Námslán og námsstyrkir
Föstudaginn 08. desember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á nál. á þskj. 251, þ.e. síðari útgáfu þess eins og það var prentað upp, ritaði ég undir það með fyrirvara og vil nú, varðandi þann fyrirvara, að miklu leyti vísa til þess sem ég sagði við 1. umr. þessa máls. Mér hefur þótt að aðdragandi þessa máls væri óeðlilegur. Hæstv. menntmrh., sem frv. flytur, hefur oft vikið að því í fjölmiðlum og fullyrt að stjórn Lánasjóðsins og þá einkum formaður hennar hafi staðið í pólitísku stríði við ráðherrann, en bréfaskipti sem ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir hér við 1. umr. sýna að stjórnin, og þá einkum formaður hennar, hefur ekki á eindæmi viljað taka ákvarðanir sem beinlínis stefna fjárhag sjóðsins í hættu. Þeir hafa viljað hafa vaðið fyrir neðan sig og viljað þá að hæstv. ráðherra sjálfur tæki þá ábyrgð á sig sem fæli í sér fjárútlát sem ekki væri gert ráð fyrir í fjárlögum og ekki séð hvernig leyst yrðu. Þetta er raunverulega eina ágreiningsefnið sem fram hefur komið á milli hæstv. ráðherra og stjórnarinnar og þess vegna er óeðlilegt að bera það fyrir sig nú þegar hæstv. ráðherra vill skipta um stjórn í Lánasjóði ísl. námsmanna.
    Ég vil hins vegar víkja nokkuð að fjárhag Lánasjóðsins, og ber nú vel í veiði að bæði hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. skuli vera hér við þessa umræðu, og rifja upp í því sambandi að í byrjun þessa árs gerði hæstv. menntmrh. samninga við námsmenn um hækkanir á námslánum í þremur áföngum, 7,5% frá byrjun mars, 5% frá byrjun september og 6,4% þann 1. jan. Hins vegar er í fjárlagafrv. ekki gert ráð fyrir að staðið verði við þetta samkomulag. En í grg. með fjárlagafrv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Sú fjárhæð,,, þ.e. útlánafjárhæð sjóðsins, ,,miðast við það að við ákvörðun úthlutunarreglna fyrir skólaárið 1990--1991 verði heildarútlán sjóðsins miðuð við útlán í forsendum fjárlaga 1989 að teknu tilliti til breytinga á verðlagi, gengi og fjölda lánþega. Að því leyti sem útlán sjóðsins á fyrri hluta árs árið 1990 verða umfram áðurnefndar forsendur verður að mæta þeim með lántöku. Hækkanir á framfærslugrunni námslána umfram breytingu á verðlagi rúmast ekki innan þess fjárlagaramma sem hér er gengið út frá.``
    Þetta var tilvitnun í grg. með fjárlagafrv. Með öðrum orðum, sú hækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. jan. rúmast ekki innan ramma fjárlaganna. Og ekki nóg með það, sú hækkun sem þegar hefur komið til framkvæmda, bæði 1. apríl og 1. sept., rúmast heldur ekki innan ramma þess fjárlagafrv. sem fyrir liggur.
    Það liggur nú fyrir að það vantar í fjárlagafrv. 595 millj. kr. til þess að Lánasjóðurinn geti staðið við sínar skuldbindingar á árinu 1990 og að auki 180 millj. kr. ef standa á við samninginn við námsmenn þann 1. jan. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. um hvað sé fyrirhugað í þeim efnum, hvort fyrirhugað sé að standa við samninginn þannig að námslán hækki um þessi 6,4% þann 1. jan.

    Ég vil líka benda á hvernig staðan er á yfirstandandi ári, þ.e. á árinu 1989, því að þar er um verulega fjárvöntun að ræða einnig. Það liggur fyrir að til þess að ljúka árinu 1989 vantar í Lánasjóðinn 380 millj. kr. Um helmingur þeirrar upphæðar er vegna verðbreytinga, þ.e. breytinga sem hafa orðið umfram þær forsendur sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. eða um 190 millj. kr., þar koma gengisbreytingar einnig inn í, en hinn helmingurinn er vegna þeirra sérstöku hækkana sem hæstv. menntmrh. beitti sér fyrir og samdi um við námsmenn, þ.e. um 190 millj. kr. Upp í þessa fjárhæð, þ.e. 380 millj. kr., má sjá að í frv. til fjáraukalaga er gert ráð fyrir 180 millj. kr. þannig að það vantar 200 millj. kr. á þessu ári til þess að sjóðurinn geti staðið við þessar skuldbindingar sínar. Þetta mál virðist alveg vera óafgreitt því að Lánasjóðnum hafa ekki borist þessir peningar enn. Námslán á að greiða út nú þann 15. des. Í síðasta lagi nk. þriðjudag, 12. des., verður þessi fjárhæð að hafa borist til Lánasjóðsins ef á að vera unnt að greiða þessi lán út í samræmi við loforð.
    Nú hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir opinberlega að ábyrgðin af þessari ákvörðun, þ.e. að hækka námslánin, eigi að vera Alþingis og hann lýsti því yfir í fjölmiðlum að hann mundi ekki samþykkja aukafjárveitingu í þessu skyni. Nú liggur fyrir að það er ekki búið að afgreiða hér lánsfjárlög og þau verða örugglega ekki afgreidd fyrir þriðjudag, og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef reynt að afla mér liggur fyrir að þá þurfi að taka nýja ákvörðun í þessu máli, að þessi hækkun rúmist ekki innan fjárlaga og því þurfi sérstaka ákvörðun, annaðhvort sem sagt í fjáraukalögum eða sérstaka aukafjárveitingu sem þurfi að berast upp í ríkisstjórn. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntmrh. að því hvernig hann hyggst leysa þetta mál núna á næstu tveimur vinnudögum.
    Ég taldi nauðsynlegt nú við þessa umræðu um Lánasjóðinn að bera upp þessar spurningar við hæstv. menntmrh. og vonast til þess að hann sé reiðubúinn að svara þeim hér.