Olíuleki frá birgðastöð á Bolafjalli
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Sigríður Lillý Baldursdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum svör þeirra og skýrslu utanrrh. en ég saknaði skýringar þeirra á þeim mikla mismun sem er á tölum varnarmálaskrifstofu og Siglingamálastofnunar á stærð olíuflekksins. Ég hef ástæðu til að ætla að varnarmálaskrifstofa hafi með því að segja stærð hans vera 190 hektara ætlað að beina sjónum manna frá hugsanlegri mengun bergs og þar með vatnsbóla Bolvíkinga.
    Það er mín skoðun að öll framganga varnarmálaskrifstofu í þessu máli fram til þessa hafi verið með þeim hætti að það þurfi að gera verulegar breytingar þar innan húss. Varnarliðið virðist ekki líta á þá stofnun eða utanrrn. sem sinn yfirboðara eða samráðsaðila. Þegar varnarliðið kemst upp með að fylla ósamþykkta, ólöglega olíutanka af olíu í þúsundum lítra án vitundar utanrrn. er ekki að undra að maður velti fyrir sér trúverðugheitum þeirra staðhæfinga að hér séu ekki kjarnorkuvopn. Utanrrh. fullyrðir að ekki hafi fyrr komið upp mál sem þetta milli varnarliðs og varnarmálaskrifstofu. Hvernig getur ráðherra fullyrt slíkt með það í huga að ekki komst upp um þetta ólöglega athæfi fyrr en slys hafði orðið?
    Mannleg mistök eru lausnarorðið hjá forstöðumanni varnarmálaskrifstofu í sjóvarpsviðtali vegna málsins og finnst mér þá ansi langt seilst í túlkun á því hugtaki. En það eru raunar einmitt mannlegu mistökin sem geta leitt okkur í stærstu slysin.
    Mér sýnist sem betur fer ekki vera hætta á að vegna þessa slyss verði verulegir skaðar á lífríkinu þar sem svo heppilega vildi þó til að slysið varð að hausti og lífríkið því ekki líkt því eins viðkvæmt og á öðrum árstímum. En það verður ekki við það unað að atburðir sem þessir eigi sér stað. Reisn utanrrn. virðist harla lítil í samskiptum þess við varnarliðið og á því þarf að verða stökkbreyting. Við getum ekki liðið að varnarliðið fái að vaxa eins og æxli í landinu án nokkurra yfirráða eða eftirlits af hálfu okkar. Eina örugga vörnin við slysum sem þessum hlýtur raunar að vera að skera æxlið burt, enda augljóslega illkynja.