Afstaða til Kambódíu
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Mér finnst hér hreyft mjög alvarlegu máli þar sem um er að ræða ástandið í Kambódíu. Mér finnst alls ekkert sjálfsagt að Íslendingar styðji umrædda tillögu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem ljóst virðist vera að Sihanouk fursti, sem af mörgum var einmitt talinn sá sem mundi geta leitt til einhverra lausna á þessu svæði, hefur nú gengið til liðs við rauðu khmerana sem allir viðurkenna að enn halda áfram sínum fyrri háttum, þ.e. sínum ógnunum og þeim hryðjuverkum sem þeir hafa stundað hingað til. Mér er kunnugt um að margir þjóðir hafa dregið til baka stuðning sinn við þessa tillögu og vil ég mælast til þess að utanrrh. hugleiði það mjög sterklega, og ég mun styðja það, að Ísland styðji ekki þessa tillögu og vona að það sé ekki orðið of seint að breyta þarna um að því er þetta mál varðar.