Tvöföldun Reykjanesbrautar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu, 6. mál þessa þings, till. til þál. um tvöföldun Reykjanesbrautar, hefur verið til umræðu á Alþingi áður eins og fram kom hjá 1. flm. í ræðu hans áðan, hv. 11. þm. Reykn.
    Það er vissulega svo að Reykjanesbrautin er einn þýðingarmesti þjóðvegur þessa lands og þar kemur tvennt til. Annars vegar að þetta er tengibraut byggðarlaga sem um 65% íbúa landsins byggja eins og hér kom fram áðan og eins og segja má, og hv. 1. flm. sagði, er þetta vegurinn til útlanda, þetta er vegurinn að landamærunum. Það er alveg hárrétt. Þingmenn Reykn. gera sér mjög vel grein fyrir þessum hlutum og þeir hafa með fundi sem þeir héldu ekki fyrir löngu síðan viljað fá fram af hálfu Vegagerðar ríkisins álit á því með hvaða hætti er hægt að bregðast við því sem þarf að bregðast við með skjótum hætti, hver eigi að vera framtíðarverkefni varðandi þessa braut, og að við áttum okkur að sjálfsögðu á því í leiðinni hver kostnaður er í sambandi við þessa hluti.
    Við þurfum að hafa framkvæmdaröðina. Við þurfum þá líka í leiðinni að átta okkur á því hver kostnaðurinn er og með hvaða hætti möguleiki er á því að afla tekna í Vegasjóð til þess að standa straum af því sem um er að ræða. Á þessum fundi sem þingmenn Reykn. héldu mættu fulltrúar Vegagerðar ríkisins. Þeir gerðu grein fyrir þessum málum og þess var óskað að frá þeim kæmi greinargerð, sem þeir hafa nú látið þingmönnum Reykn. í té í dag, þar sem þeir gera grein fyrir þeim þáttum sem taka verður tillit til þegar um þessi mál er rætt og gera sér grein fyrir af þeirri skýrslu hvernig best verður að þessum málum staðið.
    Ég vildi, með leyfi forseta, víkja að örfáum atriðum sem fram koma í þessari greinargerð en taka fram í leiðinni að þm. Reykn. eru sammála um að þessi greinargerð verði einmitt send til þeirrar nefndar sem fær þá till. til meðferðar sem hér er til umræðu og það verði hægt að vinna þar orðalag að tillögu sem við gætum sameinast um og lagt yrði til að Alþingi samþykkti.
    Ef við aðeins virðum fyrir okkur umferðarþungann má segja að þar skiptist í tvennt, annars vegar Reykjanesbrautina frá Elliðaám og suður fyrir Krýsuvíkurafleggjarann, og á þessu svæði er, eins og talað er um, dagsumferð á ári að meðaltali 8--10 þús. bifreiðar, en mér er tjáð að á vissum tímum dags og vissa daga sé umferðin nærri 20 þús. bílar á þessu svæði. Þegar síðan kemur suður fyrir Krýsuvíkurveg er umferðin samkvæmt þeirra talningu um 5 þúsund bifreiðar, en á vissum tímum fer bifreiðafjöldinn þar upp í 8--10 þúsund bifreiðar.
    Við gerð vega er meðaltalsumferðin lögð til grundvallar og það sem fram kemur í skýrslu Vegagerðarinnar er, eins og ég sagði, að Reykjanesbrautin frá Breiðholtsbraut til Krýsuvíkurvegar er með 8--10 þúsund bifreiðar og

Krýsuvíkurvegur að Víknavegi, sem er vegurinn á milli Njarðvíkur og inn til Keflavíkur, er með um 5 þúsund bifreiðar.
    Þegar við ræðum þessi mál er ekki óeðlilegt að þau slys sem verða í þessari miklu umferð komi til umræðu og þá er gjarnan horft á með hvaða hætti hlutirnir hafa gerst. Vegagerðin fylgist mjög náið með þessum slysum og hefur athugað fjölda slysa og borið saman fjölda slysa yfir allt landið og svo á þessum vegi. Það kemur í ljós að á Reykjanesbrautinni er slysatíðni, eins og það er orðað nú, orðin mest ofan Hafnarfjarðar og hefur þetta breyst miðað við það sem áður var. Lengi vel voru slys mjög oft suður frá. Síðan gerðu menn sér grein fyrir því að Arnarneshæðin var orðin slysagildra. Þar er nú verið að hefja miklar framkvæmdir til breytinga og vonandi verður það til þess að slysum þar fækkar. Hins vegar liggur ljóst fyrir að um leið og nýr kafli Reykjanesbrautar, frá Breiðsholtsbraut og inn til Hafnarfjarðar, var tekinn í notkun hefur slysum fjölgað þar.
    Ef við virðum svo fyrir okkur ástand Reykjanesbrautar eins og það er í dag er ljóst að sú umferð sem á sér stað um Reykjanesbrautina gerir það auðvitað að verkum að hér þarf að gæta vel að í sambandi við viðhald og ljóst að ekki verður hægt að bíða lengi í þeim efnum. Þegar við ræðum svo um hvernig við greiðum úr umferðinni koma enn fremur til greina nýjar leiðir sem gert er ráð fyrir að tengist Reykjanesbrautinni og hver verði forgangsröð þeirra í sambandi við Reykjanesbrautina og þau verkefni sem þar eru til umræðu. Þar á ég við veg sem nefndur hefur verið Ofanbyggðavegur og liggur fyrir ofan Hafnarfjörð. Ef sú braut yrði lögð yrði það til þess að draga mjög úr umferðinni þegar komið er suður að Hafnarfirði og suður fyrir Hafnarfjörð.
    Ég hef vikið hér að í fyrsta lagi öryggisaðgerðum vegna Reykjanesbrautarinnar, ég hef vikið að í öðru lagi aðgerðum vegna breytinga á öðrum tengibrautum, ég hef vikið að viðhaldsaðgerðum sem hér koma til greina, ég hef vikið hér að nýjum akstursleiðum sem tengjast Reykjanesbrautinni og síðan fjallar þessi till. sem hér er til umræðu um tvöföldun þá sem rétt er talið að verði farið út í.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð mín fleiri hér en ég tek undir það sem hv. 1. flm. sagði, að vonandi verður þessi till. til afgreiðslu. Ég tók ekki eftir til hvaða nefndar flm. vísaði. ( Gripið fram í: Það átti að vera atvmn., en hann nefndi það ekki.) Það átti að vera atvmn., en hann nefndi það ekki. Nú, ég hafði þá skoðun fyrir ekki mörgum árum síðan að hér væri um að ræða fjvn.-mál en það skiptir út af fyrir sig engu. Hitt er meginatriðið að það takist á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið sett fram, þeirrar grg. sem þingmenn Reykn. hafa fengið frá Vegagerð og þeim umræðum sem fara fram í nefndinni við þá aðila sem best þekkja að ná fram á Alþingi viljayfirlýsingu um þær aðgerðir sem eðlilegt er talið og rétt að hrinda í framkvæmd í sambandi við Reykjanesbrautina.