Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þessar umræður hafa leitt það bert í ljós að ekki standa efni til þess, eins og nú standa sakir, að sérstakur tekjustofn verði markaður í lögum til að standa undir þróunarverkefnum eins og nú er kallað, nýjungum í sjávarútvegi með Fiskveiðasjóð Íslands. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir að hann treysti sér ekki til að flytja frv. af því tagi eins og nú sé komið rekstrargrundvelli sjávarútvegsins og hefur jafnframt tekið skýrt fram að þm. þekki þær nauðir sem fjármálaráðherrar eru í í sambandi við að koma fjárlögum saman. Og ekki hefur ástandið batnað hjá ríkisstjórninni upp á síðkastið eins og marka má af löngum ríkisstjórnarfundum og því uppþoti sem varð í þinginu, m.a. út af virðisaukaskatti.
    Ég tek á hinn bóginn undir þau sjónarmið sem fram hafa komið að nauðsynlegt sé að veitt sé fyrirgreiðsla til rannsókna og þróunarverkefna á öllum sviðum sjávarútvegs. Ég get ekki fallist á að við eigum að slá því föstu á þessu stigi, ef Fiskimálasjóður verður lagður niður og verkefni hans flutt yfir í Fiskveiðasjóð, að stjórn Fiskveiðasjóðs hafi ekki heimild til þess að veita styrki í þessum tilgangi. Ég tel þess vegna koma mjög til álita að síðasta setningin í 1. gr. falli brott: ,,enda verði henni séð fyrir sérstökum tekjum í því skyni``. Ég tel nauðsynlegt að það verði á valdi stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands að veita styrki til þróunar- og rannsóknaverkefna. Það geta komið upp mál þar sem hún telur slíkt nauðsynlegt, að veita styrki til slíkra verkefna eða þá áhættulán, kannski með betri kjörum en önnur lán úr sjóðnum. Ég mun taka þetta mál upp í sjútvn.