Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil við þetta tækifæri segja nokkur orð um þetta frv., um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Eins og fram hefur komið er það lagt fram vegna nýrra laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem taka gildi um næstu áramót.
    Það hefur nokkuð verið komið hér inn á valddreifinguna, hvort hún sé til góðs eða ekki skv. nýjum lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hefur einmitt verið bent á þýðingu þess í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir, að ekki megi ganga fram hjá því að heimamenn hafi eitthvað að segja um þessi mál, þ.e. heilbrigðisþjónustu í viðkomandi byggðarlagi, og undir þetta vil ég taka. Það skiptir miklu máli að sveitarstjórnarmenn í hverju byggðarlagi hafi tækifæri til þess að hafa áhrif og vera með í þeim ákvörðunum sem teknar eru á hverjum stað.
    Það eru ýmis atriði sem kalla á spurningar varðandi þetta frv. en ég vil aðeins segja það í upphafi að það er mikilvægt að vel takist til um þær breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á lögum um heilbrigðisþjónustu. Ég minnist þess að hæstv. heilbrrh. sagði í gær að þessu frv. væri síður en svo ætlað að auka miðstýringu heldur þvert á móti. Það er nú samt svo að á einstaka stöðum vaknar sú spurning hvort þarna sé ekki einmitt um aukna miðstýringu að ræða.
    Ég á sæti í heilbr.- og trn. sem fær frv. til umfjöllunar og ætla því ekki að fara út í marga efnisþætti þess hér við 1. umr. Það eru samt nokkur atriði sem ég mun staldra við eftir þá lauslegu athugun sem ég hef getað gert á frv. á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að það var lagt fram, en því var dreift hér á borð þm. í fyrradag og hæstv. ráðherra mælti fyrir því í gær. Eðlilega var umræðu frestað til þess að við gætum aðeins skoðað frv. og ber að virða það og þakka fyrir.
    Varðandi 3. gr. sem aðeins hefur verið minnst á er hún alveg ný og varðar skipun héraðslækna í Reykjavík, Norðurlandshéraði eystra og Reykjaneshéraði. Þarna er gert ráð fyrir því að settir verði sérstakir embættismenn, þ.e. að héraðslæknar á þessum stöðum verði sérstakir embættismenn að því er mér skilst og að borgarlæknir í Reykjavík hætti sem slíkur. Ég geri ráð fyrir því að það séu skiptar skoðanir um þörfina á embættishéraðslæknum, en ég get ekki gert mér grein fyrir því á þessari stundu og er sjálfsagt að athuga það í nefndinni.
    Síðan komum við að 4. gr. Ég tel að það hljóti að vera til bóta hvernig hugsað er að heilbrigðismálaráð verði skipað, þ.e. það er gert einfaldara en áður var. Ég held að flestir séu sammála um að heilbrigðismálaráðin sem áður voru hafi verið svo að segja óvirk vegna þess hvað þau voru þung í vöfum og fjölmenn. Það er þó ein athugasemd sem ég vil gera við skipan í heilbrigðismálaráð og hún er sú að nú falla fulltrúar sveitarstjórna þarna út. Eins er það varðandi 7.3, þ.e. 3. lið í þeirri mgr. Þar sýnist mér vera aukin miðstýring. Skipulagningin á starfi

heilbrigðisstofnana í héraði á að fara fram eftir því sem heilbrrn. ákveður. Þarna á rödd sveitarstjórnarmanna eða heimamanna ekki að heyrast. Ef þetta er misskilningur hjá mér, þá vænti ég þess að hæstv. ráðherra leiðrétti það.
    Liðir 8.3 og 8.4 í 5. gr. eru ný ákvæði og sennilega eðlilega skipað. En mér virðist 10. gr. vera eitt af stóru atriðunum í þessu frv. eins og reyndar hér hefur komið fram hjá öðrum sem talað hafa á undan mér, þ.e. hæstv. menntmrh. og hv. 6. þm. Reykv. Það er varðandi þetta skipulagsatriði hjá heilsugæslustöðvum í Reykjavík. Þarna er verið að búta Reykjavík niður í heilsugæsluumdæmi og þá vaknar sú spurning hvað verður um þá heimilislækna sem hafa starfað hér í borginni. Það munu vera einir 30 læknar sem starfa sem heimilislæknar og hafa sínar heimilislæknastöðvar og fólk hefur getað valið um hvar það hefur sinn lækni. Spurningin er hvort sá valkostur verður áfram fyrir hendi eða hvort búsetan verður að ráða því hvaða lækni fólk getur valið. Ég held nefnilega að það sé mjög nauðsynlegt að þetta sé hvort tveggja til staðar og það sé frelsi fyrir sjúklingana eða einstaklingana að geta valið hvort þeir fara á heilsugæslustöðvarnar eða til heimilislæknanna sem þeir eru kannski búnir að taka tryggð við og læknarnir við sjúklingana. Mér finnst þetta vera sérstakt atriði fyrir Reykjavík sem er svo stór að það hlýtur að vera allt annað sem gildir þar en á öðrum stöðum. Auðvitað hlýtur nefndin að skoða þetta gaumgæfilega og hlusta eftir röddum þeirra aðila sem hafa með þessi mál að gera. Eins gildir um aðra skipulagningu út um landið. Hér er t.d. breytt í Grindavík úr H1 í H2 sem er væntanlega til bóta, en ég ætla nú ekki að fara nánar út í þetta atriði.
    Mig langar aðeins að spyrja hvað sé átt við með 16. gr. Þar er sagt að ráðherra setji gjaldskrá. Er það einhliða sem hann gerir það? Eftir því sem ég best veit var áður samið, þetta er þáttur í samningum um hvernig gjaldskrárnar skuli vera.
    Það er eitt nýtt hér í 17. gr., það er spurning hvert kjörtímabil þessara stjórna eigi að vera í Reykjavík. Á það ekki að vera eins og í 22. gr., sama
og sveitarstjórna? Þar er talað um framkvæmdastjóra og að ráðherra skipi formann. Þarna hafa sveitarstjórnir sem sagt ekkert með þetta að gera og kannski ekkert óeðlilegt við það. En það er spurning hvort ekki eigi að gilda hið sama um kjörtímabil og í 22. gr.
    Þá er það varðandi 18. gr. Hún kallar á þá spurningu hvað það þýði að stjórnir heilsugæslustöðva ráði starfslið stöðvanna og fari um laun þeirra skv. kjarasamningum við opinbera starfsmenn. Nú virðist mér, miðað við það sem hefur verið, að þarna sé um grundvallarbreytingu að ræða. Eftir því sem ég best veit, þá hafa heilsugæslulæknar haft heldur lág föst laun en aftur á móti fengið greiðslur eftir því hversu mörgum sjúklingum þeir sinna, fá visst fyrir hvern sjúkling sem hefur væntanlega verkað hjá góðum lækni sem hvati á góða þjónustu við sjúklinga. Það hvarflar að manni hvort þetta gæti hugsanlega orðið

til þess að ef menn eru komnir á föst laun, þeir sem hafa kannski sinnt 16 sjúklingum á dag, fari þá að taka það rólegar og sinna kannski bara 8 sjúklingum á dag eða eitthvað slíkt. Þetta verkar ekki sem hvati á góða þjónustu. Nú vildi ég gjarnan heyra hvað liggur að baki þessa hjá hæstv. ráðherra, hvort þetta er misskilið hjá mér, en svona verkar þetta á mig og ég hefði gjarnan viljað heyra svör hans við þessu.
    Þá langar mig aðeins að koma hér inn á nokkur atriði í 20. gr. Þarna eru ný atriði eftir því sem ég best fæ séð, nr. 5 og 6. Það eru endurhæfingarstofnanir í 5. lið og sjúkrasambýli í 6. lið, sem hljóta að vera af hinu góða. En síðan kemur 7. liðurinn, þ.e. vinnu- og dvalarheimili, stofnanir sem taka til dvalar og starfs geðsjúklinga og áfengis- og fíkniefnasjúklinga. Þarna er búið að taka fatlaða út, að því er ég best veit, miðað við lögin eins og þau eru. Þá vaknar sú spurning: Hvað verður um Sjálfsbjörg, hvar verður hún staðsett eða þau samtök sem eru vinnu- og dvalarheimili og eru í Hátúni 12 --- það er sem sagt vinnu- og dvalarheimili fyrir fatlað fólk --- hvar verður það staðsett? Einnig ef það ætti nú hugsanlega að staðsetjast í 4. lið, Vistheimili fyrir sjúklinga sem búið er að sjúkdómsgreina en þarfnast langvarandi vistunar og meðferðar sem hægt er að veita utan almennra og sérhæfðra sjúkrahúsa. Þarna er ekki gert ráð fyrir neinum vinnumöguleikum hjá þessum aðilum og sú spurning vaknar hvort ekki er nauðsynlegt að hafa það þarna inni.
    Ég held að það sé nú ekki svo margt fleira sem ég ætla að koma hér inn á. Mér dettur þó í hug að spyrja hvað átt sé við með 27. gr., að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina. Hvaða framkvæmd er það, varðandi úrskurðinn eða hvað? Ég vildi aðeins fá nánari skýringu á því.
    Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það er þýðingarmikið að allir þeir aðilar sem á einhvern hátt koma nærri þessum málum, þ.e. heilbrigðisþjónustunni, fái tækifæri til þess að gefa umsagnir um þetta frv., að leitað sé álits þeirra. Það skiptir miklu máli, eins og ég sagði áðan, að þetta verði vel úr garði gert. Mig langar aðeins að nefna í lokin að þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir till. til þál. um heilbrigðisáætlun sl. mánudag stóð þannig á að ég hafði ekki tækifæri til að taka þátt í þeirri umræðu. Ég var bundin í öðrum stóli, forsetastóli, og gat það þess vegna ekki. Þó hefði ég gjarnan viljað segja þar nokkur orð og lýsa ánægju minni með að sú heilbrigðisáætlun er komin fram. En ég hafði þá hugsað mér að gera eina athugasemd sem tengist kannski þessu máli líka og hún er varðandi markmið 17 í heilbrigðisáætluninni. Mér þykir, eins og hún er núna úr garði gerð, sem búið sé að gera hana ekki eins markvissa og hún var áður. Það er búið að fella út það sem var í markmiðunum, þar sem lagt var beint til að það væru t.d. stofnuð slysavarnaráð til þess að samræma allar slysavarnir í landinu sem hafi það markmið að gera landsáætlanir um slysavarnir svo að ég nefni dæmi. Það tengist líka heilbrigðisþjónustunni. Eins og við vitum og hefur

verið upplýst, þá eru a.m.k. 25% þeirra sjúklinga sem koma á heilsugæslustöðvar komnir vegna slysa. Slys eru orðinn stór þáttur í heilbrigðismálum okkar Íslendinga, ef við getum orðað það svo. Miðað við heilbrigðisáætlun, þ.e. heilbrigði fyrir alla árið 2000, held ég að það skipti mjög miklu máli að unnið sé markvisst og skipulega að öllu forvarnarstarfi og þar eru slysavarnirnar ekki hvað þýðingarminnstar því að það er kannski raunhæfara en í mörgu öðru tilliti að tala um að hægt sé að fyrirbyggja slys en t.d. ýmsa sjúkdóma. Þess vegna ætlaði ég að geta þess hér að ég mun leggja fram frv. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem því verður bætt inn í 19. gr. að heilsugæslustöðvar hafi á sinni verkefnaskrá slysaforvarnir.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri en ég vil aðeins ítreka það að ég vænti þess að þetta frv. fái ítarlega meðferð í nefndinni og það takist að gera það þannig úr garði að hægt verði að ná sem bestu samkomulagi þeirra aðila sem um þessi mál fjalla og þá á ég ekki síst við heimamenn og ráðamenn hér í ráðuneytinu.