Olíuleki frá birgðastöð á Bolafjalli
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem alvarlegt mengunarslys verður vegna starfsemi erlends herliðs í landinu. Það er ekki langt síðan veruleg mengun varð á Suðurnesjum af svipuðum orsökum þó að búnaður væri annar en málið afar alvarlegt.
    Það er alveg furðulegt andvaraleysi sem birtist í tengslum við þetta mál og það verður að vænta þess að íslensk stjórnvöld fylgi eftir íslenskum lögum og gangi fram eins og okkar réttur ýtrast stendur til til þess að krefjast bóta fyrir það sem orðið hefur og verður það þó kannski ekki að fullu bætt og síst með fémunum einum saman.
    Hér hafa fallið hvatningarorð um það að koma verði í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Og það eru ráð til þess að koma í veg fyrir slíkt. Besta ráðið er það að afnema þessar hernaðarratsjárstöðvar, að fara með þær svipað og gerðist eftir 1950 á Straumnesfjalli þar sem lögð var niður sú ratsjárstöð sem þar var, en þá verður líka að gæta þess í framhaldinu að það verði gengið betur frá heldur en gert var á Straumnesfjalli og í Aðalvík, þar sem draslið blasti við sjónum í áratugi eftir að starfrækslu var þar hætt.
    Þetta er mikið alvörumál eins og hér hefur komið fram. Og þó að menn líti misjöfnum augum þau umsvif hernaðaraðila sem hér fara fram í landinu, þá verðum við að vænta þess að stjórnvöld geti þó sameinast um það að taka með eðlilegum og ákveðnum hætti á þessu máli.