Námslán og námsstyrkir
Föstudaginn 08. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Af því að hv. 2. þm. Reykv. kaus að fara yfir málin í heild ætla ég að gera það líka.
    Í fjárlagafrv. ársins 1990 er um að ræða verulegar hækkanir umfram verðlagsforsendur til Lánasjóðs ísl. námsmanna, mjög verulegar. Og miðað við óbreyttan námsmannafjölda og miðað við óbreyttar rauntekjur námsmanna milli áranna 1989/1990 eða milli námsáranna 1988/1989 annars vegar og 1989/1990 hins vegar rúmuðust þær hækkanir sem gert var ráð fyrir í áliti vinnuhópsins, sem hv. þm. nefndi, fullkomlega innan þess ramma sem þar er gert ráð fyrir. Það sem hefur hins vegar síðan gerst er þetta: Námsmönnum hefur fjölgað frá árinu 1988/1989 til ársins 1989/1990 um 10% eftir að námsmannatalan hefur staðið í stað í þrjú ár. Hún hefur verið óbreytt í þrjú ár. Og t.d. var í forsendum fjárlaga fyrir árið 1989, sem ég kom að haustið 1988, gert ráð fyrir því að námsmönnum fækkaði um 1% á milli ára. Til viðbótar við þessa fjölgun upp á 10% er um það að ræða að tekjufall verður hjá námsmönnum eins og öðrum sem þýðir hjá þeim sjálfkrafa rétt til hækkaðra framfærslulána upp á 18--19% þannig að vandi sjóðsins bara af þessum tveimur ástæðum er á næsta ári ekki minni en 400--500 millj. kr., sennilega um 500 millj. kr., og það er alveg augljóst mál að á þessum vanda verður að taka með sérstökum hætti og horfa á hann opnum augum og menn þurfa að gera sér grein fyrir því hvernig hann liggur með hliðsjón af heildarstöðu sjóðsins að öðru leyti.
    Ég kann ekki ráð til þess að galdra út úr þjóðarbúinu 1 / 2 milljarð í viðbót, í viðbót við þá viðbót sem þegar liggur fyrir upp á 400 millj. eða svo í Lánasjóðnum á næsta ári, að ná þar 1 / 2 milljarði enn í viðbót á árinu 1990 til þess að tryggja það að sjóðurinn skili sér með þeim hætti sem gert hafði verið ráð fyrir áður en þessar hremmingar fóru að ganga yfir okkur.
    Í þessum efnum kemur auðvitað margt til og höfuðatriðið í mínum huga er það að ræða við námsmennina og námsmannahreyfingarnar um þennan vanda og það erum við að gera. Og ég hef orðið var við það að hjá námsmannasamtökunum er staðan þannig að menn gera sér auðvitað grein fyrir sínum rétti og halda honum fast fram eins og vera ber, en þeir gera sér líka grein fyrir þeim vanda sem hér er um að ræða, bæði fyrir þá og þjóðarbúið og þeir spyrja auðvitað þessarar spurningar: Hvernig getum við tryggt með nokkru öryggi að við höfum þó þann rétt sem við þrátt fyrir allt höfum haft samkvæmt lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna, námslán og námsstyrki.
    Það er rétt hjá hv. þm. að í áliti vinnuhóps sem ég skipaði seint á síðasta ári og skilaði snemma á þessu ári er gert ráð fyrir að um verði að ræða 6,4% hækkun til viðbótar á framfærslugrunnninum frá 1. jan. nk. Og það er líka rétt hjá hv. þm. að á móti því lögðu námsmennirnir það til að svokölluðu tekjutilliti eða tekjuviðmiðun yrði breytt frá því sem áður var í

þessu efni. Það var þeirra framlag inn í þetta dæmi. Og ég segi: Með hliðsjón af því að mun örðugra mun reynast að ná þessu marki með 6,4 prósentin en við höfum gert ráð fyrir tel ég koma fyllilega til greina í þeim viðræðum sem nú standa yfir að breyta tekjuviðmiðuninni til samkomulags við námsmannasamtökin ef það getur styrkt stöðuna að einhverju leyti um leið. Ég tel að það eigi að horfa á þetta opnum augum og halda þannig á málum að niðurstaðan geti orðið eins nálægt samkomulagi og kostur er.
    Síðan þurfa menn að lokum að fara yfir það með hvaða hætti á að halda rekstri sjóðsins áfram til næstu ára. Það er greinilegt að það er hægt að reka sjóðinn miðað við núverandi kjör með 35--40% lánsfé. Það stenst. Endurgreiðslur skila sér núna betur en menn höfðu gert ráð fyrir. Þær skila sér ekki illa. Menn þurfa hins vegar að átta sig á því að hve miklu leyti er staða til þess að gera ráð fyrir að þjóðarbúið og þeir sem eiga aðild að Alþingi Íslendinga þá og þá séu reiðubúnir til þess að halda gangandi jafngóðu lánakerfi og við þrátt fyrir allt höfum hér í dag eftir að námsmannafjöldinn er kannski orðinn tvisvar sinnum stærri en hann er núna. Ef hv. þm. vill ásaka mig fyrir að hafa ekki séð þetta fyrir í einstökum atriðum má hann gjarnan gera það, en hann verður líka að líta í eigin barm.
    Lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna, námslán og námsstyrki voru eins konar þjóðarsáttarlög, satt að segja. Ég man ekki betur en að allir flokkar sem þá áttu sæti á Alþingi hafi átt fulltrúa í þeirri nefnd sem undirbjó lögin. Í nefndinni átti sæti hv. 1. þm. Reykv. fyrir hönd Sjálfstfl. og þekkir hann þessi mál mjög vel þannig að það er auðvitað alveg augljóst mál að hérna hafa allir komið nærri og geta allir í sjálfu sér litið í eigin barm og sagt: Þetta eru mál sem við þurfum að skoða. Ég bendi á að frá því að lögin voru samþykkt, sem ég hygg að hafi verið 1982--1983, hefur námsmönnum fjölgað mjög verulega, ég hygg á þeim tíma frá líklega um 4500--5000 upp í núna um 7 þús. Svona lítur þessi vandi út í hnotskurn. Við skulum horfast í augu við hann og við skulum reyna að ná þarna lendingu sem er eins skapleg og kostur er fyrir alla aðila. Ég hef lagt á það áherslu að í þessum efnum horfi menn á stöðuna í heild, bæði hina almennu pólitísku stöðu. Það er auðvitað ekki nokkur vafi á því að það væri auðvelt verk að ráða við lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna í framkvæmd núna ef við hefðum verið með hagvöxt eins og þann sem sóað var á árunum 1986 og 1987 og jafnvel fram á árið 1988. Það væri auðvelt verk. Það væri satt að segja létt verk og löðurmannlegt. Eftir að þjóðarbúið hefur hins vegar tapað 20 þús. millj. kr., frá árinu 1988 til ársins 1990, er málið snúnara. Það vita allir og viðurkenna, hvað sem þeir annars kjósa að segja.
    Mér láðist áðan að þakka nefndinni fyrir greiða afgreiðslu á þessu máli og geri það hér með.