Kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þessari umræðu var frestað að ég hygg einhvern tíma í októbermánuði vegna þess að þá var hæstv. utanrrh. staddur erlendis og ráðgert var að halda áfram umræðunni þegar hann yrði næst staddur hér á landi og gæti svarað fyrirspurnum sem fram komu í umræðunni og beint var til hans. Nú hefur það hvort tveggja gerst að hæstv. utanrrh. hefur komið heim og farið út aftur án þess að koma því við að taka þátt í umræðu um þetta tiltekna mál. Ég vil af því tilefni ítreka þá spurningu sem ég bar fram þegar umræðan hófst hér á sínum tíma til hæstv. starfandi utanrrh.
    Það er að sönnu svo að umræður um afvopnun á höfunum hafa staðið um nokkur undangengin ár. Það var Geir Hallgrímsson, sem utanrrh., sem hóf umræður á alþjóðavettvangi af Íslands hálfu um þetta mikilvæga viðfangsefni og um nauðsyn þess að fiskveiðiþjóðir væru á varðbergi, m.a. vegna hættu á kjarnorkuslysum. Hann hafði með öðrum orðum frumkvæði af Íslands hálfu að þeirri umræðu sem nú fer fram. Ég tel að við þurfum á næstunni að gefa þessu viðfangsefni aukinn gaum. Miklar breytingar eiga sér stað í þesum efnum og eðlilegt að við leggjum á þetta viðfangsefni sérstaka áherslu þegar Vínarviðræðunum lýkur. En um leið verðum við auðvitað að gæta þess að viðhalda áfram því jafnvægi sem öðru fremur hefur þrýst á að sú gleðilega þróun hófst sem við erum nú vitni að varðandi afvopnun svo að ég ekki tali nú um hrun sósíalismans í Austur-Evrópu.
    En hvernig hugum við, út frá íslenskum varnarhagsmunum, að þessum breytingum? Auðvitað munu þessar breytingar leiða til þess að menn þurfa að endurmeta sitthvað í vörnum landsins og þeim áherslum sem þar verða helstar. Ekki er ólíklegt að eftirlitshlutverk varnanna verði meira eftir en áður þegar þessar breytingar eru orðnar að veruleika og við höfum náð árangri m.a. með samningum um afvopnun í höfunum, sem ég er sannfærður um að við munum ná.
    Það hefur vakið upp spurninguna um svonefndan varaflugvöll. Ég hygg að eftirlitshlutverk varnarliðsins verði þýðingarmeira ef við náum þessum breytingum fram, en það hefur jafnvel verið fram að þessu. Einmitt nýr varaflugvöllur geti haft þýðingu í því efni, geti styrkt það hlutverk varnarliðsins að hafa eftirlit með vopnaviðbúnaði í höfunum og þá um leið að gæta þess að hugsanlegum samningum um afvopnun verði viðhaldið.
    Ég geri ráð fyrir því að varaflugvöllur sem um hefur verið talað geti haft veigamikla þýðingu einmitt að því er varðar aukið eftirlit með vopnaviðbúnaði og hugsanlegri afvopnun. Það var upplýst af hálfu Alþb. í vor sem leið að það hefði komið í veg fyrir að hæstv. utanrrh. tæki ákvörðun um forkönnun varaflugvallar. Hæstv. utanrrh. gerði lítið úr þeirri yfirlýsingu. Enn sem komið er hefur hann hins vegar ekki tekið neina ákvörðun þar að lútandi. Og nýlega

samþykkti landsfundur Alþb. að þetta yrði stjórnarslitamál. Hæstv. forsrh. hefur á hinn bóginn lýst því yfir að þetta sé ekki ríkisstjórnarmál heldur alfarið ákvörðunarmál utanrrh. Og formaður utanrmn., fulltrúi Framsfl. þar, lýsti því í fyrri hluta þessarar umræðu að hans flokkur sæi ekkert og hefði ekkert á móti því að utanrrh. tæki ákvörðun um að þessi forkönnun vegna varaflugvallar færi fram. Ég hygg því að það sé öruggur meirihlutastuðningur fyrir því á Alþingi að tekin verði ákvörðun um forkönnun varaflugvallar á vegum Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Það virðist hins vegar vera svo að Alþfl. hafi í reynd falið Alþb. húsbóndavald að því er varðar þetta atriði
í utanrrn. þó að fyrir liggi yfirlýsing frá hæstv. forsrh. þess efnis að hér sé um að ræða ákvörðunarvald utanrrh. en ekki ríkisstjórnarmál. Og það er einsdæmi að Alþb. hafi verið fengið slíkt áhrifavald um utanríkismálefni og varnarmálefni eins og í þessu tilviki.
    Ég vil þess vegna ítreka fsp. mína til hæstv. utanrrh.: Ætlar hann með einhverjum hætti að sýna fram á að annað sé upp á teningnum en það sem nú blasir við, að Alþb. hafi í raun verið fengið ákvörðunarvald í þessu efni? Þorir hæstv. utanrrh. ekki að taka þessa ákvörðun, vegna hótana Alþb. um stjórnarslit? Mér sýnist að flest bendi til þess að sú staða sé uppi og vil ítreka að ég lít svo á að þá sé um mjög alvarlega staðreynd að ræða, alveg nýja stöðu sem aldrei hefur komið upp áður í íslenskum stjórnmálum. Þó að í einstökum tilvikum hafi verið samið um takmörkun varnarliðsframkvæmda þegar Alþb. hefur átt aðild að ríkisstjórn hefur það aldrei fengið það áhrifavald að geta hindrað ákvarðanir sem fyrir liggur að eru alfarið á valdi utanrrh. en eru ekki ríkisstjórnarmál.