Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að loksins skuli vera komið fram frv. um stofnun umhverfisráðuneytis. Þó að tíminn sem við veljum til umræðna sé kannski dálítið afbrigðilegur fannst mér eðlilegt að verða við ósk virðulegs forseta um að þetta mál yrði tekið hér á dagskrá. Mér þykir hins vegar verra að enginn ráðherra skuli sjá sér fært að sitja hér núna og hlusta á mál þeirra sem þurfa að ræða þetta mál. Ég leit svo á að hæstv. forsrh. hefði óskað eftir að fá að mæla fyrir þessu máli til þess, vænti ég, að hlusta á það sem aðrir hefðu að segja en ekki eingöngu til að leggja fram frv. Ég óska því eftir því að forseti athugi a.m.k. hvort hann sjái sér fært að hlusta á það sem ég hef að segja. ( Forseti: Vegna orða ræðumanns vil ég geta þess að ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess að a.m.k. þrír ráðherrar yrðu viðstaddir þessa umræðu hér í kvöld og verða nú gerðar ráðstafanir til að ná í þá.) Ég þakka fyrir. Ég mun halda máli mínu áfram og vonast til þess að hæstv. ráðherra sjái sér fært að koma í salinn. Ég tek fram að mér finnst ástæða til þess að fleiri en hæstv. forsrh. séu hér. Ég sé að einn stendur hér í dyrunum. Við skulum láta það duga í bili.
    Eins og hér hefur verið rakið er það ótrúlega löng saga sem stofnun umhverfisráðuneytis hefur að baki sér. Það hefur verið ótrúleg andstaða við að taka með raunhæfum hætti á umhverfismálum og er það miður en það er rakið hér í grg. með frv. hvernig að þessum málum hefur verið staðið hér á landi. Það þurfti Borgfl. til til að ríkisstjórnin tæki á sig rögg og flytti frv. um umhverfisráðuneyti. Það þótti mér mjög merkilegt þar sem Borgfl. hefur ekki verið þekktur fyrir að hafa sérstakan áhuga á umhverfismálum, alla vega hefur það ekki komið fram hér á Alþingi fyrr. Kannski kom það greinilega fram áðan í mjög langri ræðu hæstv. hagstofuráðherra sem segir að vísu að hann sé sá ráðherra sem fari með málefni umhverfisverndar og umhverfismál innan ríkisstjórnarinnar, en ég hélt að ekki væri búið að breyta lögunum og að ráðherrar væru enn með þessi málefni, umhverfisverndarmálefni, undir sínum ráðuneytum, en það er greinilega einhver misskilningur. Langar mig til að fá það frá hæstv. forsrh. hvort nú þegar hafa orðið þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frv. þar sem hæstv. hagstofuráðherra hélt því fram að hann væri sá ráðherra innan ríkisstjórnarinnar sem færi með umhverfismál. Það þóttu mér nýjar fréttir. Ég vil því ekki láta hjá líða að hrósa Borgfl. og hæstv. ráðherranum fyrir að hafa fengið svo mikinn áhuga á umhverfismálum, eins og m.a. kom hér fram, og ég fagna því jafnframt að hann hafi áttað sig á því að það er mjög mikill áhugi á umhverfismálum meðal almennings. Það er vel að loksins skuli honum vera það ljóst. Það eru hins vegar ekki ný sannindi fyrir okkur kvennalistakonur að áhugi á þessum málum er mjög mikill, en það verður að geta þess sem gott er.
    Eins og fram hefur komið átti Kvennalistinn

fulltrúa í nefndinni sem samdi frv. Það var Bryndís Brandsdóttir jarðeðlisfræðingur, og hún starfaði allan tímann með þessari nefnd. Við höfum því haft tækifæri til að fylgjast með störfum nefndarinnar og þó að ég hafi ekki séð frv. í endanlegri mynd, þessi tvö frv. sem hér eru til umræðu, fyrr en í dag, hef ég haft tækifæri til þess að fylgjast þarna með.
    Kvennalistinn lagði fram þáltill. á síðasta löggjafarþingi um stofnun umhverfisráðuneytis þar sem fram koma þær áherslur sem við höfum í þessu máli og ætla ég ekki að rekja þær hér en vísa til þeirrar þáltill. til þess að hægt sé að sjá hvernig við teljum þessum málum best fyrir komið. Frv. sem við fjöllum um hér eru ekki alveg í samræmi við þær óskir sem við höfðum, en hins vegar er mjög margt þar á betri veg frá fyrri tillögum sem fram hafa komið og erum við mjög ánægðar með þær breytingar sem þarna hafa orðið á. Þó er þar einnig mjög slæmur hængur á og það varðar landgræðslu og skógrækt.
    Flestir eru sammála um að landeyðing sé eitt mesta umhverfisvandamál hér á landi og reyndar víðar. Á bls. 6 í athugasemdum með frv. um breyt. á lögum um Stjórnarráð Íslands, 129. máli, segir, með leyfi forseta, að landeyðing hafi verið eitt mesta umhverfisvandamál okkar og það hafi ekki endurspeglast nægilega vel í fyrri frumvörpum. Ég tel ekki að við tökum nærri, nærri nógu vel á þessu máli í frv. þrátt fyrir þetta. Það stendur reyndar á bls. 7, að landgræðsla að því er tekur til gróðurverndar og varna gegn gróðureyðingu, friðunar og eftirlits með ástandi gróðurs eigi að vera viðfangsefni umhverfisráðuneytis. Samt hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja til að þetta stærsta umhverfisvandamál falli ekki undir umhverfisráðuneytið og það hlýtur að vera mjög miður.
    Á bls. 10 í frv. kemur eftirfarandi fram, og vil ég vitna orðrétt í það, með leyfi forseta: ,,Erfiðustu ákvörðunarefni nefndarinnar snertu hins vegar málefni landgræðslu og skógræktar.`` Komu fram ýmsar tillögur um það og síðan kemur aftur orðrétt: ,,Nefndin skilaði því tveimur álitum hvað þetta snertir. Þau Björn Friðfinnsson, Bryndís Brandsdóttir [sem er fulltrúi Kvennalistans] og Guðmundur Ágústsson leggja til að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins
flytjist til umhverfisráðuneytis frá landbrn., en landbrn. fari þó áfram með mál er varða ræktun skjólbelta og nytjaskóga á bújörðum.`` Þetta finnst mér vera mjög eðlileg niðurstaða ef miðað er við að landeyðing er langstærsta umhverfisvandamálið og ég skil ekki að það sé í neinu ósamræmi við það að nytjar séu í höndum fagráðuneyta. Þá er ég að hugsa um t.d. skógrækt, og þó svo að við berum gæfu til þess, og vonandi fyrr en seinna, að við getum nytjað skóg hér á Íslandi svo að einhverju nemi skil ég ekki af hverju ekki er hægt að taka þann hluta sem óneitanlega er umhverfisvernd undan landbrn. en láta nytjarnar vera þar eftir. Mér er þetta algerlega hulin ráðgáta og ég vona svo sannarlega að við berum gæfu til að breyta þessu á þann veg sem þessi tillaga gerir ráð fyrir en

ekki eins og lagt er til í frv. Skora ég því á alla alþingismenn að sameinast um að breyta þessu á þann veg sem hér er lagt til af hluta nefndarinnar, m.a. af fulltrúa Kvennalistans.
    Mig langaði einmitt að bera það undir landbrh. sem var hér áðan, og ég vona að hann heyri mitt mál þó að ég sjái hann ekki akkúrat núna, hvers vegna þetta varð niðurstaðan, hvort hann hafi sett sig gegn því að hluti af þessu færi frá landbrn. Ég bað sérstaklega um að landbrh. yrði hér vegna þessa. Ég sé að taskan hans er hér enn þá. ( Forseti: Vegna þessara orða hef ég nokkrar áhyggjur af því að hæstv. landbrh. kunni að vera farinn. Hann átti að skrifa undir samning hér í næsta nágrenni og þurfti að vera þar viðstaddur og bað afsökunar á því ef hann yrði að hverfa úr húsi áður en þessari umræðu lyki en óskaði þess að ef fsp. kæmu fram yrði þeim komið til hans áður en umræðu um þetta mál yrði lokið.)
    Ég þakka forseta og ætla þá að beina því til hæstv. forsrh. að hann komi þá þessum spurningum til hæstv. landbrh. E.t.v. getur hann upplýst um þetta ef tími vinnst til hér á eftir. En mér þykir þetta með ólíkindum. Hæstv. landbrh., meðan hann var ekki ráðherra, heldur þingmaður, hafði mikinn áhuga á þessum málum og lýsti oft og mörgum sinnum hvaða hug hann bæri til stofnunar umhverfisráðuneytis og hvernig þessum málum yrði best fyrir komið og mér þykir þetta ekki vera í samræmi við hans hugmyndir. Það getur vel verið að ég hafi misskilið hann eitthvað á fyrri stigum en mig langaði sérstaklega til að fá það upplýst hvers vegna þetta varð niðurstaðan af hálfu ríkisstjórnarinnar. Nefndin sem samdi frv. klofnaði í tvo jafna hluta og því var ekki neinn meiri hluta að ræða. Þetta hlýtur því að hafa verið niðurstaða ríkisstjórnarinnar, að leggja þetta fram á þennan veg, og þess vegna vildi ég sérstaklega fá þetta fram.
    Það kemur mér hins vegar ekki á óvart að forsvarsmenn stofnananna tveggja, Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins, hafi verið þessu andsnúnir vegna þess að það er svo einkennilegt með það að þó að allir virðist vera sammála um það að nauðsynlegt sé að stofna umhverfisráðuneyti til að koma einhverju skikki á þessi mál --- allir, það er kannski of sagt, en flestir sem að þessum
málum hafa komið --- þá eru viðkomandi stofnanir ævinlega á móti því af einhverjum einkennilegum ástæðum. Þetta eru ekki einu stofnanirnar, þannig að það kemur mér ekkert á óvart og ég tel það ekki vera nægjanleg rök í málinu. --- Birtist nú hæstv. landbrh. aðeins of seint, ég ætla samt ekki að endurtaka spurningar til hans og vona að hann fái þær frá hæstv. forsrh. sem ég vonast til að komi þeim á framfæri.
    Ég er nefnilega alveg viss um það að þessar stofnanir og þær stofnanir sem hafa unnið að landgræðslumálum og landverndarmálum mundu gera það ekkert síður þó þær væru undir umhverfisráðuneyti en undir landbrn. og þykja það mjög léleg rök að það verði að vera vegna þess að landbúnaður muni nýta afrakstur landgræðslu. Það eru

ekki rök í málinu. Auðvitað gera þeir það áfram þó að við þurfum að hugsa fyrst og fremst um landgræðslu sem umhverfisbætandi aðgerðir.
    Í ákvæðum til bráðabirgða í frv. er gert ráð fyrir mjög einkennilegri lendingu. Ég verð að segja það að ég hef verulegar áhyggjur af því ef á enn að ýta þessum málum á undan sér, taka þessi tvö mál út úr og ýta þeim nokkra mánuði fram í tímann og vonast til að þetta leysist nú einhvern veginn.
    Ég er mjög ósátt við þessa niðurstöðu og ég verð líka að segja varðandi þessa umhverfisverndarstofnun að þar held ég að hafi ekki verið hugsað mjög langt. Ég er ekki viss um að ráðherrar hafi gert sér grein fyrir hvernig þessum málum er fyrir komið í kerfinu. Að vísu minntist hæstv. hagstofuráðherra á það hér áðan að vel gæti komið til greina að Náttúruverndarráð og Náttúrufræðistofnun Íslands félli undir þessa stofnun. Ég veit ekki hvort ráðherrann áttar sig á hvernig málum er fyrir komið í þessum tveimur stofnunum, þannig að ég held að þetta sé mjög vanhugsað. Ég held að það væri betra að færa þetta í þá veru sem hluti nefndarinnar lagði til og ég er búin að gera að tillögu minni að verði tekið upp hér frekar en að fara þessa einkennilegu leið sem valin hefur verið.
    Varðandi ábyrgð atvinnugreina sem hér hefur verið minnst á og hæstv. forsrh. minntist á, að hver atvinnugrein verði að bera ábyrgð á sínum athöfnum. Auðvitað verður hún að gera það. Það breytist ekki neitt. Þó að stofnað verði umhverfisráðuneyti sem á að sjá um þessi mál breytir það ekki því að hver og
einn ber sína ábyrgð, ekki bara atvinnugreinar, heldur hvert og eitt okkar. Það má alls ekki líta svo á, þó að hluti af því sem hefur verið falið einu ákveðnu ráðuneyti, t.d. landbrn., fari undan því ráðuneyti, að það fríi þá atvinnugrein ábyrgð. Það er auðvitað af og frá.
    Það var vitnað hér í svokallaða Brundtland-skýrslu af hv. 2. þm. Reykn. og sú skýrsla hefur reyndar oft verið notuð áður í umræðu um umhverfisráðuneyti. Það er alveg rétt að í þeirri skýrslu stendur, og reyndar ekki bara í þessari skýrslu heldur fjölmörgum öðrum, að ekki sé hægt að skilja að efnahagsmál og umhverfismál. Það er svo sannarlega rétt. Það er bæði nýr og gamall sannleikur að það er ekki hægt. Við höfum að vísu ekki borið gæfu til þess að fara eftir því hér að tengja þetta saman og eins og væri mjög nauðsynlegt. Þessi skýrsla, Brundtland-skýrslan, hefur mjög oft verið notuð sem rök gegn umhverfisráðuneyti og því er haldið fram, og m.a. hér úr ræðustól áðan, að þar sé beinlínis mælt gegn stofnun umhverfisráðuneytis. Ég held að það væri ráðlegt að þeir sem halda þessu fram læsu nú einu sinni þessa skýrslu svo þeir geti vitnað rétt í hana. Hún er þá mjög einkennilega lesin ef hægt er að lesa það úr henni. Ég geri það eiginlega að tillögu minni að þeim sem sitja í allshn. þessarar deildar og fá þetta mál til meðferðar verði útveguð þessi skýrsla til aflestrar og athugað hvort þeir komast ekki að einhverri annarri niðurstöðu en hér var fullyrt áðan.

    Því var líka haldið fram að varað hefði verið við því að stofna ráðuneyti og að á Norðurlöndum sé fólk sem telji að þessum málum sé mjög illa fyrir komið í sérstöku umhverfisráðuneyti. Mér þykir þetta jafneinkennilegar fullyrðingar, og allt það fólk sem ég þekki og hefur unnið að þessum málum er ekki þessarar skoðunar. Ég held því að þarna sé eitthvað málum blandið og vil endilega að fólk lesi nú einu sinni það sem verið er að vitna til og að mínu mati á rangan veg.
    Hér í tillögunum er ekki gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun falli undir umhverfisráðuneyti. Ég hefði talið það koma vel til greina, og það var m.a. eitt af því sem Kvennalistinn lagði til á sínum tíma. Stærstur hluti af því sem þar fer fram er að sjálfsögðu hlutverk sem mundi falla vel undir umhverfisráðuneyti. Það er ekki tillaga nefndarinnar að svo verði gert. Ég hefði talið það fyllilega geta komið til greina þó að ég geti fallist á að það megi bíða að sinni.
    Ég vona að Alþingi beri gæfu til að samþykkja stofnun umhverfisráðuneytis á þessu þingi vegna málsins sjálfs en ekki bara til þess að einhverjir ákveðnir menn geti notað titilinn ,,umhverfisráðherra``. Málið er mjög brýnt og við þurfum að taka mið af langtímamarkmiðum í okkar þjóðarbúskap. Það hefur ekki verið gert varðandi umhverfið. Það er kominn tími til að snúa við blaði af alvöru. Stofnun umhverfismálaráðuneytis, ein sér, verður aldrei til að tryggja að svo verði. Það þarf hugarfarsbreytingu og að tillit sé tekið til umhverfis í öllum ákvörðunum stjórnvalda, litlum sem stórum. Ég bind vonir við að svo verði frekar gert eftir stofnun umhverfismálaráðuneytis ef vel er að verki staðið. Það þarf þá líka að standa vel að þessu máli og flumbra ekki að þessu og vera ekki með einhverjar málamiðlunartillögur sem í raun taka ekki á alvarlegasta umhverfisvandamáli sem við búum við hér á Íslandi.