Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í vor fengu fulltrúar allra þingflokka mjög ítarlega skýrslu sem unnin hafði verið af nefnd sem hv. fyrrv. alþm. Kjartan Jóhannsson var formaður fyrir. Í þessari skýrslu voru reifuð velflest þau álitamál sem enn átti eftir að taka afstöðu til varðandi virðisaukaskatt. Á fundum í þessari nefnd bæði sl. vor og nú í haust var síðan farið yfir öll þessi álitamál. Embættismenn reifuðu hliðar málsins. Fulltrúar þingflokka fengu þær upplýsingar sem þeir óskuðu eftir og á mjög ítarlegan hátt var málið lagt þannig fyrir að ljóst var hvað það væri sem ákvörðun þyrfti að taka um.
    Fyrir rúmum mánuði síðan sendi ég svo öllum þingflokkum hér á Alþingi tillögur sem ég hafði mótað á grundvelli þessara umræðna þannig að allir þingflokkar eru búnir að hafa þær tillögur til meðferðar í rúman mánuð. Þeir hafa að sjálfsögðu getað haft aðgang að embættismönnum og öðrum til að afla sér frekari upplýsinga.
    Á síðasta fundi þegar nefndin kom saman lét hv. alþm. Halldór Blöndal í ljósi þá skoðun, þegar ég innti hann eftir afstöðu hans til einstakra mála eða óska um nánari umfjöllun, að hann sæi ekki ástæðu til að fjalla nánar þar um þar til afstaða stjórnarflokkanna lægi endanlega fyrir. Ég skyldi það sjónarmið hv. alþm. á þann veg að hann teldi ekki þörf á því að fjalla nánar um málið á þessum vettvangi, enda hafði hann fengið allar þær upplýsingar sem tæknilega þurfti að reiða fram í málinu. Ég skildi það svo líka ósköp vel að hv. þm. vildi skjóta sér undan því að þurfa í nefndinni að svara þessum spurningum pólitískt og vildi frekar gera það hér á Alþingi.
    Það hefur síðan legið ljóst fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir væru að móta endanlega afstöðu sína í málinu. Ég lagði fram drög að frv. um það mál og sendi þingflokkum stjórnarflokkanna fyrr í þessari viku. Ég hef haft af því reynslu að þegar slík drög eru lögð fyrir þingflokka, þá koma þau eftir einni eða annarri leið í fjölmiðlum sama dag eða næsta dag þannig að ég taldi eðlilegt að standa þá sjálfur að þeirri kynningu frekar en hafa þar milliliði. Að sjálfsögðu er hægt og velkomið að láta fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna þessi drög einnig í té.
    Varðandi afstöðu Sjálfstfl. þá minnist ég þess, en vildi gjarnan fá að fletta því upp og hafa til þess nánari tíma, að í sumar eða haust hafi þingflokkur Sjálfstfl. gert þá samþykkt að hann vildi virðisaukaskatt með 25% efra þrepi og 15% lægra á matvælum. ( Gripið fram í: Hvar stóð þetta?) Þetta las ég nú í blöðum hér síðla sumars eða haust. Sé þetta rangminni hjá mér, þá er ég alveg tilbúinn að leiðrétta það, en við skulum bara fletta því upp og skoða það, ef Sjálfstfl. vill ekki nú kannast við þessa afstöðu.