Lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans, en eins og það bar með sér, þá er nú ekki sérstaklega tekið á þessu máli sem ég var að ræða. Skipting lífeyrisréttinda sem hjúskapareignar er mjög flókið og erfitt mál og vant að sjá að náist fram réttlæti í því. Ég sé ekki fyrir mér í augnablikinu hvernig því verður fyrir komið. En auk þess er ekki tekið á því máli sem er grundvöllurinn fyrir þessu og það er að heimavinnandi húsmóðir er sérstakur einstaklingur en ekki viðhengi við eiginmann og sem einstaklingur á hún rétt á lífeyri. Það er grundvöllurinn í þessu máli.
    Þál. er viljayfirlýsing Alþingis og þál. frá 1987 fjallaði um að það yrði tekið á þessu máli. Það hefur tekið ríkisstjórnina töluvert langan tíma að hafa þetta mál til umhugsunar og ekki séð að hún hafi í rauninni hugsað neitt fyrir því. Það er kannski að einhverju leyti af þeim sökum að ríkisstjórnir hafi verið töluvert óstöðugar í sessi síðan 1987 en ég vildi nú samt beina því til hæstv. fjmrh. að skoða þetta mál betur.