Framhald umræðu um umhverfismál
Mánudaginn 11. desember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Ég mótmælti því alls ekki í dag að gera hlé á ræðu minni. Mér þykir það sjálfsagt að stjórnarandstaða taki þátt í því að reyna að semja um gang mála á annatíma eins og rétt fyrir jól og við viljum vissulega standa að því. Það sem hér hefur hins vegar gerst er að boðleiðir upplýsinga hafa eitthvað verið krókóttar og því var það að ég taldi mér skylt, þrátt fyrir það, satt að segja, að ég þyrfti að vera annars staðar, að koma hér og ljúka því litla sem ég átti eftir af ræðu minni, enda hafði það ekkert verið nefnt að hæstv. ráðherrar sem hér tóku þátt í umræðunum í dag yrðu að vera fjarverandi og því yrði umræðunni frestað. Ég hefði alveg að sjálfsögðu fallist á það. Mér þykir það afar óeðlilegt að halda áfram þessari umræðu að þessum hæstv. ráðherrum fjarstöddum, sérstaklega vegna þess sem ég skýrði frá þegar ég kvaddi mér hljóðs um þingsköp, að ég tel að það sé nauðsynlegt að þingheimur fái frá ráðherrum upplýsingar um annað eins stórmál og hugleiðingar og fundi með ráðamönnum frá erlendum ríkjum um stofnun alþjóðlegrar mengunarrannsóknastöðvar hér á landi og það er vitanlega alveg gagnslaust að ræða þau mál og biðja um upplýsingar að þessum hæstv. ráðherrum fjarstöddum.
    Ég ætla því að þakka hæstv. forseta gott boð og segja: Nei, þökk fyrir, ef ég mætti heldur ljúka því litla sem ég á eftir í annan tíma þegar þeir hæstv. ráðherrar sem láta sig málið varða eru við. Það er reynar óljóst hvort sá hæstv. ráðherra sem málið stjórnskipulega heyrir undir hefur verið með í þessum umræðum um þessa alþjóðlegu stofnun í dag. Það er mér alls ókunnugt um og ég hef ekki hitt neinn hv. þm. sem hefur getað sagt mér það. Með öðrum orðum, ég tel ekki unnt að ræða málið að svo stöddu en mun hins vegar óska eftir að fá að gera það á næsta reglulegum fundi eða þegar hæstv. forseti ákveður, en mér þætti vænt um að fá að vita um þá ákvörðun. Það er einungis þetta.
    Ég segi alls ekki að forseta sé óheimilt á neinn hátt að semja um framgang mála. Það er auðvitað sjálfsagt af hans hálfu og ég tel að hæstv. forseti stjórni fundum hér ágætlega og gagnrýni mín beinist alls ekki að því heldur hinu að ef samið er um framhald mála, og þá þess heldur þegar þingmenn eru í miðjum ræðum og hafa fúslega fallist á að fresta þeim, viti þeir þá a.m.k. ef á að gera allt annað í upphafi næsta fundar. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að málinu liggi nokkrn skapaðan hlut á svo ég fellst alveg fyllilega á að fresta því.
    Ég vildi aðeins koma því á framfæri að ég tel ekki að þetta hafi verið óheimilt á neinn hátt af hálfu hæstv. forseta, og við viljum að sjálfsögðu fúslega taka þátt í því að greiða fyrir málum en viljum auðvitað fá tækifæri til að fá allar upplýsingar sem við eigum rétt á.