Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að greina frá því nú í upphafi þessarar framhaldsumræðu að ríkisstjórnin hefur afgreitt þetta mál fyrir sitt leyti á fundi sínum í morgun og gert bókun sem ég vil nú lesa, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Utanríkisráðherra hefur gert ríkisstjórn og Alþingi grein fyrir sameiginlegum könnunarviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið um víðtækara samstarf ríkjanna 18 sem aðilar eru að EFTA og EB. Utanríkisráðherra mun áfram taka þátt í undirbúnings- og samningaviðræðum þessara aðila sem byggðar verða á sameiginlegum niðurstöðum könnunarviðræðna, þar með talið þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett fram. Jafnframt því sem fylgt verður eftir í þessum viðræðum sameiginlegri kröfu EFTA-ríkjanna um fríverslun með fiskafurðir innan hins væntanlega evrópska efnahagssvæðis verður haldið áfram tvíhliða viðræðum Íslendinga við Evrópubandalagið og aðildarríki þess með það að markmiði að tryggja tollfrjálsan aðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir að mörkuðum Evrópubandalagsins og stöðu íslensks sjávarútvegs að öðru leyti. Náið samráð verður haft innan ríkisstjórnarinnar og við utanrmn. Alþingis á öllum stigum málsins.``
    Ég þarf, virðulegi forseti, ekki að fara mörgum orðum um þessa afgreiðslu ríkisstjórnarinnar. Þó vil ég endurtaka eða vísa til þess sem ég sagði á föstudaginn, að á það er lögð mjög mikil áhersla af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa náið samráð við utanrmn. á öllum stigum þessa máls. Það er að sjálfsögðu afar nauðsynlegt að við séum öll vel upplýst um framgang málsins og það verður vitanlega gert.
    Ég vil vekja athygli á því að þær viðræður sem fram undan eru eru eins og hér kemur fram. Fyrst eru undirbúningsviðræður og þar verða dregin fram hin fjölmörgu atriði sem þarf að taka afstöðu til. Í raun kemur þó ekki í ljós hvernig okkar málum miðar áfram fyrr en töluvert seint á næsta ári að öllum líkindum. En þá kemur að fjölmörgum ákvörðunum sem vitanlega verður að taka hér á hinu háa Alþingi. Þess vegna þarf Alþingi að fylgjast mjög vel með hvernig þetta mál gengur.
    Hér er vísað til þeirra tvíhliða viðræðna sem eru í gangi nú og hafa stöðugt verið bæði með viðræðum við stjórn Evrópubandalagsins í Brussel og sömuleiðis á milli íslenskra ráðherra og fjölmargra ráðherra aðildarríkjanna. Það er dálítill munur á því að halda þeim viðræðum áfram eða óska eftir formlegum tvíhliða viðræðum sem að mínu mati getur því miður ekki orðið af. Í fyrsta lagi eftir að við fáum EFTA-ríkin til þess að taka inn frjálsa verslun með fisk gegn því að við tökum þátt í þessum sameiginlegu viðræðum EFTA-ríkjanna við EB. Við værum þá í raun og veru að draga okkur til baka úr þessum sameiginlegu viðræðum. Ég vek athygli á því að þegar málið var afgreitt í Osló drógu Austurríkismenn sig út úr eða hættu við þá viðleitni

sína að ná tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Auk þess hefur Evrópubandalagið hvað eftir annað sagt að það sé ekki reiðubúið til þess að taka upp formlegar tvíhliða viðræður við einstök ríki, heldur vilji það fyrst láta reyna á viðræður við EFTA-ríkin sem slík. Og ég tel satt að segja að það gæti orðið afar hættulegt fyrir okkur Íslendinga að draga okkur þannig nánast út úr þessum sameiginlegu viðræðum EFTA-ríkjanna og ganga gegn yfirlýstri stefnu Evrópubandalagsins. Við kynnum að verða skildir eftir úti í kuldanum, ef ég má orða það svo, þar til þessum sameiginlegu viðræðum er lokið. Ég tel afar mikilvægt að á það fái að reyna hvort þessi sameiginlega krafa EFTA-ríkjanna með fríverslun með fisk nái fram að ganga. Til þess var leikurinn gerður, að fá þetta tekið inn hjá EFTA-ríkjunum.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þetta. En mér finnst sjálfsagt að utanrmn. fái tíma til þess að koma saman og fjalla um þetta og þá verði einhver frestur gerður á umræðu hér.