Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill upplýsa að sérhverjum ráðherra sem beðið hefði um að fá að halda ræðu sína eftir að forsrh. hefði talað hefði verið veitt sú heimild þannig að engu máli skipti hver í hlut átti. Það vil ég leggja mikla áherslu á.
    Forseta væri ljúft og skylt að kalla saman formenn þingflokka til ráðslags en nú eru einir fjórir eða fimm hv. þm. búnir að biðja um orðið um þingsköp og forseti mun að sjálfsögðu reyna að nota þennan hálftíma sem eftir er af þessum fundi fram að þingflokksfundum til þess að leyfa þeim að tala.