Afstaða til Kambódíu
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á síðari árum hafa fá óhæfuverk vakið meiri athygli heldur en meðferð hinna svokölluðu rauðu khmera í Kambódíu á síðasta áratug á þjóð sinni þar sem tortímt var yfir 1 milljón manna af þjóð sem telur innan við 7 millj. íbúa. Nú hefur það komið í ljós hin síðustu ár að sömu öfl eru að sækja fram í Kambódíu og það í auknum mæli eftir að herlið Víetnam hefur dregið sig út úr landinu á þessu ári. Þessi öfl, rauðu khmerarnir, hafa fengið viðurkenningu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í skjóli stjórnar undir forustu Norodoms Sihanouks sem áður var leiðtogi í Kambódíu og mönnum ber saman um það, þeim heimildum sem ég hef athugað, að þeir séu valdamestir þriggja aðila í stjórn undir hans forustu sem heldur sæti Kambódíu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Það er með ólíkindum að vestræn lýðræðisríki skuli veita þessari stjórn stuðning sinn og halda henni inni sem talsmanni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er með ólíkindum að Ísland skuli enn vera í hópi þeirra ríkja sem standa með öðrum þjóðum á þessum vettvangi til þess að halda hlífiskildi yfir stjórn sem er að sækja í sig veðrið með skæruliðasveitum rauðu khmeranna innan Kambódíu. Ég minni á vitni sem fram hafa verið leidd, m.a. í nýlegri kvikmynd sem sýnd var á Stöð 2 og vakti mikla athygli og ég minni einnig á heimildirnar sem dregnar voru fram í myndinni The Killing Fields, drápsvellirnir, sem drógu upp mynd af óhæfuverkum rauðu khmeranna á fyrra áratug.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. utanrrh. um afstöðu til Kambódíu:
,,1. Hver hefur verið afstaða Íslands til málefna í Kambódíu undanfarin ár?
    2. Hvernig hefur sú afstaða birst á alþjóðavettvangi, m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum?
    3. Hvert er mat utanrrh. á núverandi stöðu mála í Kambódíu?``