Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að íslenskur skipasmíðaiðnaður hefur um langt skeið átt í miklum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar eru að verulegu leyti til komnir vegna þeirrar stefnu sem ríkt hefur í málefnum þessa iðnaðar um margra ára skeið. Þeir sérstöku erfiðleikar sem Slippstöðin á Akureyri á nú við að etja eru að verulegu leyti vegna þess að þáv. stjórnendur fyrirtækisins tóku fyrir nokkrum árum ákvörðun um að hefja nýsmíði á skipi án þess að hafa kaupendur að skipinu eða örugga lánafyrirgreiðslu á meðan smíðin færi fram. Það hlaut auðvitað að vera þó nokkur vogun sem fólst í þeirri ákvörðun.
    Hv. fyrirspyrjandi spurði hvað ríkisstjórnin hygðist gera. Fyrir nokkrum dögum síðan átti ég, ásamt hæstv. iðnrh. og hæstv. sjútvrh., fund með stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Slippstöðvarinnar og þar voru rædd vandamál fyrirtækisins sem á næstu mánuðum felast fyrst og fremst í því að ekki er kaupandi að því skipi sem þar stendur nú á stokkum. Brýnasta lausnin á vanda Slippstöðvarinnar á Akureyri er að finna kaupanda að þessu skipi og ljúka þannig því verki sem þáv. stjórnendur fyrirtækisins og stjórnarmenn hófu fyrir nokkrum árum en höfðu ekki tryggt farsæl endalok á. Iðnrh. hefur síðan skipað sérstaka nefnd til þess að fjalla um þennan þátt málsins og nefndarmenn munu eiga fund á morgun norður á Akureyri með forsvarsmönnum fyrirtækisins og starfsfólki.
    Hv. málshefjandi spurði einnig um það hvort ríkisstjórnin væri tilbúin að beina verkefnum til íslenskra skipasmíðastöðva og nefndi þar sérstaklega annars vegar Skipaútgerð ríkisins og hins vegar smíði á ferjum fyrir samgöngur og átti þá væntanlega við t.d. á Breiðafirði eða milli Vestmannaeyja og lands. Staðreyndin er sú að ríkisvaldið hefur þurft að greiða umtalsverða fjármuni með Skipaútgerð ríkisins á undanförnum árum og gerir enn í ár. Ef ekki er leitað samkeppnishæfra tilboða í smíði á skipum fyrir það fyrirtæki mun það eingöngu hafa í för með sér viðbótarstyrk úr ríkissjóði til fyrirtækisins. Á sama hátt er nú í smíðum ferja fyrir Breiðafjörð í skipasmíðastöð á Akranesi og í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 er lögð fram tillaga um að afla lánsfjár til þess að tryggja að sú smíði geti haldið áfram.
    Hvað snertir nýja ferju milli Vestmannaeyja og lands þá hefur verið leitað víðtækra tilboða í smíði hennar, en því miður var niðurstaðan af frumathugun sú að erlend fyrirtæki reyndust vera með mun hagstæðara tilboð. Ríkisstjórnin mun hins vegar leitast við að leysa þennan vanda skipasmíðaiðnaðarins. Þetta er vandi sem við tókum í arf frá stjórnarstefnu Sjálfstfl. Sjálfstfl. stýrði hér iðnaðarmálum frá árinu 1983 til 1988. Hann hafði í hálfan áratug tækifæri til þess að leggja nýjan grundvöll að framtíð íslensks skipasmíðaiðnaðar og erfiðleikar skipasmíðaiðnaðarins í dag eru vegna þess að stjórn Sjálfstfl. á þessum málum í fimm ár skilaði ekki tilætluðum árangri. Þar að auki er ljóst að forustumenn Sjálfstfl. í stjórn

Slippstöðvarinnar, ásamt þáv. forstjóra þess sem jafnframt var leiðtogi Sjálfstfl. á Akureyri, báru meginábyrgð á því að tekin var ákvörðun um það að hefja smíði skipsins án þess að kaupandi væri nokkur og ríkisstjórnin mun eins á fleiri sviðum leitast við að greiða úr þessum vanda sem Sjálfstfl. hefur skilið eftir sig.