Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. ,,Flokksstjórn Alþfl. heitir á ráðherra og þingflokk Alþfl. að vinna að því að gildistöku virðisaukaskatts verði frestað til 1. júlí 1990.`` Þetta eru stór orð frá flokksstjórn Alþfl. til ráðherra og þingflokks þess flokks. Þetta eru ekki einhver samtök úti í bæ sem álykta á þennan veg. Þetta er æðsta stofnun Alþfl., eins stjórnarflokksins, æðsta stofnun fyrir utan flokksþing. Það er því alveg ljóst að þetta mál er í uppnámi.
    Það taka enn margir mark á flokksstjórn Alþfl., undarlegt nokk. Ræða formanns Alþfl., hæstv. utanrrh., sem fór undan í flæmingi hér áðan og reyndi að draga úr þessari samþykkt eins og hann gat, sýnir þó að það er væntanlega helst hann hér sem ekki vill taka mark á samþykkt flokksstjórnar Alþfl. Hann vill augljóslega í þessu máli eins og reyndar mörgum fleiri lúta gagnrýnislaust forustu formanns Alþb. Þegar hann talar finnst mér eins og rödd úr eigin munni, sagði þessi hæstv. ráðherra ekki alls fyrir löngu.
    Borgfl. mun ekki gráta frestun, segir einn stjórnarflokkurinn. Þeir munu ekki gráta frestun á upptöku virðisaukaskatts.
    Það er alveg ljóst að uppákoma af þessu tagi nú örfáum vikum áður en þetta mál á að koma til framkvæmda setur málið allt í mikla óvissu og setur málið allt í uppnám. Ég segi fyrir mig að þó ég hafi verið eindreginn stuðningsmaður þess að virðisaukaskattur verði tekinn upp og hafi fallist á þau rök sem með honum mæla, þá tel ég það af hinu góða, ég mundi fagna því ef frestun yrði á því að þessi skattur yrði nú tekinn upp eins og til stendur um næstu áramót. Það er stefnt að því að taka upp 26% virðisaukaskatt, það er stefnt að því að taka hér upp hæsta virðisaukaskatt í heimi. Og þessari skattglöðu ríkisstjórn er ekki treystandi til að taka upp skatt af þessu tagi, henni er ekki treystandi til þess að koma í framkvæmd jafnmikilvægu og umfangsmiklu máli og hér um ræðir.