Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að því sem hér hefur komið fram í umræðunni í dag sem er framhald af þeirri umræðu sem hér fór fram í síðustu viku.
    Ég vil fyrst fullvissa hv. þm. Guðmund H. Garðarsson um það að það er hvorki vilji né er það reyndin að verið sé að nota fjármuni lífeyrissjóðanna til eigin þarfa í rekstri ríkisins. Ég tel þvert á móti að þeir samningar sem gerðir voru við lífeyrissjóðina eftir að ég tók við embætti séu á ýmsan hátt til fyrirmyndar og í þeim hafi verið mótuð ýmis nýmæli sem vonandi fái að standa um langa hríð. Og ég vil einnig þakka hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni fyrir þann hlut sem hann átti í þeim samningum.
    Ég ætla heldur ekki að blanda mér í einhverjar deilur um það hvort ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sú sem sat hér á árunum 1983--1987, eða ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem sat á árunum 1987--1988, hvor þeirra hafi betur staðið við samninga sem gerðir voru við verkalýðshreyfinguna um húsnæðismál. Ég vil hins vegar aðeins skjóta því að hér, þó ég hafi nú ekki athugað það mál sérstaklega, að ef árið 1987 er sérstakt fyrirmyndarár í þessum efnum að dómi hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar þá vænti ég að það hafi verið í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem þá sat áður, sem fjárlög fyrir það ár hafi verið samþykkt vegna þess að þau hafa þá verið samþykkt í árslok 1986.
    Að öðru leyti vil ég bara segja það að mér fannst einn þátt vanta í mjög fróðlega yfirferð hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar yfir húsnæðismálin og það er efnahagsþátturinn. Það er auðvitað alveg augljóst að það er ekki hægt að vera með jafnveigamikinn framkvæmdaþátt og húsnæðismálin né jafnveigamikinn þátt peningamála og lífeyrissjóðakerfið án tengsla við efnahagsstjórnun á hverjum tíma. Það hefur einmitt verið nokkur hætta í því fólgin að það væri tilhneiging til þess að húsnæðismál væru skoðuð bara ein og sér án slíkra efnahagslegra tengsla en auðvitað hlýtur bæði framkvæmdastigið og fjármálaumsvifin í húsnæðismálunum og í lífeyrissjóðunum að laga sig að þeim markmiðum sem eru í efnahagsstjórninni á hverjum tíma. Ég vænti þess að við höfum báðir verið sammála um það að eitt af markmiðum í efnahagsstjórninni frá árunum 1987--1988 til ársins í ár hafi verið að draga úr þenslunni því að þar er hægt að vitna bæði í yfirlýsingar aðila vinnumarkaðarins, bæði verkalýðshreyfingar og fulltrúa samtaka atvinnulífsins sem og ég held yfirlýsingar allra stjórnmálaflokka í landinu að nauðsynlegt væri að draga úr þenslunni vegna þess að hún var að setja þetta hagkerfi hér úr skorðum, bæði viðskiptahallann gagnvart útlöndum, verðlagsþróunina og fjölmargt annað. Þess vegna verður auðvitað að taka mið af því þegar verið er að ráðstafa fjármunum til húsnæðismála og einnig ræða hin sívaxandi fjármálaumsvif lífeyrissjóðanna hvernig þetta tvennt getur lagað sig að almennum markmiðum

í efnahagsmálum sem er stöðugleiki í verðlagsmálum, minnkandi viðskiptahalli og minnkandi þensla.
    Ein af ástæðunum fyrir því að það hefur verið kleift að draga úr ríkisframlaginu er stóraukið ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna og ég held að það sé rétt með farið að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna hefur aukist mun meira á síðustu tveimur árum og mun aukast meira á næsta ári en áætlanir gerðu ráð fyrir 1986 þegar samkomulagið var gert. Ef ríkisframlagið, eins og þá var talað um, hefði átt að þróast í verðlagshlutfalli og ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna aukast eins og reyndin hefur orðið þá hefðu menn verið að búa til efnahagssprengingu í hagkerfinu með þeim samningum. Ég veit að það var ekki ætlun þeirra sem að þeim stóðu heldur fyrst og fremst að vinna annars vegar að úrbótum í húsnæðismálum og hins vegar að stöðugleika í efnahagsmálum. Það er staðreynd sem tölur sýna mjög rækilega að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna hefur aukist mun meira en nokkrar spár, jafnvel hinar bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. T.d. má nefna að sú spá sem Seðlabankinn gerði í fyrra um ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á þessu ári hefur reynst íhaldssöm þótt fjölmargir segðu þá að hún væri allt of bjartsýn. Ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna hefur á þessu ári reynst verða meira.
    Vegna orða hv. þm. Egils Jónssonar þá er það auðvitað ætlun núv. ríkisstjórnar að standa við þau fyrirheit að gera upp skuldir við bændur. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það enn hvernig nákvæmlega sú uppgjörsáætlun lítur út. Það er hins vegar ætlun okkar að gera það borð hreint á eins skömmum tíma og hægt er og á mun skemmri tíma en gert var þegar hv. þm. Egill Jónsson studdi hér ríkisstjórnir áður fyrr. Þannig að ég held að það muni nú ekki þurfa að klaga upp á þessa ríkisstjórn í þeim efnum þegar öll kurl verða komin til grafar.
    Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár og í fjáraukalögum fyrir þetta ár eru nefndar upphæðir til þessa uppgjörs og þó ég hafi ekki þau gögn hér við höndina þá minnir mig að ég fari rétt með að í þeim efnum sé reiknað með að gera mjög fljótlega hreint borð fyrir árið 1988 ásamt fyrri árum en ég er ekki með þær tölur hér við höndina þannig að ég ætla ekki að svara því nákvæmlega. Það
hefur ekki orðið í sjálfu sér nein stefnubreyting í þessum efnum.
    Hv. þm. Karvel Pálmason varði hér löngu máli í það að lesa nýjan texta frá Alþýðusambandinu. Ég ætla ekki að fara í langar orðræður við hv. þm. um þau mál. Það vaknar auðvitað sú spurning í mínum huga hvort menn vilji frekar lesa textann og veruleikann á þann veg að ekki hafi verið staðið við samningana en hafa það sem sannara reynist. Það sem mér fannst auðvitað mest hrópandi í þessu bréfi sem hér var lesið upp, hinu nýja frá Alþýðusambandinu, er að ekki var vikið einu orði, ekki einu orði, að því sem þó var talið mikilvægasta loforðið af hálfu forsvarsmanna Alþýðusambandsins þegar samningarnir voru gerðir og það var loforðið um að niðurgreiðslur yrðu auknar um 500--600 millj. (Gripið fram í.) Ja, ég

vona að ég hafi hlustað nægilega vel því ég vona að í þessu nýja bréfi komi það þá fram að í staðinn fyrir þessar 500 eða 600 millj. verður niðurstaðan 800 millj. Ég heyrði ekki að sá texti væri lesinn upp í hinu nýja bréfi og ég bið forláts ef það er misheyrn hjá mér, að það hafi farið fram hjá mér, en ég tók ekki eftir því að það kæmi fram í svarbréfinu að ríkisstjórnin hefur ákveðið að bæta u.þ.b. 300 millj. kr. við þá lægri tölu sem notuð var sem loforðaviðmið og 200 millj. ef efri talan er notuð. Eða að það verður varið á bilinu rúmlega 30% til 50% meira til þessa liðar en fyrirheit voru gefin um.
    Þetta er auðvitað það sem mestu máli skiptir vegna þess að þetta var stærsta efnisatriðið í þessu samkomulagi og það sem lögð var á mest áhersla.
    Ég vona að það hafi þess vegna verið misheyrn hjá mér og það komi þá fram við annað tækifæri að í þessu nýja bréfi Alþýðusambandsins komi það fram að ríkisstjórnin gaf fyrirheit um 500--600 millj. en efndirnar eru um 800 millj.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að varðandi þróun verðlags á opinberri þjónustu var talað um það að hækkanir hjá ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum yrðu í samræmi við forsendur fjárlaga og það liggur einnig fyrir að svo hefur verið. Það hefur ekki orðið hækkun á neinum lið hjá ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum fram yfir forsendur fjárlaga. Það sem hins vegar hefur gerst og ríkisstjórnin hefur ekki dregið neina dul á er að fyrirtæki, sérstaklega orkuveitur í eigu sveitarfélaga, hafa hækkað meira. Ég er þeirrar skoðunar að orkuveitur í eigu sveitarfélaga eigi að vera undir verðlagsráði og eigi þess vegna að sæta sams konar verðákvörðunum og önnur markaðsráðandi fyrirtæki. Sumir hafa talið að það væri skerðing á sjálfstæði sveitarfélaga. Ég tel svo ekki vera. Ég tel að hitaveitur og rafmagnsveitur sem reknar eru af sveitarfélögum eigi að bera verðákvarðanir sínar undir verðlagsráð. Það hefur ekki verið gert og það er ástæðan fyrir því að þessi þáttur einn saman hefur verið umfram það sem áætlað var. En þar er ekki hins vegar við ríkisstjórnina að sakast nema til hafi verið ætlast að hún setti lög á sveitarfélögin í þessum efnum.
    Sú skrá sem hér var kynnt er hins vegar á þann veg að ef ég fer yfir hana þá sýnist mér alveg ljóst að við átta af þessum tólf atriðum hefur verið staðið. Fjögur þeirra eru enn í athugun. Ég ætla ekki að eyða hér löngu máli í að fara yfir það, ég gæti gert það, en mér finnst það blasa alveg við sé málið lesið með velvilja og sé málið lesið eins og hv. þm. sagði ,,á faglegan hátt``, en ekki þannig pólitískan að það sé fyrst og fremst verið að leggja vopnin í hendur þeirra sem vilja endilega fá það út að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við fyrirheit sín gagnvart verkalýðshreyfingunni, eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var auðvitað fljótur að sjá og grípa þann bolta og henda honum aftur á loft hér í umræðunni. (Gripið fram í.) Já, sjálfstæðismenn í verkalýðshreyfingunni eiga kannski ekki annan kost. Ég taldi nú hins vegar að ýmislegt af því sem hv. þm. sagði hér um verkalýðshreyfinguna væri ekki bara faglegt en ég

ætla ekki að fara nákvæmlega út í það hér.
    Varðandi það sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði um skattaákvæðið, og það vil ég gera að síðasta umfjöllunarefni mínu hér, vil ég aðeins segja að það er tvennt sem verkalýðshreyfingin hefur fyrst og fremst lagt áherslu á í skattamálum. Annað var það að gripið yrði til harðari aðgerða gagnvart skattsvikum. Ég hélt að það væri öllum ljóst að í tíð núv. fjmrh. hefur orðið stefnubreyting í þessum efnum og núv. fjmrh. hefur legið undir harðri gagnrýni t.d. af hálfu Sjálfstfl. fyrir þá stefnubreytingu. Og ég hélt satt að segja að það þyrfti ekkert sérstakt samráð við verkalýðshreyfinguna um að framkvæma þessa kröfu verkalýðshreyfingarinnar sem lengi hefur verið á borðinu en ekki verið farið eftir. Hitt atriðið hefur svo verið sú ósk verkalýðshreyfingarinnar að þegar virðisaukaskattur yrði tekinn upp þá yrði jafnframt notað tækifærið til þess að lækka verð á matvælum. Tillaga sem ég flutti í ágústmánuði þessa efnis var síðan samþykkt í ríkisstjórninni og þar taldi ég í stórum dráttum að verið væri að framkvæma eina af þeim meginhugmyndum sem verkalýðshreyfingin hefur verið með varðandi upptöku virðisaukaskatts. Auðvitað er það þannig að það má ræða fjölmörg mál önnur og þessi tvö má auðvitað ræða einnig en þegar menn eru í því miðju verki að framkvæma það sem verkalýðshreyfingin hefur lengi óskað þá vona ég að hv. þm. Karvel Pálmason virði mér það á betri veg að ég tel kannski ekki þörf á
sérstöku samráði um að framkvæma það sem verkalýðshreyfingin hefur óskað eftir vegna þess að ég teldi það svo augljóst að hún hlyti sjálf að óska eftir því að það væri gert sem hún hefur lengi ályktað um.
    Í skattamálum hefur í tíð minni sem fjmrh. verið beitt harðari aðgerðum við innheimtu á ógoldnum sköttum en gert hefur verið um langa tíð og þar með reynt að draga verulega úr skattsvikum og skattundanslætti í okkar landi. Og þegar virðisaukaskatturinn verður tekinn upp, þá mun verða kerfisbreyting hvað varðar skattlagningu á matvæli.