Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég er þakklátur hæstv. ráðherra fyrir að gera tilraun til að svara þeim fyrirspurnum sem til hans var beint, en svörin sýndu raunar fram á að það sem hv. 3. þm. Vestf. sagði um brigð við verkalýðshreyfinguna eru sannmæli og er það athyglisvert í ljósi þess að á síðasta fundi tók hæstv. fjmrh. fram ( Fjmrh.: Það er af og frá.) að hann tæki nærri sér ef við hann væri sagt að hann hefði brugðist verkalýðshreyfingunni og loforðum við hana og ég vænti þess að með því eigi hann við líka að hann taki nærri sér ef ríkisstjórnin bregst loforðum sem gefin voru aðilum vinnumarkaðarins við kjarasamningana. Eða ber kannski að skilja ummæli hæstv. fjmrh. svo að hann telji ekki skipta jafnmiklu máli ef brugðist er þeim fyrirheitum sem atvinnulífinu eru gefin? ( Fjmrh.: Ja, ég tel náttúrlega að verkalýðshreyfingin sé á fremri bekk.) Telur að verkalýðshreyfingin sé á fremri bekk.
    Nú ætla ég að freista þess að rifja upp hvaða fyrirheit Steingrímur Hermannsson, hæstv. forsrh., gaf Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna við síðustu kjarasamninga og skal rekja þau lið fyrir lið eins og hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason gerði gagnvart þeim fyrirheitum sem hæstv. forsrh. gaf Alþýðusambandi Íslands. Annars er það athyglisvert að enginn ráðherra hefur séð ástæðu til að vera viðstaddur umræðu um lánsfjárlög nema hæstv. fjmrh. sem sýnir með öðru það virðingarleysi sem ráðherrar sýna yfirleitt Alþingi og kom fram í umræðum í gær og er að verða viðtekin venja.
    Fyrsti liður í bréfi hæstv. forsrh. frá 30. apríl 1989 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkeppnisstaða útflutningsgreina. Greiðslur verðbóta á fisk úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verða lækkaðar á næstu mánuðum þannig að þær falli niður um næstu áramót. Ríkisstjórnin mun grípa til ráðstafana sem bæti frystiiðnaðinum niðurfellingu verðbótanna með einum eða öðrum hætti verði ekki breyting til batnaðar á ytri skilyrðum greinarinnar á næstunni. Hið sama gildir um niðurfellingu sérstakrar endurgreiðslu söluskatts. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samningstímanum.``
    Ég spurði hæstv. forsrh. við umræður í gær hvort hann teldi að þessu marki hefði verið náð. Ég spurði einnig hæstv. sjútvrh. þessarar spurningar. Hvorugur þeirra svaraði. Nú vænti ég þess að hæstv. fjmrh. svari þessari fyrirspurn hér úr ræðustól deildarinnar á eftir. Þetta er fyrirspurn númer eitt.
    Um aðra grein. ,,Lántökuskattur. Skattur á erlendar lántökur verði felldur niður frá og með 1. júlí nk.``
    Við þetta hefur verið staðið, þó þannig að innlendur skipasmíðaiðnaður var látinn bera lántökugjald það sem af er þessu ári þrátt fyrir samþykki í ríkisstjórninni og samkvæmt heimildum sem ég hef aflað mér úr fjmrn. hefur ekki komið til endurgreiðslu á þeim hluta skattsins þannig að það er út af fyrir sig staðið við þetta fyrirheit, en á hinn

bóginn ekki staðið við þau loforð sem hæstv. viðskrh. að viðstöddum hæstv. fjmrh. gaf hér í deildinni á sl. vori.
    Í þriðja lagi. ,,Vörugjald. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir breytingum á lögum um vörugjald í tengslum við upptöku virðisaukaskatts um næstu áramót með það að markmiði að styrkja samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu. Stefnt verður að því að sem fyrst verði fellt niður vörugjald af öllum vörum sem framleiddar eru hér á landi í mikilli samkeppni við innflutning, en ekki síðar en 1. sept. nk. verður fellt niður vörugjald af framleiðsluvörum húsgagna-, trjávöru- og málmiðnaðar og af aðföngum til þeirra.``
    Það hefur verið staðið við það sem tekur til 1. sept., en það hefur ekki verið staðið við hinn hluta þessa loforðs og það sem raunar er alvarlegra er að hæstv. fjmrh. sagði við fjárlagaumræðu að ekki hefði verið haft samband við aðila vinnumarkaðarins um þetta atriði né önnur sem lúta að breytingum á sköttum. Þetta má sjá í fjárlagafrv.
    Í fjórða lagi. ,,Jöfnunargjald. Jöfnunargjald af innfluttum vörum verður hækkað tímabundið úr 3% í 5% og fellur niður þegar virðisaukaskattur kemur til framkvæmda.`` --- Samkvæmt fjárlagafrv. verður ekki staðið við þetta.
    Í fimmta lagi. ,,Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði lækkaður úr 2,2 í 1,5%.`` --- Við þetta hefur verið staðið.
    Í sjötta lagi. ,,Stimpilgjöld. Ríkisstjórnin mun fyrir næstu áramót beita sér fyrir athugun á ákvæðum laga um stimpilgjöld.`` --- Ég skal ekki um það segja hvort ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir slíkri athugun, en hitt stendur eftir að stimpilgjöld á næsta ári eru áætluð 1,9 milljarðar kr. eða á annað hundrað millj. kr. hærri fjárhæð en nemur öllum tekjuskatti af fyrirtækjum á næsta ári.
    Í sjöunda lagi. ,,Skattlagning fyrirtækja. Ríkisstjórnin mun taka
skattlagningu fyrirtækja til endurskoðunar með tilliti til samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum. Sérstaklega verður tekið mið af þeim breytingum sem verða innan Efnahagsbandalagsins. Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök atvinnurekenda um þessa endurskoðun. Ríkisstjórnin mun við heildarendurskoðun eignarskattslagningar taka til athugunar álagningu eignarskatta á atvinnufyrirtæki.``
    Við þetta hefur ekki verið staðið. Að vísu segir hæstv. iðnrh. að nefnd sem starfi á hans vegum hafi rætt skattamálin við iðnrekendur, en þegar hann var spurður þeirrar spurningar í nótt hvort þessi nefnd hefði komið minnispunktum til hæstv. fjmrh. bárust engin svör við því. Nú spyr ég hæstv. fjmrh. hvort þessi nefnd hafi skilað fjmrh. minnispunktum um þetta atriði en við umræður um fjárlög lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að ekkert samráð yrði haft við samtök atvinnurekenda um þetta atriði heldur yrðu þeir að sætta sig við þá niðurstöðu sem fjmrh. kemst að.

    Í áttunda lagi. ,,Vaxta- og geymslugjald á fjármögnun afurða- og rekstrarlána vegna framleiðslu sauðfjárafurða. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að tryggð verði fjármögnun á uppsöfnuðum vaxta- og geymslukostnaði vegna birgða sauðfjárafurða vegna framleiðsluárs 1988. Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að bankakerfið fjármagni með fullnægjandi hætti með veitingu rekstrar- og afurðalána framleiðslu sauðfjárafurða sbr. bókun í ríkisstjórn frá 28. nóv. 1986.``
    Það kom fram í umræðum á Alþingi í síðasta mánuði að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við greiðslur vegna framleiðslu fyrra verðlagsárs sem olli því að afurðalán til bænda voru lækkuð mjög verulega. Og mér er ekki kunnugt um að afurðalánin séu komin í það horf sem vænst hafði verið. Það væri þó fróðlegt að fá upplýsingar frá hæstv. fjmrh. um þetta atriði.
    Eftir því sem ég kemst næst liggur það ljóst fyrir að ekki hefur verið staðið við sex atriði af átta. Það hefur verið staðið við tvö. Hafi ég mislesið fjárlagafrv. væri fróðlegt að fá um það upplýsingar frá fjmrh. nú. En hitt tel ég óhjákvæmilegt, herra forseti, úr því að fundi var frestað í síðustu viku til þess að ræða þau fyrirheit sem ríkisstjórnin hefði gefið aðilum vinnumarkaðarins við síðustu samningsgerð, að hæstv. fjmrh. kom hér upp og svari þeim fyrirspurnum sem ég hef hér borið fram.
    Ég vil í öðru lagi vekja athygli á kafla úr ræðu hæstv. iðnrh. í Sþ. í gær sem lýsir þeirri stöðu sem kjaramálin eru komin í. Hann vakti athygli á því í sinni ræðu að atvinnuleysi mundi halda áfram að vaxa og hæstv. sjútvrh. boðaði að gengið mundi halda áfram að lækka fram að áramótum en tók þó fram að ekki væri við því að búast að launþegar gætu vænst neinna bóta í staðinn.
    Hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni í gær, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi aðlögun hefur að ýmsu leyti tekist vel. Ég nefni sem dæmi þær áætlanir Seðlabankans að raungengi krónunnar mælt á mælikvarða verðlagsþróunar á Íslandi og í öðrum löndum var um 13% lægra á síðasta fjórðungi ársins í ár,
á þeim ársfjórðungi sem nú er að líða, en það var á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Á sama tíma hefur raungengið á mælikvarða launakostnaðar lækkað um næstum 20%. Þessar tölur um þróun raungengis eru auðvitað til marks um bætta samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina. Raungengi krónunnar er nú svipað og það hefur að jafnaði verið á þessum áratug en auðvitað er líka rétt og heiðarlegt að segja að þessar tölur eru líka til marks um þverrandi kaupmátt. Það var nauðsynlegt, það var óhjákvæmilegt, það er ekki tilgangurinn heldur er það því miður leiðin í málinu.`` Ég endurtek: ,,heldur er það því miður leiðin í málinu.``
    Þegar talað er um að raungengi hafi lækkað um næstum 20% á mælikvarða launakostnaðar þýðir það með öðrum orðum að gengi hefur hækkað 20% umfram hækkun kaupgjalds í landinu, 20% umfram hækkun kaupgjalds í landinu frá ársbyrjun 1988 til

ársloka 1989. Það var af þessum ástæðum sem ég sagði í ræðu minni í gær að eins og nú væri komið væri ekki hægt að kenna of háum launum um þau vandræði sem við stöndum nú frammi fyrir. Erfiðleikar atvinnulífsins eins og nú standa sakir eru ekki vegna þess að launafólk taki of mikið til sín. Það sem veldur okkur erfiðleikum nú er í fyrsta lagi verðbólgan, í öðru lagi hinn hái lánsfjárkostnaður, sem annars vegar er tilkominn vegna þeirrar þenslu sem nú er á lánamarkaði, vegna þeirrar hítar sem ríkissjóður er, vegna þeirra miklu lána sem ríkisstjórnin tekur og vegna hinna háu stimpilgjalda hér á landi, og í þriðja lagi auðvitað eyðslustefna ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í því að á þessum þremur árum sem við sjáum nú fram á minnkandi landsframleiðslu, í fyrra, í ár og núna, á þessum þremur árum sem kaupmátturinn hefur minnkað, í fyrra, í ár og núna, á þessum þremur árum sem einkaneyslan hefur minnkað, í fyrra, í ár og núna, á þessum þremur árum sem dregið hefur úr fjárfestingu (Gripið fram í.) þá hefur ríkið tekið meira til sín. Ríkið tók meira til sín í fyrra, ( Fjmrh.: Í ár og svo núna.) í verðgildi heldur en áður, að magni til en áður. Síðan hefur ríkið, samneyslan, tekið jafnmikið til sín í magni á þessu ári sem þýðir aukningu miðað við landsframleiðslu og stefnt er að því að ríkið taki að magni til jafnmikið til
sín á næsta ári sem líka þýðir aukningu miðað við landsframleiðslu.
    Á sama tíma og þetta gerist sjáum við að erlendar lántökur vaxa hröðum skrefum og ég hygg að það sé ekki ofmælt að greiðslubyrði Íslendinga af erlendum lánum sé komin á hættulegt stig. Þess vegna þurfum við ekki að vera undrandi á því þó hæstv. viðskrh. hafi sagt það í ræðu sinni í gær að leiðin í málinu væri sú að halda þessari kjararýrnun sem þegar er orðin og helst auka hana ef nokkuð er á næsta ári, ef marka má ummæli hans og þau ummæli sem hæstv. sjútvrh. viðhafði þegar þeir réðust að mér með hálfgerðum skætingi þegar ég vakti athygli á þeirri kaupmáttarrýrnun sem orðið hefði á þessu ári. Og báðir töldu að einungis með því að hafa orð á kaupmáttarrýrnuninni væri ég að efna til þess að launþegahreyfingin setti fram nýjar kröfur um kjarabætur, eins og launþegahreyfingin fylgist ekki með því sem hér er að gerast.
    Ég vek athygli á því, herra forseti, að hæstv. iðnrh. er kominn hér inn þegar við erum að ræða um lánsfjárlög og má auðvitað segja að það sé út af fyrir sig gott. Það má auðvitað halda því fram. Ég ætla samt ekki að endurtaka það sem ég hef hér sagt en ítreka þá beiðni sem ég setti fram við hæstv. fjmrh. í fyrri ræðu minni hér að ég mundi fá upplýsingar um þau leyfi sem viðskrn. hefði veitt til langrar lántöku nú á þessu ári þannig að ég gæti með þeim hætti gert mér grein fyrir hvernig að lánum langlánanefndar, eins og einu sinni var sagt, hefur verið staðið og hvort farið hafi verið eftir þeim tilmælum sem lágu fyrir í áætlunum um erlendar lántökur á þessu ári.
    Fyrirspurnir mínar, herra forseti, til hæstv. fjmrh.

liggja beint fyrir og ég vænti þess að hann svari þeim.