Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Þriðjudaginn 05. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Aðeins örfá orð, ekki til að fara út í efnislega umræðu. Ég get þó ekki látið hjá líða að segja hér nokkur orð vegna ummæla hv. 3. þm. Vesturl.
    Ég veit ekki hvaðan honum komu þær hugmyndir að Kvennalistinn hafi verið tregur við skattheimtu. Ég held að við höfum verið skattglaðari en mörgum hefur þótt gott. Hins vegar fagna ég því að sterk andstaða okkar við matarskattinn alveg frá fyrstu skuli hafa skotið svo rótum í huga hans að hann muni vel eftir því. Það er fyrst og fremst matarskatturinn sem við höfum verið á móti alla tíð og gegn honum höfum við mælt af ákafa. Ýmsum öðrum skattliðum í innheimtu höfum við ekki verið mjög mótfallnar. Hins vegar hefur okkur þótt öllu máli skipta hvernig er skattlagt þannig að reynt sé að heimta skatta af þeim sem þola að borga fremur en af þeim sem geta það mjög illa. Að jöfnuður sé hafður í huga þegar skattheimta er ákveðin. En það er alveg rétt hjá hv. þm., við höfum komið með ýmsar tillögur sem hafa kostað nokkurt fé. Ef litið er á fjárlög íslenska ríkisins, þá eru þar ýmis ævintýri sem hafa orðið þjóðinni ansi dýrkeypt og hafa ekki orðið til þeirra þjóðþrifa sem þeim var ætlað. Og það kostar nokkuð að breyta þjóðfélaginu. Þó að meginbreytingarnar hljóti að vísu að felast í breyttu hugarfari, a.m.k. að mati Kvennalistans, þá kostar það eitthvert fé að breyta því í átt til betra þjóðfélags og meira jafnaðarþjóðfélags og það veit ég að hv. þm. veit.