Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 06. desember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það er bara örstutt athugasemd. Fyrir það fyrsta, varðandi athugasemd hv. 2. þm. Norðurl. e. hér áðan þegar hann sagði að hér væri ekki um sambærilega hluti að ræða varðandi virðisaukaskattinn núna og álagningu söluskatts á öll matvæli þegar það var gert. Þetta er nákvæmlega það sama. Þær endurgreiðslur sem þá voru ákveðnar eru nákvæmlega í sama formi og nú er verið að tala um. Í öðru lagi varðandi að handjárnin falli vel að úlnliðunum, ég vil nú ekki taka undir það. En hann nefndi vantrauststillöguna í síðustu viku og víst er það rétt að sá glundroði sem var þá í herbúðum Sjálfstfl. og endaði með þeirri vantrauststillögu var það sem við þurftum á að halda, stjórnarliðar, til þess að ná samkomulagi í þessu máli og ber að þakka hv. þm. Halldóri Blöndal og öðrum þeim sem stóðu að þessari till. að hafa lagt stjórninni lið á þann hátt.