Vantraust á ríkisstjórnina
Fimmtudaginn 30. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Hlutverk stjórnarandstöðu er mikilvægur þáttur þess þingræðis sem við búum við. Það felur í sér lýðræðislegan rétt stjórnarandstöðunnar til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í því skyni að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku ríkisstjórnar. Því miður reynist slík viðleitni oft árangurslítil og yfirgangur og óvirðing ríkisstjórna við Alþingi í krafti meiri hluta með endemum, þannig að fremur líkist valdbeitingu en lýðræði. Hlutverk stjórnarandstöðu er jafnframt ábyrgðarhlutverk sem krefst þess að hún sé vakandi á verði, veiti ríkisstjórninni aðhald, krefjist þess að hún standi við loforð sín og vinni þjóðinni gagn. Það kemur því oft í hlut stjórnarandstöðu að gagnrýna það sem er gagnrýni vert. Hlutverk gagnrýnandans getur hins vegar verið erfitt og leiðigjarnt og getur verið þjakandi þegar vondar stjórnir ríkja. Mikilvægt er þó að gagnrýnin sé málefnaleg, en ekki notuð til að koma höggi á pólitíska andstæðinga.
    Hér í kvöld er rætt vantraust á ríkisstjórnina og er óhætt að segja að það sé ýtrasta form gagnrýni af hálfu stjórnarandstöðu. En á slík gagnrýni rétt á sér? Er þessi ríkisstjórn þá alvond, hefur hún ekkert gott gert? Víst er hún ekki alvond og vissulega hefur hún eitthvað gott gert. Enda höfum við kvennalistakonur stutt hana til þeirra mála sem okkur hafa fundist góð og hefur ekki staðið á málefnalegum stuðningi okkar við hana fremur en aðrar ríkisstjórnir þegar stefnumál fara saman. En þrátt fyrir aukna og, að mati hæstv. forsrh., endurbætta útgáfu þessarar ríkisstjórnar í september sl. hafa mál samt þróast á þann veg á stuttu æviskeiði hennar að sundurþykkja og skoðanaágreiningur meðal stjórnarflokkanna beinlínis tefja eða koma í veg fyrir ákvarðanatöku í veigamiklum málum eins og virðisaukaskatti og hvernig
skuli staðið að viðræðum við Evrópubandalagið. Þetta eru raunar aðeins dæmi um þá dropa sem fyllt hafa mæli umburðarlyndis Kvennalistans gagnvart þessari stjórn en hún hefur á rúmlega árslöngum ferli sínum ekki beinlínis náð að festa rætur í hjörtum fólksins ef marka má skoðanakannanir.
    Ágreiningur ríkir um fleiri mikilvæg mál eins og umhverfisráðuneyti, aðgerðir vegna loðdýraræktar, gerð varaflugvallar og fleira mætti telja. Ekki verður heldur séð hvernig þessi ríkisstjórn ætlar að koma sér saman um að afgreiða fjárlögin en forsendur þeirra eru löngu brostnar.
    Það liggur í hlutarins eðli að sýna nýliðum umburðarlyndi, gefa þeim tíma og tækifæri til þess að spjara sig í stað þess að skera viðleitni þeirra niður við trog. Þá skulum við gæta að því að flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru vanir menn, menn með fortíð. Og hæstv. forsrh. hefur skipað sex ráðherraembætti á sl. ellefu árum, en flokkur hans verið í ríkisstjórnum nær samfellt síðustu tvo áratugi. Hans ábyrgð er því talsverð á forsögu mála. Þó segist hæstv. forsrh. glaður og feginn að fá vantraust á sig

og sína menn. Það minnir á annan formann stjórnmálaflokks sem varð æ glaðari á landsfundi hér á dögunum því harðar sem var að honum gengið og meira að honum þrengt. Það er þó sannarlega ekki öllum gefinn sá eiginleiki að geta séð ljósið í myrkrinu. En ekki er nóg að eygja ljósið ef menn hafa ekki rænu á því að fylgja því og láta það leiða sig til góðs. Það kemur ekki á óvart að ríkisstjórnin hafi átt í miklum vandræðum með að koma sér saman um þá umdeildu og miklu kerfisbreytingu sem virðisaukaskattur er. Mörg samtök hafa kvartað yfir hiki þeirra og óvissan valdið vandræðum enda leggja margir til að skattinum verði frestað.
    Þessi vantrauststillaga hefur væntanlega knúið stjórnarliða nú til að komast að niðurstöðu í málinu. En þvílík niðurstaða. Enn er um að ræða eina hæstu skattprósentu í Evrópu. Hér leggst hún ofan á matvælaverð sem þegar er hærra en gerist meðal nágrannaþjóða okkar. Og hvernig á að framkvæma þessar endurgreiðslur sem talað er um? Hvernig á í raun að tryggja að þær skili sér þangað sem þeirra er mest þörf? Það fylgdi nefnilega ekki sögunni. Síðan má ekki gleyma því að skatturinn leggst á allar vörur og þjónustu en endurgreiðslurnar fara aðeins fram af fáeinum tegundum matvæla.
    Ekki veitir nú af að minna ríkisstjórnina á að kjör fjölskyldnanna í landinu hafa rýrnað um allt að 13--14% á sl. ári, skv. rannsóknum kjararannsóknarnefndar. Og allt útlit er fyrir að verðhækkunaráhrif virðisaukaskatts og samdráttar í sjávarútvegi muni, ásamt öðru, enn auka þar á. Ég trúi ekki á þessi loforð. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að virðisaukaskattur hækkar framfærslukostnað og breytir tekjuskiptingunni hinum efnaminni í óhag, þrátt fyrir allar uppbætur, en þeir eyða meiri hluta tekna sinna til matvælakaupa.
    Virðisaukaskattur heyrir undir fjmrn. og það er undrunarefni hve fúslega ráðherrar Alþb. hafa kyngt öllum stóru orðunum og andstöðunni við þann skatt eftir að þeir settust í ráðherrastóla. Þó börðust þeir ákaflega hart í stjórnarandstöðu eins og við kvennalistakonur og á svipuðum forsendum gegn þessum illræmda skatti á nauðþurftir, eins og matvæli og menningu. Töluðu hér langt mál og mikið og fjmrh. stóð meira að segja einn á kassa eins og trúboði inni í Miklagarði. Þar með hélt ég að þeir viðurkenndu að það væri
grundvallaratriði í stjórnmálum hvort skattlagðar væru nauðþurftir eins og matvæli eða ekki. Ég hélt líka að þeir væru þar með á móti því. Ætla þeir nú að kyngja 24,5% virðisaukaskatti með einu þrepi jafnt á matvæli sem annað og óljós loforð um endurgreiðslu sem ekki er víst að skili sér?
    Þegar hv. þm. Þorsteinn Pálsson mælti fyrir nær sömu skattprósentu á virðisaukaskatti í desember 1986 sagði hv. þm. Páll Pétursson að gæta þyrfti þess að skattkerfisbreytingarnar rýrðu ekki hag þeirra sem minna mega sín, því tekjujöfnuður væri það sem á þyrfti að halda. Alþb. var þá á móti þessum skatti á þeim forsendum að frv. fæli í sér meiri skattheimtu

hjá lágtekjufólki, hliðarráðstafanir væru óákveðnar og óljósar, innheimta og endurgreiðslukerfi dýrara en nú er og engin trygging fyrir því að virðisaukaskattur skili sér betur en söluskattur.
    Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði sinn þingflokk ekki styðja frv. vegna þess að álagningarprósentan væri of há. Tekjuauki ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts væri vanmetin, verðhækkunaráhrif af svo hárri prósentu yrðu of mikil og loks mundi Alþfl. ekki sætta sig við þær niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum sem hliðarráðstafanir gera ráð fyrir. En hvað hefur breyst hv. þingmenn? Röksemdir ykkar eru nefnilega enn í fullu gildi. Hvers vegna hefur ykkur orðið hughvarf? Hvaða epli hafið þið bitið í?
    Einu stjórnmálasamtökin sem ekki hafa breytt um skoðun á virðisaukaskatti og standa enn gegn matarskattinum eru Kvennalistinn. Réttmæti þeirra forsendna sem við leggjum og lögðum til grundvallar, og nokkrar þeirra hef ég þegar nefnt, hefur ekki verið hrakið. Matarskatturinn og hátt verð á matvælum íþyngir nú þegar verulega heimilum fólks í landinu. Það eru þau skilaboð sem við kvennalistakonur höfum af ferðum okkar í sumar og haust um landið.
    Kvennalistakonur eru mótfallnar þeirri óréttlátu hugmynd að leggja skatt á nauðþurftir eins og matvæli. Hún er aðför að þeim sem hafa minnstar tekjurnar og fjölmennastar fjölskyldurnar. Við treystum því ekki og það er full ástæða til að efast um að endurgreiðslur skili sér þangað sem þeirra er mest þörf, eða þá að þær verði nægilegar.
    Það er einnig full ástæða til að benda hæstv. ríkisstjórn á það að afnám matarskattsins mundi ekki þýða minnkun tekna um nákvæmlega þá upphæð sem hann er nú talinn skila í ríkissjóð. Stór hluti hans mundi skila sér á annan hátt, í annarri neyslu. Afnám matarskattsins hefði bætt áhrif á afkomu heimilanna og þau áhrif mundu skila sér út í þjóðfélagið allt, bæta t.d. afkomu í vænlegri atvinnugrein eins og ferðaþjónustu og draga úr verðbólguhraða svo nokkuð sé nefnt. Því segi ég: Burt með matarskattinn. Það er full ástæða til að vantreysta ríkisstjórn sem ber ekki betra skynbragð á þarfir þegnanna, en gerir sig seka, eins og aðrar ríkisstjórnir á undan henni, um stjórnvaldsaðgerðir sem í sífellu raska áformum almennings og fyrirtækja. Þá duga ekki áætlanir sem gerðar eru innan ramma efnahagslegrar getu með viðmiðunum við reglur og lög hins opinbera. Reglum og lögum er sífellt breytt og óstöðugleiki og óvissa gera menn ráðvillta og kippa grundvellinum undan framkvæmdum þeirra. Þeir sem áður voru ábyrgir um sín mál eru gerðir að óskilamönnum og heilu fjölskyldurnar bíða félagslegt og fjárhagslegt tjón. Í raun eru reiknimeistarar og stjórnmálamenn að gera stórfelldar tilraunir þar sem manneskjur, fjölskyldur, eru tilraunadýrin. Það versta er að þeir virðast ekki læra af reynslunni og eru óragir við að vaða út í næstu kerfisbreytingu þótt undirbúningur sé takmarkaður og áhrif ófyrirséð. Slík vinnubrögð eru að verða regla hér á þinginu fremur en undantekning

þegar um stórmál er að ræða.
    Eitt stærsta tilefni þess vantrausts sem hér er til umræðu er meðferð ríkisstjórnarinnar á því mikilvæga máli sem viðræður okkar við Evrópubandalagið er. Margir hafa haft orð á því að hér sé á ferðinni eitt veigamesta mál sem rætt hefur verið á Alþingi á lýðveldistímanum. Mál sem varðar í raun sjálfstæði Íslands og afkomu í framtíðinni. Mönnum hefur orðið starsýnt á næstu skrefin í ferlinu og margir virðast eygja draumaland í túngarði Evrópubandalagsins. Minna hefur verið rætt um annað samhengi, hugmyndafræðina sem liggur til grundvallar Evrópubandalaginu, stórveldisdraumana, hagvaxtarkröfur þessa markaðar, þar sem frelsi stórfyrirtækja ríkir og fjármagnið streymir frjálst en félagslegar og menningarlegar þarfir þjóðanna sitja á hakanum. Þessar kröfur hafa þegar gengið svo nærri náttúru Evrópu að trén fella lauf sín og vötnin deyja og við neyðumst til að breyta lífsháttum okkar og áherslum í efnahagsstefnum þjóðanna. Þjóðum Austur-Evrópu verður því boðið að borði neysluveislunnar um það leyti sem veislunni er að ljúka.
    Fjöregg okkar Íslendinga og grundvöllur lífs okkar í landinu eru fiskimið okkar, verndun þeirra og hófleg nýting. Þeir sem fara með okkar mál mega ekki gleyma þessu eitt andartak og mega aldrei framselja það fjöregg, hversu hrifnir sem þeir sjálfir kunna að vera af Evrópubandalaginu.
    Við óskum flest fjölbreyttra samskipta við aðrar þjóðir og ekkert okkar getur óskað Íslandi þess að verða áhrifalaust jaðarsvæði þangað sem allir Evrópubúar sækja til að veiða sinn fisk eftir þörfum, í krafti yfirþjóðlegra
ákvarðana. Verstöð á hjara veraldar, fámennisþjóð sem líður fyrir atgervisflótta en heldur dauðahaldi í tungu sína og menningu í baráttu sem getur brugðið til beggja vona. Svo mikið getur verið í húfi og svo stórt mál getur aldrei verið fyrst og fremst í höndum einnar ríkisstjórnar sem á takmarkaða lífdaga. Þetta er mál þjóðarinnar allrar, þetta er mál sem allir fulltrúar hennar á Alþingi þurfa að ná sáttum um, vera einhuga, og hæstv. utanrrh. verður því að hafa vel skilgreint umboð frá Alþingi til viðræðna sinna. Ef ríkisstjórn sem ekki getur komið sér saman tekur sér hrokafullt sjálfdæmi í slíku stórmáli sýnir hún ekki einungis Alþingi óvirðingu, heldur býður hættunni heim. Slíkri ríkisstjórn ber að vantreysta.
    En ég vil skila því til hæstv. utanrrh. að ef sjálfstæðismenn ganga í kúskinnsskóm frá Kvennalistanum þá væri það ekki í fyrsta skipti sem konur hefðu léð lúnum mönnum skó og er sómi að því að ganga í kúskinnsskóm ef það megi breyta þeirri stefnu og því sem hann er að teyma okkur út í.
    Þótt þessi ríkisstjórn hafi ekki orðið vinsæl meðal fólksins kann þó margur að spyrja: Er boðið upp á eitthvað skárra? Kvennalistinn lofar hvorki gulli né grænum skógum, en við bjóðum hins vegar fram stefnu okkar og vinnubrögð sem við höfum stundað staðfastar. Við erum, eins og áður, reiðubúnar að

leggja okkar til málanna. Það er ekki rétt sem komið hefur hér fram, því Kvennalistinn hefur lagt fram margvíslegar tillögur á þingi, bæði í atvinnumálum og öðrum málum.
    Hvítur kjóll reynsluleysis er ekki versta flíkin við stjórnvölinn, dökkur kufl gamalla synda og hagsmunatengsla er verri. En dýrmæt reynsla kvenna er eftir sem áður nær ónýtt við stjórn þessa þjóðfélags og umræðurnar hér í kvöld hafa fært mér heim sanninn um það að án hennar má þjóðin ekki lengur vera.
    Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.