Fjármál og fjárveitingar ríkisstofnana
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið áður hef ég látið vinna sérstaka skýrslu um þróun ríkisútgjalda á sl. sjö til átta árum þar sem raunbreytingar sjást mjög rækilega á mikilvægustu liðum fjárlaganna og ég mun leggja þessa skýrslu fyrir Alþingi fljótlega.
    Vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda um málefni ríkisspítalanna sýnir ríkisreikningurinn fyrir árið 1988 að ríkisspítalarnir hafa farið 5% fram úr því sem fjárlögin og aðrar heimildir fólu í sér. Niðurstaða ríkisreikningsins varðandi ríkisspítalana er 4 milljarðar 294 millj. kr. í útgjöld og greiðslur á árinu 1988, en fjárlagaheimildin var 4 milljarðar og 2 millj. kr. Það er þess vegna misskilningur sem ég hef heyrt oftar en einu sinni að ríkisspítalarnir hafi verið innan ramma fjárlaga á árinu 1988, því að eins og sjá má á þeirri blaðsíðu í ríkisreikningnum sem er fyrir árið 1988, á bls. 257 í ríkisreikningnum, þá kemur þessi niðurstaða fram að ríkisspítalarnir fóru 292 millj. kr. fram úr fjárlagaheimildum á árinu 1988. Þegar búið er að taka tillit til verðbreytinganna og til aukafjárveitinga, sem má segja að sé sanngjarnt að gera, þá fóru ríkisspítalarnir engu að síður u.þ.b. 17 millj. umfram fjárlög á árinu 1988.
    Það er einnig rétt að vekja athygli á því hér vegna málefna ríkisspítalanna að á árinu 1988 fengu ríkisspítalarnir aukalega 40 millj. kr. til þess að greiða niður skuld við Lyfjaverslunina, en skuldirnar í árslok 1988 voru engu að síður þær sömu og í árslok 1987 þannig að þessari greiðslu virðist hafa verið varið í annað en til að greiða þessar skuldir.
    Það er einnig rétt að hafa það í huga að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar, bls. 57 og 59, ákvað heilbr.- og trmrh. að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunarinnar greiddi rannsóknarkostnað ríkisspítalanna sem ekki var gert áður og kom það þannig fram sem viðbótarframlag til Tryggingastofnunarinnar, en auðvitað er rétt að hafa það í huga þegar verið er að bera saman fjárhagslega útkomu ríkisspítalanna frá einu ári til annars.
    Það er hins vegar alveg rétt að ríkisspítalarnir eru vel reknir. Það hafa verið framkvæmdar fjölmargar aðgerðir til aðhalds og sparnaðar og ég veit að þar er mikill vilji hjá starfsfólki öllu til þess að tryggja góða meðferð fjármuna. Það er hins vegar því miður ekki rétt sem kom fram í máli fyrirspyrjanda og oft hefur heyrst áður að ríkisspítalarnir hafi haldið sig innan ramma fjárlaga. Niðurstaða ríkisreikningsins fyrir árið 1988 liggur fyrir á borðum alþingismanna.