Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Sveinn G. Hálfdánarson:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. sem hér er lagt fram. Ég tel það eðlilegt framhald af þeirri verkaskiptingu sem orðin er á milli ríkis og sveitarfélaga, en ég vil geta þess og taka undir með hv. 3. þm. Vestf. að þm. Alþfl. áskilji sér rétt til að fylgja öllum góðum brtt. sem fram kæmu varðandi þetta frv. og eins að flytja tillögur ef þeim býður svo við að horfa.
    Ég tel tvímælalaust að þetta sé framhald þess sem orðið er varðandi verkaskiptinguna. Ég óttast vissa tilfærslu valds hingað suður til Reykjavíkur, en tek orð hæstv. ráðherra góð og gild sem hann flutti hér við framsöguna í gær þess efnis að það væri ekki meiningin og þá hljóta þeir agnúar að verða sniðnir af í nefnd.
    Ég vil aðeins drepa hérna á 3. gr. í þessu frv., sem margir hafa minnst á, varðandi skipun héraðslækna í sérstakt starf í aðeins þremur kjördæmum. Hæstv. heilbrrh. gat þess í sinni framsögu að þar gæti komið til greina breyting. Það mætti hugsanlega sameina einhver fámennari kjördæmi í eitt læknishérað sem síðan gæti orðið fullt starf. Ég vil koma hér á framfæri hugmyndum um það hvort ekki væri hægt að færa fleiri verksvið undir þessa héraðslækna, t.d. örorkumat og ýmsa aðra þjónustu sem sjúkrasamlögin og Tryggingastofnunin hafa veitt og þar með geti þessir héraðslæknar verið í öllum kjördæmum landsins. Þetta er ein ábending sem ég vona að nefndin skoði þegar hún fær þetta frv. til meðferðar.
    Ég vil, eins og margir fleiri hér á undan, taka undir það og óska sérstaklega eftir því að þetta frv. verði sent sem víðast til meðferðar og skoðunar. Það verði reynt að ná sem víðtækastri samstöðu um þetta frv. og ég treysti því að sveitarfélögum og heilsugæslustöðvum úti á landi verði sent þetta til skoðunar. Það mætti t.d. hugsa sér að senda samtökum sveitarfélaganna frv. ef það væri álitið of viðamikið að senda það til stjórna heilsugæslustöðva vítt og breitt um landið. Ég held að það sé, eins og fram hefur komið hér hjá flestum ræðumönnum, mjög brýnt að reynt verði að ná sem allra bestri samstöðu um þetta mál og ég vil svona í lokin geta þess að ég er ekki sammála sumum þeim ræðumönnum sem hafa talað hér á undan. Ég óttast ekki þessa verkaskiptingu. Ég held að hún hafi verið til bóta fyrir sveitarfélögin og fólkið í landinu. Ef ríkisvaldið ætlar sér ekki að troða á sveitarfélögunum, þá held ég að þarna geti tekist gott samstarf um þá þjónustu sem hér er til umræðu, þ.e. heilbrigðisþjónustuna. Ég vil sem sagt fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram og vona að það fái góða meðferð.