Innheimta söluskatts af tryggingaiðgjöldum
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. málshefjanda, þá er það alveg skýrt í gildandi lögum um virðisaukaskatt að vátryggingarstarfsemi mun ekki bera virðisaukaskatt af þeim ástæðum sem hér voru greindar áðan og fela fyrst og fremst í sér alþjóðlegt samkeppniseðli þessarar greinar. Þess vegna hefur það verið ljóst að söluskattstímabil af vátryggingum væri aðeins til loka þessa árs. Af þeirri ástæðu einni saman hefði verið eðlilegt hjá tryggingarfélögunum að innheimta eingöngu söluskatt af tryggingum fram að næstu áramótum.
    Nú er hins vegar ljóst að tryggingarfélög hafa í nokkrum mæli innheimt söluskatt af ýmsum flokkum trygginga fyrir tímabilið eftir áramót, á nokkrum mánuðum á hinu nýja ári þegar söluskattur verður af lagður og virðisaukaskattur hefur tekið við. Til þess að taka af öll tvímæli í þessum efnum og gera málið alveg skýrt hef ég, eftir viðræður við forsvarsmenn tryggingarfélaganna og ríkisskattstjóra, tekið þá ákvörðun að beina þeim tilmælum til vátryggingarfélaganna og því erindi til ríkisskattstjóraembættisins að þar sem söluskattur hafi nú þegar verið greiddur af vátryggingum sem gilda eftir 1. janúar, þá verði sá söluskattur endurgreiddur. Ég hef óskað eftir því að tryggingarfélögin annist þessa endurgreiðslu til viðskiptavina sinna og síðan muni fjmrn. og ríkissjóður gera upp við tryggingarfélögin sjálf. Það er því alveg ljóst að þeir einstaklingar og fyrirtæki sem nú þegar hafa greitt söluskatt fyrir tímabilið eftir 1. janúar eiga rétt á því og munu fá þann skatt endurgreiddan og tryggingarfélögin og fjmrn. munu hafa samstarf um þá endurgreiðslu. Þessi ákvörðun hefur í senn verið tilkynnt ríkisskattstjóraembættinu og forsvarsmönnum tryggingarfélaganna.