Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Er Borgfl. gerðist aðili að þessari ríkisstjórn lagði hann höfuðáherslu á það meginverkefni þeirrar ríkisstjórnar að lækka matarverð. Við inngöngu Borgfl. í ríkisstjórnina var það samþykkt að helstu matvæli, kjöt, mjólk, fiskur og innlent grænmeti, lækkuðu í verði við upptöku virðisaukaskatts með endurgreiðslu. Við það samkomulag stöndum við eins og ég hef lýst hér yfir áður. Aðalatriði þessa máls er ekki hvort virðisaukaskatturinn skuli vera í einu eða tveimur þrepum, heldur hitt hvaða fyrirkomulag leiðir til mestu lækkunar matvæla og kostnaðar heimilanna í landinu, einnig að sú lækkun sem verður verði varanleg. Ég vil benda á þetta þar sem menn hafa haldið að tvö þrep í virðisaukaskatti hafi sjálfkrafa í för með sér lækkun. Ég held að útreikningar sýni að svo er ekki í samanburði við það kerfi er við samþykktum er við gengum inn í ríkisstjórnina. Ég vil bara að þetta komi hér fram til þess að lýsa í stuttu máli viðhorfi, alla vega mínu, til þessa máls.
    Vegna orða hv. 1. þm. Reykv. um gróft brauð, að það hafi verið kappsmál okkar borgaraflokksmanna að það kæmi líka undir þetta kerfi, hefur því miður komið í ljós að þær aðferðir sem viðhafðar eru í virðisaukaskattinum leiða ekki til þeirrar lækkunar sem við væntum og það endurgreiðslukerfi sem er í núgildandi frv. kemur ekki til með að gefa þá lækkun sem við væntum.