Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Mánudaginn 11. desember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni yfir því að landbn. hv. Ed. náði saman um þetta mál þó að það sé að vísu ekki séð hvernig þessari atvinnugrein reiðir af þrátt fyrir þetta frv. En mitt erindi hér í ræðustól er fyrst og fremst það að í umræðum í Ed. sagði hv. þm. Egill Jónsson að aðild loðdýraræktar væri trúlega rúmur 1 / 4 hluti af varasjóði Stofnlánadeildarinnar sem var í árslok 1988 liðlega 1,2 milljarðar kr., miðað við viðskipti þeirra við Stofnlánadeild. Þetta er auðvitað afskaplega mikill misskilningur. Það er eiginlega sárt að hlusta á það að menn, sem ætti að vera kunnugt um hvernig þessi viðskipti hafa verið, skuli kasta svona fram hér á Alþingi. Sannleikurinn er sá að þessi lán til loðdýraræktar, eins og annarra bænda, eru með niðurgreiddum vöxtum og ef tekið væri tillit til þess held ég að loðdýraræktin hafi ekki lagt neitt til í sambandi við að byggja upp eigið fé Stofnlánadeildar. En þetta kemur raunar ekki málinu við. Þetta er hluti af bændastéttinni sem vinnur við loðdýrarækt og það er siðferðileg skylda stjórnvalda, vegna þess hvernig þetta fór af stað sem öllum er kunnugt um, að reyna að koma þessari atvinnugrein út úr þeim vanda sem menn standa frammi fyrir.
    Ég ætla mér ekki að koma fram með brtt. við frv. þó að ég væri búinn að láta að því liggja þegar málið kom hér inn á þing og þó að ég telji kannski að sumt orðalag sé ekki nógu skýrt, þá er það í heimildarformi. Ég vona að þetta mál fari hratt í gegnum þingið vegna þess að komið er fram yfir þann tíma sem bændur þyrftu að hafa haft til þess að geta ákveðið sig um það hvernig þeir standa að þessum búskap á næsta ári.