Staða íslensks skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það er áreiðanlega afar sjalfgæft í sögu Alþingis að einn hæstv. ráðherra skuli koma upp í ræðustól og bera annan hæstv. ráðherra þeim sökum sem hér hefur gerst. Það sem fram hefur komið nú, loks þegar hæstv. ráðherra Hagstofu hefur gefið færi á að svara fsp. sem gerð var af einum hv. þm. vegna blaðaviðtals norður á Akureyri, er að hæstv. ráðherra kemur hér í ræðustólinn og gefur ekki einungis í skyn, heldur segir nægilega skýrt þannig að allir geta fundið út hvað hann á við, að í raun og veru þá standi mál þannig að hæstv. sjútvrh. sé það afl innan ríkisstjórnarinnar sem vilji íslenskan skipasmíðaiðnað feigan. Þetta eru þung orð og ég held, virðulegur forseti, að það verði að krefjast þess hér á mánudaginn að hæstv. sjútvrh. verði viðstaddur umræðuna og fái tækifæri til þess að bera af sér þessar sakir ef hann kærir sig um eða staðfesta ummæli þess manns sem hæstv. forsrh. hefur falið að gera uppdrátt að framtíðarmöguleikum í íslensku atvinnulífi. Slíkar árásir, eins og þær sem komu fram hér hjá hæstv. ráðherra, eru þess eðlis að við hljótum að krefjast þess, almennir þingmenn, að á mánudaginn verði allir hæstv. ráðherrar við þá umræðu sem þar fer fram og hæstv. sjútvrh. fái tækifæri til þess að segja álit á þeim ummælum sem hér hafa fallið. ( Forseti: Forseti mun verða við þeirri beiðni hv. 1. þm. Reykv. að reyna að sjá svo til að hæstv. sjútvrh. verði viðstaddur umræðuna.)