Álag á óunninn fisk til útflutnings
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Aðeins út af þessum síðustu orðum, þá er það að sjálfsögðu aðalatriði hvernig við túlkum þessi mál. Í því sambandi verður, eins og hæstv. utanrrh. kom hér réttilega inn á, að líta á þá staðreynd hvernig þetta mál er tilkomið, þ.e. þegar aflaskiptin áttu sér stað fyrir árið 1984 fengu þau skip sem höfðu eytt tíma sínum til siglinga þetta metið með álagi ofan á sína kvóta og síðan var dregið frá aftur og þá var þetta 25%, þannig að það er alveg óþarfi að vera að líkja því við einhver mál í Kanada. Þeirra veiðum er háttað með allt öðrum hætti. Menn geta því verið alveg rólegir yfir því að við erum í fullum rétti gagnvart Efnahagsbandalaginu í þessu máli og er leitt til þess að vita að einstakir aðilar sem hafa vinnu af því að flytja út fisk hér á landi skuli vera að reyna að draga það í efa að þetta standist gagnvart Efnahagsbandalaginu. Það væri e.t.v. nær að tala um það með hvaða hætti þeir eru að byggja upp fríverslun með fisk, með endalausum niðurgreiðslum. Og hvað er að ske í gæðakröfum t.d. í Bretlandi? Ætli það þurfi ekki ýmislegt að breytast þar til þess að það sé sambærilegt við það sem gerist hér á landi? Mér finnst því vera einum of mikið rætt um þetta mál á þeim nótum að við séum með einhverjum hætti brotlegir gagnvart Efnahagsbandalaginu. Ég held að það sé miklu nær að tala um það með hvaða hætti mál eru á þeim bæ og ekki vera að vekja upp þessar efasemdir einmitt meðan við stöndum í erfiðum samningum. Ekki veitir nú af að halda þar á öllum málum með þeim hætti sem rétt er og því engin ástæða til að draga rétt okkar í þessu máli í efa.