Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka bæði hv. 5. þm. Vesturl. og 10. þm. Reykv. fyrir þeirra þátttöku í þessum umræðum. Þetta mál er mjög mikilsvert í alla staði og því hlýtur það að vera hlutverk Alþingis að kynna sér það og fara yfir slík mál því að það skiptir náttúrlega ákaflega miklu máli að reikningsskil séu með þeim hætti að þau endurspegli það sama frá einu fyrirtæki til annars, sem eru í sams konar rekstri. Það er meginmálið. Það kom vel fram í máli hv. 10. þm. Reykv. að Stefán Svavarsson hefði bent á þrjár aðferðir við endurmat eigna, en skv. því sem hægt var að lesa út úr skýrslu Ragnars Kjartanssonar er hér um 19 afbrigði að ræða sem eru ekki eins, heldur öll ólík, þannig að hér er um miklu fleiri afbrigði að ræða heldur en hann ræðir um.
    Ég vil einnig minnast á það sem hv. 10. þm. Reykv. kom inn á hér varðandi færslu á togara, en í Fréttabréfi löggiltra endurskoðenda kemur þetta alveg skýrt fram. Í bréfi þeirra, 12. árg., 3. tbl. 1989 er þetta sérstaka dæmi tekið til umfjöllunar og segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Miðað við ársreikning fyrir 1987 nemur mismunur í eigin fé félaganna rúmum 200 millj. kr. eftir því hvor aðferðin er notuð. En í áritun endurskoðenda félaganna kemur fram að báðir ársreikningarnir séu gerðir í samræmi við góða reikningsskilavenju.``
    Í lok þessa bréfs koma greinilega fram vítur á þessa reikningsfærslu eins og hún er gerð hjá félaginu. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Reikningsskilaaðferð sú er felst í notkun opinbers mats við ákvörðun bókfærðs verðs fiskiskipa í efnahagsreikningi hefur hvorki fengið formlega umfjöllun reikningsskilanefndar félagsins né hlotið almenna viðurkenningu félagsmanna. Hún verður því ekki talin samrýmast viðurkenndum reikningsskilavenjum hér á landi.``
    Það er alveg afdráttarlaust í Fréttabréfi Félags löggiltra endurskoðenda tekið af skarið, að færslan hjá umræddu útgerðarfélagi á reikningshaldi samrýmist ekki viðurkenndum reikningsskilavenjum hér á landi. Það er nokkuð ljóst að það hefur leitt til þess að þessi hlutabréf, sem eru á markaði hér, hlutabréfamarkaðnum, hafa væntanlega verið seld á hærra verði en eðlilegt getur talist.
    Það hefur verið rætt hér um eftir hvaða gengi eigi að skrá skuldir félags og rætt hefur verið töluvert um Landsvirkjun. En skuldir Landsvirkjunar voru, þegar þetta dæmi var tekið, í kringum 29 milljarðar kr., í erlendum skuldum 25 milljarðar kr. og 3 milljarðar kr. í innlendum skuldum, sem þýðir þá að mismunurinn, eftir því hvor aðferðin er notuð, er í kringum 1 milljarð, það fer ekki á milli mála.
    Hvað varðar Seðlabankann, þá er náttúrlega eðlilegt, miðað við aðstæður á Íslandi og reikningsskilaaðferðir hér, að eignir séu skráðar. Það er hins vegar rétt hjá hv. 10. þm. Reykv. að hjá ríkinu hefur ekki verið venja að skrá allar eignir nákvæmlega með þeim hætti sem bæði sveitarfélög og

öll önnur fyrirtæki gera. Það væri æskilegt að til væri í ríkisreikningi fullkomin eignaskrá með þeim hætti sem er hjá öðrum fyrirtækjum svo að menn hefðu hugmyndir um hverjar eignir ríkisins væru og hve hátt þær væru metnar.
    Ég vil að lokum þakka þá umræðu sem hér hefur verið og vil þó ítreka það að það hlýtur að vera verkefni Alþingis að gæta hagsmuna almennings í landinu. Þess vegna er það hlutverk okkar að benda á, þegar ætla má að við séum að möndla með afkomu fyrirtækja þannig að þær niðurstöður geti jafnvel haft áhrif á verðlag í landinu. Hér getur verið um fyrirtæki að ræða sem þurfa að sækja til yfirvalda leyfi fyrir hækkunum á vörum sínum og þjónustu. Ef niðurstöður ársreikninga þessara fyrirtækja sýna annað en rétt er getur það haft áhrif á verðhækkanir hjá þessum fyrirtækjum og þá er það alvarlegt mál sem hefur áhrif á verðlagið til hækkunar og getur rýrt kaupmátt fólksins í landinu. Þetta atriði er mjög mikilvægt og við hljótum að hugsa um það og taka afstöðu til þess á hvern hátt er hægt að hafa ársreikninga fyrirtækja sem allra mest samræmda þannig að það sé ekki hægt að færa til hagnað eða tap á hverju ári með mismunandi reikningsskilaaðferð. Það fer auðvitað eftir því hvort það er fært á fyrsta gengi árs eða síðasta gengi ársins áður. Það er hægt að færa til hagnað eftir því sem mönnum þykir henta hverju sinni þannig að það verður aldrei samræmd niðurstaða í reikningnum. Þetta er meginefni þessa máls og því er mikilsvert að komið verði á samræmdum vinnubrögðum í þessu og ég treysti að sjálfsögðu löggiltum endurskoðendum allra manna best til að koma þessum aðferðum á og tel að það sé mjög mikilsvert að hafa samráð við þá ef þessi tillaga verður samþykkt.