Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég vil minna á það að þegar virðisaukaskatturinn kom til umræðu í þinginu í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar lögðumst við gegn virðisaukaskatti. Ég hef í sjálfu sér ekki breytt um skoðun, en hins vegar sjáum við ekki ástæðu til þess að leggjast gegn virðisaukaskatti eins og mál hafa þróast því að það er alveg ljóst að það er mikill meiri hluti á þingi fyrir virðisaukaskatti og það er mikill meiri hluti í íslensku atvinnulífi fyrir því að taka upp virðisaukaskatt. Við ætlum ekki að standa og berjast við allt atvinnulíf landsmanna. Ég hef mínar efasemdir um ágæti virðisaukaskatts, en úr því að atvinnulífið að miklum meiri hluta til telur ráðlegt að taka upp virðisaukaskatt er sjálfsagt að gera það.
    Ég minni á það að Borgfl. flutti brtt. þegar við umræðu um virðisaukaskattslögin í þinginu veturinn 1987--1988 um að taka upp virðisaukaskatt í tveimur þrepum með lægra þrepi á matvæli og helstu lífsnauðsynjar. Það voru því þingmenn Borgfl. sem fyrst vöktu athygli á að það yrði engin leið að komast út úr þessu skattkerfi nema með tveimur þrepum, öðru og lægra þrepi á matvæli og helstu lífsnauðsynjar.
    Sl. vor, í mars, að mig minnir, fluttum við hv. þm. Guðmundur Ágústsson frv. til laga um að breyta þágildandi virðisaukaskattslögum. Þannig yrðu tekin um tvö þrep, annað lægra þrep, 12% hæst fyrir matvæli og helstu lífsnauðsynjar, og hærra þrep, sem við hækkuðum úr 22% í 24%, fyrir allt annað. Það má því segja að það er Borgfl. fyrir að þakka að umræðan er nú komin á það stig að það er að skapast þingmeirihluti fyrir tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi. Þannig hafa fimm þingmenn Borgfl. fengið þessu áorkað sem átján þingmenn Sjálfstfl. fengu ekki þokað tommu. ( Gripið fram í: Oft veltir lítil þúfa ...) Já. Þjóðina hefur því munað meira um að það sitja fimm þingmenn Borgfl. á þingi en átján þingmenn Sjálfstfl. ( ÞP: En hver er stefnan núna? Það var spurt um það.)