Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 08. desember 1989


     Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. flutti hér langa ræðu áðan, miklu lengri ræðu en sá ræðustúfur var sem ég er hér hálfnaður í. Mér finnst það vera lágmarkskurteisi að hæstv. forseti gefi, í beinu framhaldi af ræðu hæstv. ráðherra, fulltrúum þingflokkanna sem óska eftir því að tala tækifæri til að tala í beinu framhaldi af ræðu ráðherrans. Ég mun mótmæla því ef ekki verður að þessu farið strax við upphaf framhaldsfundarins í kvöld af þeirri ástæðu að það sýnir sig hér í dag að þingmenn stjórnarinnar hafa engan áhuga á að hlusta á sannleikann í tekjuskatts- og eignarskattsmálinu hérna. Það er, mér liggur við að segja gott á þá að vera boðaðir hér í atkvæðagreiðslu og fá tækifæri til þess að hlusta á ræður stjórnarandstæðinganna sem hafa minni skilyrði til þess að koma frá sér sínum viðhorfum og ef ekki verður orðið við mínum óskum um að það verði byrjað á ræðu minni hér í kvöld og að fulltrúar Kvennalistans og Frjálslynda hægriflokksins fái að tala í framhaldi af því mun ég gera við það verulega athugasemd því að ég sé ekki hvernig á að fara að því að slíta í sundur umræðuna með þessum hætti. Ef stjórnarþingmenn hafa áhuga á því að koma sínum málum áfram ber þeim auðvitað skylda til þess að sitja þingfundi og vera viðstaddir. Ég minni hæstv. forseta á að það var fyrir velvilja stjórnarandstöðunnar, þar á meðal Sjálfstfl. sem var gegn því frv. sem var verið að afgreiða hér fyrr í dag, að það mál komst áfram. Og ég hika ekki við að biðja hæstv. forseta um að taka tillit til þessarar réttlætiskröfu.