Námslán og námsstyrkir
Föstudaginn 08. desember 1989


     Jón Bragi Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér eru nú umræður um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þó að síðari hluti umræðnanna hafi e.t.v. orðið um of pólitískur fremur en faglegur. Það er hins vegar ljóst að það þarf að taka á vanda Lánasjóðsins á mjög faglegan hátt. Það hefur komið fram hér í umræðunni að vandinn er allverulegur og hefur verið það enn frekar á þessu ári. Það hefur komið fram að námslán voru hækkuð nokkuð á árinu 1989 en á móti var tekjutillitið hækkað úr 35% í 50%, þ.e. að námsmenn máttu núna hafa lægri tekjur áður en farið var að taka tillit til þeirra til frádráttar námslána.
    Þegar farið var út í þessar aðgerðir var talið að þetta mundi nokkurn veginn vega hvort upp á móti öðru. Raunin varð önnur og að því að mér skilst er ástæðan fyrst og fremst sú að námsmönnum hafi fjölgað um u.þ.b. 10% hvort sem hún var nú óvænt eða fyrirséð. Það er alla vega ljóst að nefndin sem fjallaði um það mál sá þá fjölgun ekki fyrir eða gerði sér ekki grein fyrir henni. Ég sat í þeirri nefnd fyrir núv. menntmrh. Ég hef einnig setið í nefnd um þetta mál fyrir fyrrv. menntmrh. og þar var unnið ötullega að tillögugerð um vanda sjóðsins. Þegar hann er skoðaður núna hygg ég að það þurfi að taka tillit til allra hliða þessa máls og skoða það allt saman, bæði lána- og úthlutunarreglur og endurgreiðslureglur.
    Það er nú þannig að fjárhagsvandinn er það mikill, að mér skilst, að ef lántökur eru 40% af fjármögnun sjóðsins þá þarf ríkissjóður að leggja til á næstu árum tvo til þrjá milljarða og líklega nær þremur en tveimur. Þeir leiðrétta mig sem vita tölur nákvæmar í þessum málum. Afgangurinn þarf að koma frá ríkissjóði, núna tveir til þrír milljarðar. Í erfiðum árum þurfa allir aðilar málsins að gera sér grein fyrir því að vandasamt er að leggja fram þá upphæð og ég hygg að námsmenn geri sér grein fyrir því. Þeir telja að þessi sjóður sé góður. Hann veitir þeim rétt og fjárhagslega getu til að stunda nám, það nám sem hugur þeirra stendur til og veitir þannig þjóðfélaginu menntað fólk í ríkum mæli sem við hyggjum að það þurfi á að halda í framtíðinni.
    Ef vandi sjóðsins á þessu ári og fram á það næsta, sem virðist vera vegna þess að námsmönnum fjölgar nú um 10% eða þar um bil, er púls, ef svo mætti segja, sem er að ganga í gegnum kerfið sem safnaðist upp á undanförnum árum, þá er þetta tímabundinn vandi sem hægt er að leysa. Kannski með skammtímaaðgerðum, með frestun á greiðslum eða samningum um slíkt. En ef það er rétt sem hæstv. ráðherrann nefndi áðan, að fjölgun námsmanna næstu 10 árin verði úr 7000 námsmönnum í 12--14 þús. þá er vandinn hins vegar miklu meiri. Það mun þá vera næstum því tvöföldun á tíu árum og er u.þ.b. 6--7% fjölgun á ári. Þá kemur tvennt til athugunar, eða þrennt raunar. Það er að lækka lánin, að auka framlög ríkissjóðs eða að auka og hraða endurgreiðslum námsmanna. Það er ekki margt annað sem kemur til greina, dæmið hefur ekki fleiri breytur út af fyrir sig

en þessar.
    Í þeirri nefnd sem fyrrv. hæstv. menntmrh. og núv. 2. þm. Reykv. skipaði fyrir um tveimur og hálfu ári síðan var tekið á þessum endurgreiðslureglum og ég hygg að menn þurfi aftur að huga að þeim málum. Það er hægt t.d. að hækka eitthvað tekjuhlutfallshámarkið í þeim tilgangi að ná hraðar inn endurgreiðslum. Það er einnig unnt að stytta endurgreiðslutíma námslána og er ástæða til þess að skoða hvorn tveggja þessara möguleika. Engu að síður verður að hafa í huga að sú kynslóð sem nýtur þessara námslána nú er einnig fyrsta kynslóðin sem þarf að endurgreiða námslán með verðtryggingu. Þó svo endurgreiðsluhlutfallið sé ekki 100%, þá er það miklu, miklu hærra en það var fyrir 1974 þegar námslán voru verðtryggð.
    Að sama skapi er þetta sú kynslóð sem í fyrsta sinn í marga áratugi þarf að endurgreiða húsnæðislán að fullu og með vöxtum og frá því í fyrradag með 4,5% vöxtum af húsnæðislánum. Þannig að endurgreiðsla lánsfjár þessarar kynslóðar leggst mjög þungt á hana og það verður að hafa í huga þegar þessar reglur eru skoðaðar. Það er m.a. af þessari ástæðu, þ.e. hvað hin unga kynslóð sem kemur úr skólum, framhaldsskólum, háskólum, á næstu árum og hefur gert á þessum áratug raunar, kemur til starfa, hvað greiðslubyrðin leggst þungt á aðila þessarar kynslóðar sem ég sætti mig við tiltölulega háan eignarskatt sem framlag fyrri kynslóða sem margar hverjar greiddu ekki til baka sín lán, hvorki námslán né húsnæðismálalán. Það er þess vegna sem við verðum að fara mjög varlega í sakirnar þegar við endurskoðum reglur um Lánasjóð ísl. námsmanna. ( Forseti: Forseti vill að gefnu tilefni vekja athygli á því að hér er til umræðu brtt. sérstaklega um námslán og námsstyrki sem fjallar um stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna.)