Höfundaréttargjald af innfluttum myndbandsspólum
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir greinargóð svör. Auðvitað tek ég undir það að höfundar og tónskáld eiga fullan rétt á að fá höfundaréttargjöld greidd fyrir sín verk og upptökur á þeirra verkum. Hins vegar eru þessar spólur, hvort sem þær heita myndbandsspólur eða segulbandsspólur, í miklum mun meira mæli notaðar til einkanota heimilanna. Ég þarf ekki annað en líta til eigin heimilis að mér þykir ári súrt að vera að greiða eitthvert höfundaréttargjald af því þótt ég taki upp vídeómyndir af börnunum mínum, þá þurfi ég að fara að greiða einhverjum höfundum úti í bæ gjald fyrir það. Mér þykir það hins vegar ákaflega athyglisvert að ég geti farið með þá spólu niður í þessa innheimtumiðstöð og fengið þetta gjald endurgreitt og mér þykir enn þá athyglisverðara hvernig þeir ætla að fylgjast með því að ég taki ekki svo aftur yfir það seinna. En þetta er hins vegar allt í endurskoðun og ég fagna því að svo sé.
    Ég vil bara rétt í lokin að það komi fram að ég harma það að Félag ísl. stórkaupmanna skuli hafa staðið að slíkri vitleysu sem þetta er.