt.
    Ég legg því til að þessari þáltill. verði vísað til síðari umræðu og afgreiðslu og vísað til félmn. Sþ.