Glasafrjóvganir á Landspítalanum
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Sigríður Lillý Baldursdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hans svör hér. Það er mín skoðun að sjá þurfi til þess að aðstaða hér á landi til glasafrjóvgana verði eins og best verður á kosið, tæknilega og hvað varðar húsnæði og starfsfólk. Ég legg mikla áherslu á að þeim sem gangast undir meðferðina verði veittur góður stuðningur tilfinningalega jafnt sem í formi upplýsinga um meðferðina sjálfa. Í því sambandi tel ég nauðsynlegt að við deildina starfi félagsráðgjafi ásamt hjúkrunarfræðingum, læknum, frumulíffræðingum og öðru starfsfólki.
    Fólk þetta þarf að vera vel upplýst um allar hliðar meðferðarinnar, tilfinningalegar, siðfræðilegar sem læknisfræðilegar og því saknaði ég félagsráðgjafans í upptalningu hæstv. ráðherra um þá aðila sem gert er ráð fyrir að vinni við glasafrjóvgunina.
    Sl. ár hafa að meðaltali 100 pör farið utan í glasafrjóvganir, en það kom fram í máli hæstv. ráðherra að 40--50 konur muni geta komist að í glasafrjóvganir á ári fyrst um sinn á Landspítalanum. Því sýnist mér þurfa að framlengja samninginn við Bourn Hall Clinic. Jafnframt tel ég eðlilegt að á meðan árangur af læknismeðferðinni hér er ekki eins góður og við Bourn Hall Clinic, sem er sú stofnun sem við höfum mest sótt til, fái konurnar að velja á milli þess að fara í meðferðina hérna heima eða fara utan.