Greiðslukortastarfsemi
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra gat er hér um nýmæli að ræða og ég tel eðlilegt að við sem sæti eigum í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar athugum það gaumgæfilega. Það eru atriði, eins og hæstv. ráðherra gat um reyndar sjálfur, t.d. 12. gr., sem ekki er full eining um og er ekkert eðlilegra en að menn greini nokkuð á um slíkt nýmæli í lögum.
    Fjármagnsmarkaður, ekki bara á Íslandi, heldur í hinum vestræna heimi og kannski víðar en á Vesturlöndum, er orðinn flókinn og ýmiss konar greiðsluform eru tíðkuð nú sem ekki þekktist áður og þar á meðal eru þessi greiðslukort.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um málið. Ég veit að hv. þdm. er farið að fækka og vildi þess vegna leggja mitt lóð á vogarskálina að óska eftir því að frekari umræður færu fram í nefndinni því þar gefst tími til að skoða málin og skal ég þess vegna ekki lengja mitt mál.