Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það þarf ekki að koma nokkrum manni á óvart að tillaga sem þessi skuli vera flutt hér á hinu háa Alþingi. Ástæða þess er fyrst og fremst skýrsla sú sem Ragnar Kjartansson tók saman um íslensk reikningsskil og störf endurskoðenda sem leiddi það í ljós að víða virðist pottur brotinn í störfum þeirra. Ég ætla ekki að leggja mat á það hvort allt er satt og rétt sem fram kemur í skýrslunni, en bendi þó á að ekkert af höfuðatriðum skýrslunnar hefur verið hrakið með neinum rökum þrátt fyrir nokkra opinbera umfjöllun. Því er það skylda okkar að taka málið hér upp og fara fram á endurmat á störfum endurskoðenda. Það endurmat verður hins vegar að fara fram með opnu og jákvæðu hugarfari en ekki því hugarfari sem mér hefur þótt bera lítillega á, að verið sé að ráðast að einni tiltekinni stétt manna. Það er alrangt og reyndar tel ég að endurskoðendur og notendur íslenskra reikningsskila ættu að fagna því að málefni þeirra skulu vera til umræðu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, enda getur ekkert nema gott komið út úr endurmati sem þessu. Enda segir skýrsluhöfundur svo á bls. 9 í skýrslu sinni, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur þessarar umfjöllunar er ekki sá að kasta rýrð á endurskoðendur sem vissulega þurfa þó að samræma vinnubrögð sín og aðferðafræði. Höfundur er miklu fremur að benda á vanda endurskoðenda, þversagnir í störfum þeirra og að hugtakið ,,góð reikningsskilavenja`` er því sem næst orðið tómt og skyldi notað sparlega án samræmdrar skilgreiningar.``
    Hæstv. forseti. Stefán Svavarsson endurskoðandi sem ritað hefur nokkuð um málefni endurskoðenda undanfarið segir m.a. eftirfarandi í fyrri skrifum sínum um tiltekið reikningsskiladómsmál í Bandaríkjunum, með leyfi forseta:
    ,,Það sem kviðdómurinn, dómarinn og margir aðilar sem um málið fjölluðu áttuðu sig ekki á var að höfuðpaurinn og aðalsökudólgurinn í málinu gengur laus og hefur ekki enn verið sakfelldur. Nafn þessa þrjóts er ,,góð reikningsskilavenja``.``
    Í svipaðan streng tekur Sigurður H. Pálsson, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, í grein í tímariti um endurskoðun þar sem hann ritar um áritanir og ábyrgð endurskoðenda, en hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Góð endurskoðunarvenja er nefnilega nánast óskilgreint fyrirbæri á Íslandi.``
    Þetta er mergurinn málsins. Góð samræmd reikningsskilavenja virðist í rauninni ekki til. Hugtakið er þvælt og í meira lagi teygjanlegt og úr því þarf að bæta, og er það m.a. tilgangurinn með tillögu þessari.
    Ég vona á hinn bóginn að rangt sé með farið hjá skýrsluhöfundi á bls. 16 þar sem hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Viðmælendur úr hópi löggiltra endurskoðenda hafa tjáð RKj að áberandi vilji sé innan greinarinnar að gefa ekki út skýrar reglur. Þær megi eingöngu vera leiðbeinandi, helst loðnar, þannig að svigrúm skapist

til frávika.``
    Fyrir mitt leyti get ég verið því sammála að ákveðið svigrúm þarf að vera til staðar, en reglur verða að vera skýrar og öll frávik frá þeim innan skilgreindra marka. Á hinn bóginn er það alvarlegt mál ef það er almennur vilji endurskoðenda að viðhalda því ástandi sem nú virðist vera til þess eins að geta farið með reikningsskil nánast eftir eigin hentisemi. Það er gersamlega óviðunandi ef rétt er.
    Hæstv. forseti. Um störf endurskoðenda er fjallað í lögum um löggilta endurskoðendur og í lögum um hlutafélög. Löggiltir endurskoðendur hafa sjálfir mótað starfsreglur sínar með svonefndum leiðbeinandi reglum um reikningsskil og endurskoðun. Íslensk reikningsskil taka mið af ákveðnum reglum sem gera ráð fyrir verðbólguaðstæðum. Á því var byrjað fyrir u.þ.b. 10 árum í kjölfar nýrra skattalaga sem gerðu ráð fyrir endurmati eigna og reiknuðum tekjum eða gjöldum vegna verðlagsbreytinga. Upptaka þeirra var mikil bylting í íslenskum reikningsskilum. Síðar komust endurskoðendur að því að þessi skattalagaaðferð var ekki nógu nákvæm, m.a. vegna þess að hún tók ekki mið af atburðum sem gerðust innan viðkomandi árs heldur einungis stöðu í byrjun árs. Því voru teknar upp svonefndar fráviksaðferðir sem fyrst voru aðallega notaðar hjá stærri fyrirtækjum en hafa síðan breiðst út. Sá vandi sem nú blasir við virðist einkum felast í því að sumir endurskoðendur hafa túlkað þessar reglur í ýmsar áttir og svo virðist sem á stundum gæti hentistefnu í þeim skilgreiningum, þ.e. að verið sé að freista þess að sýna aðra niðurstöðu í rekstrarafkomu eða fjárhagsstöðu fyrirtækja og stofnana þannig að ýmist geti verið um það að ræða að sýna betri eða verri stöðu, allt eftir því hvað kemur fyrirtækinu eða stofnuninni betur. Um þetta er tekinn fjöldi dæma í títtnefndri skýrslu Ragnars Kjartanssonar.
    Hæstv. forseti. Það er alvarlegt mál ef endurskoðendur, eða hluti stéttar þeirra, hafa brugðist því trausti sem þeir hingað til hafa notið. Þeim hefur verið treyst til þess að móta samræmd vinnubrögð til notkunar í greininni. Þau vinnubrögð þurfa að vera stöðluð og samanburðarhæf á milli fyrirtækja, á milli ára og milli atvinnugreina og þeim þarf að vera hægt að treysta fullkomlega. Löggjafinn á að blanda sér inn í þetta mál og láta fara fram endurskoðun á
þeim lögum sem að þessu snúa, þ.e. lögum um hlutafélög og lögum um löggilta endurskoðendur. Lögin þurfa og eiga að vera það skýr að þau taki af öll tvímæli þannig að ekki sé nokkur hætta á losarabrag í íslenskum reikningsskilum. Vel mætti hugsa sér að ráðherra gæfi út nákvæmar reglugerðir um störf endurskoðenda. Lögin þurfa hins vegar að vera það skýr að ljóst á að vera ef um lögbrot er að ræða og hver hugsanleg viðurlög geti verið.
    Frá því að við lögðum fram þessa tillögu hafa ýmsir endurskoðendur komið að máli við okkur til þess að koma sínum skoðunum og viðhorfum á framfæri. Margir þessara manna hafa lagt á það áherslu að innan stéttar löggiltra endurskoðenda, sem telur um 200 manns, séu mjög skiptar skoðanir og

talsverður ágreiningur um málið. Nokkrir hafa bent á að gagnrýni Ragnars Kjartanssonar beinist einkum að fáum en stórum aðilum í greininni. Þeir segja að allmargir endurskoðendur séu í rauninni sammála gagnrýni Ragnars og hafi um langt skeið verið óánægðir með hvað menn hafa leyft sér að ganga langt í skilgreiningu á reikningsskilum íslenskra fyrirtækja að því er virðist eftir eigin höfði.
    Talsverður fjöldi endurskoðenda, einkum á smærri stofunum, beita ógjarnan þessum umdeildu aðferðum og hafa illa sætt sig við þá ringulreið sem komið hefur verið á. Einn viðmælandi minn lét í ljós þá skoðun að þeir stóru teldu sig yfir alla gagnrýni hafna og að smærri aðilar ættu einfaldlega að aðlaga sig stefnu stóru stofanna.
    Aðrir töldu skýrslu Ragnars Kjartanssonar orð í tíma töluð og eitthvað það merkilegasta sem tekið hefur verið saman um þennan málaflokk um langt skeið, enda hefur hún orðið tilefni talsverðra skoðanaskipta. Það er ekki óþekkt á Vesturlöndum að komið hafa upp vandamál vegna starfa endurskoðenda, þannig að löggjafarvaldið hafi orðið að taka í taumana. Til að mynda kom upp mikil óánægja með störf löggiltra endurskoðenda í Bandaríkjunum. Það leiddi til þess að lagafyrirmæli voru gerð miklu skýrari og vinnureglur endurskoðenda voru settar í mun fastari skorður í lögum og reglugerðum. Það sama gæti gerst hér og orðið niðurstaða þeirrar könnunar sem við erum hér að mælast til að gerð verði.
    Hæstv. forseti. Eitt af því sem blandast óhjákvæmilega inn í þetta mál er sú staðreynd að hér á landi er verið að vinna að því að efla hlutabréfamarkað. Það er m.a. stefna stjórnvalda að hvetja almenning til þátttöku í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum fyrirtækja og renna með því styrkari stoðum undir atvinnulífið í landinu. Vísir að hlutabréfamarkaði hefur verið að myndast og hafa hlutabréf allnokkurra fyrirtækja gengið kaupum og sölum hjá virtum fyrirtækjum og haft skráð markaðsverð. Það sjá því allir hversu mikilvægt það er að reikningsskil þeirra fyrirtækja sem hafa skráð gengi á hlutabréfamörkuðunum séu örugg og hafin yfir alla gagnrýni, en meðal þeirra eru nú fyrirtæki sem sum voru um síðustu áramót gerð upp miðað við gengi 31. des. 1988 og önnur sem voru gerð upp miðað við gengi skráð 3. jan. 1989, eftir 4--5% gengisfellingu sem varð um áramótin. Mismunurinn á þessum tveimur aðferðum getur munað tugum og jafnvel hundruðum milljóna í afkomu þessara fyrirtækja. Og þá geta menn spurt sem eru að kaupa og/eða selja hlutabréf á mörkuðunum hvor aðferðin er rétt og hvor er röng. Varla geta þær báðar verið réttar. Spyr sá sem ekki veit.
    Auðvitað er þetta afleiðing ósamræmdra vinnubragða sem endurskoðendur hafa sjálfir kallað yfir sig. Dæmi hefur verið nefnt um útgerðarfyrirtæki sem hækkaði verð togara sinna um 140 millj. kr. umfram það sem flokkast undir viðurkenndar aðferðir við reikningsskil. Með því var eiginfjárstaða

fyrirtækisins sýnd betri sem nam sömu fjárhæð. Þetta fyrirtæki er skráð með hlutabréf sín á hlutabréfamörkuðum og væntanlega er fólk að kaupa það upp. Ætli fólk viti hvernig staðið er að reikningsskilum á þeim bæ og hvaða áhrif þetta getur haft á verðgildi hlutabréfanna? Þarna er verið að leika hættulegan leik því eitt alvarlegt slys á þessum vettvangi getur tafið stórlega fyrir nauðsynlegri framþróun á okkar ófullkomna verðbréfamarkaði. Það er eitt af hlutverkum Alþingis að gæta hagsmuna þegnanna. Þess vegna er það skylda okkar að benda á það þegar verið er að möndla með afkomu fyrirtækja, þannig að niðurstöður geti jafnvel haft áhrif á verðlag í landinu. Sá möguleiki er vissulega til staðar því hér getur allt eins verið um að ræða fyrirtæki sem þarf að sækja til yfirvalda til að fá leyfi fyrir hækkun á vörum sínum eða þjónustu og ef niðurstöðutölur ársreiknings sýna annað en rétt er getur það haft áhrif á hækkanaheimildir til fyrirtækisins eða stofnunarinnar og við það rýrt kaupmátt fólksins í landinu að óþörfu.
    Hæstv. forseti. Ég á töluvert eftir að ræðunni. Ég veit ekki hvort ég má syndga upp á seinni ræðutíma minn. ( Forseti: Ég held ég hljóti að verða að biðja hv. þm. að nýta seinni ræðutímann til að halda áfram.) Þá geri ég það og lýk máli mínu hér.