Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta frekar en kom fram í framsögu minni. Mig langar aðeins til að þakka fyrir þær undirtektir sem málið hefur fengið hér hjá þeim tveimur hv. þm. sem tekið hafa til máls og nota reyndar tækifærið til þess að þakka hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur fyrir hennar frumkvæði í þessu máli öllu saman. Upphafið að því að þessi till. til þál. liggur hér fyrir var sú vinna sem hún setti af stað í heilbrrn. og þær samþykktir sem við höfðum gert á alþjóðavettvangi með þátttöku okkar í starfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
    En auðvitað er það rétt, eins og hér kom fram hjá þessum tveimur hv. þm., að um einstök afmörkuð atriði getur auðvitað verið einhver ágreiningur, um það hvernig staðið skuli að framkvæmd í einstökum atriðum. En aðalmálið er auðvitað að ná saman um stefnumótun og stefnumörkun þessa mikilvæga málaflokks til lengri tíma og ég vænti þess sannarlega að það Alþingi sem nú situr geti lokið við afgreiðslu þessarar þáltill. og vil segja frá því þá í leiðinni að það hafa nágrannaþjóðir okkar gert nú þegar. Mér hafa borist þeirra samþykktir á heilbrigðisáætlun fram til aldamóta. Þar hefur verið unnið mjög merkilegt og mikið starf og samþykktar ítarlegar ályktanir.
    Auðvitað er það rétt eins og kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. að það er líka stundum erfitt að samræma sjónarmið sem við er að glíma á hverjum tíma, eins og t.d. það að skattlagning falli að markmiðum um neyslu- og manneldismál. Reyndar höfum við nýlega samþykkt hér á þingi sérstaka stefnu hvað varðar neyslu- og manneldismál og ég hef reynt að leggja áherslu á að þau sjónarmið sem þar eru fram sett séu höfð til hliðsjónar þegar ákvörðun er tekin um skattlagningu sem hefur áhrif á verðlagninguna og er þá nokkurs konar verðstýring. En verðlagning hefur líka áhrif á neyslu, það vitum við einnig, fyrir því eru mýmörg dæmi og óþarfi að rekja. En þetta er ekki alltaf einfalt að samræma og vissulega er einmitt nú þessa dagana verið að taka ákvarðanir um álagningu virðisaukaskatts sem getur haft þarna veruleg áhrif.
    Ég tel ekki efnisleg rök fyrir því að ræða það ítarlega hér og nú eða fara að fjalla um það hvernig þau mál standa í augnablikinu, en að þessu er unnið innan ríkisstjórnarflokkanna og allra næstu daga hlýtur að verða að taka ákvörðun um það hvernig þeim málum verður skipað ef takast á að standa við það markmið, sem ég vona sannarlega að verði, að skattkerfisbreytingin geti átt sér stað um áramótin eins og lög gera ráð fyrir, en ég ætla ekki að fara frekari orðum um það hér að sinni. Ég hins vegar ítreka það að ég vona að þingið fjalli um þetta mál og noti til þess þingtímann og okkur takist að afgreiða þessa þáltill. sem ályktun frá Alþingi áður en þetta þing lýkur störfum.