Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er tæpast umræðuhæft eins og viðurkennt er af nefndarmönnum í fjvn. Hér við 2. umr. um fjárlagafrv. liggur fyrir að mjög veigamiklir liðir eru enn óafgreiddir og hafa ekki fengið eðlilega umfjöllun í fjvn. Þar sem frv. er með þessum hætti vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þau vinnubrögð sem tíðkast við setningu fjárlaga.
    Þann tíma sem ég hef setið á Alþingi hefur það verið árviss viðburður að ríkisstjórn hefur verið svo sein að ganga frá sínum hlutum að umræður og afgreiðsla fjárlaga verður aldrei fyrr en síðustu daga þingsins fyrir jólafrí og þinginu jafnvel gert að starfa lengur vegna þess að umræðunni er ekki lokið. Fjvn. afgreiðir frv. ekki út úr nefndinni fyrr en nokkrum dögum fyrir jólafrí þingmanna. Venjulegum þingmönnum er síðan gert að kynna sér og fjalla um þetta mikilvægasta frv. sem Alþingi afgreiðir árlega á handahlaupum og það á sama tíma og ríkisstjórnin hamast við að breyta Alþingi í afgreiðslustofnun fyrir þingmál þau sem hún ungar út rétt fyrir þinghlé. Þannig á að gera allt í einu á nokkrum dögum í desember.
    Þessi vinnubrögð eru óviðunandi og lítt til þess fallin að auka virðingu Alþingis. Við megum ekki gleyma því að okkar hlutverk sem þingmanna er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og veita því nauðsynlegt aðhald. Það er því ekki okkar hlutverk sem þingmanna að taka við frv. ríkisstjórnarinnar og afgreiða þau á færibandi. Okkar hlutverk er að stunda vandaða löggjafarstarfsemi og við gerum það ekki með þessum starfsháttum.
    Ég lít líka á hlutverk mitt sem þingmanns að vera málsvari fólksins gagnvart ríkisvaldinu þannig að það er mitt hlutverk að gæta þess að borgararnir þurfi ekki að þola óhóflegt harðræði skattpíningar. Það er líka mitt hlutverk sem þingmanns að gæta þess að framtíðin sé ekki veðsett vegna þess að við erum ekki tilbúin að taka á vandamálum líðandi stundar.
    Ég hef þá skyldu líka sem faðir að börnunum mínum sé ekki gert að greiða bruðl og óráðsíu hæstv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar, hafi ég nokkur tök á að afstýra því. Ég hef horft upp á það með vaxandi gremju hvernig stjórnvöld hafa talið eðlilegt að sólunda peningum borgaranna. Það virðist stundum skorta á að menn athugi hina hliðina á málunum. Þeir peningar sem ríkið eyðir eru ekki tíndir af trjánum, þeir eru ekki grafnir úr jörðu. Þeir verða ekki til með tilfærslum og auknum ríkisafskiptum. Peninganna er aflað með því að taka þá af borgurunum sem hafa unnið fyrir þeim.
    Ég hef talað við nokkra sem hafa með innheimtu á þessum skattpeningum að gera. Þeir hafa sagt mér með hvaða harmkvælum þessir peningar eru oft á tíðum slitnir út úr fólki, fátæku fólki. Það er komið á heimili þar sem er mikil ómegð og innheimtumaður ríkissjóðs skrifar upp sjónvarpstækið eða önnur mikilvæg heimilistæki. Síðan koma menn og rífa þessi

tæki af fólki og selja á uppboði. Þetta er hin hliðin á málunum. Á meðan erum við að afgreiða 100 millj. hér og 200 millj. þar.
    Nú má enginn skilja orð mín svo að ég sé á móti því að borgararnir greiði lögmæt gjöld sín. Það er hins vegar ekki sama með hvaða hætti kerfið er
útbúið. Það er ekki sama hvar skattleysismörkin eru sett. Það er ekki sama hve stór hluti er tekinn í neysluskatta og þjónustugjöld. Hvernig gengur einstæðu foreldri sem hefur 100 þús. kr. í laun á mánuði og þarf að eiga bifreið að draga fram lífið? Hvað þarf það að greiða til ríkis og sveitarfélaga mánaðarlega af þessum 100 þús. kr. þegar allt er talið? Gæti það verið 50 þús. kr. eða meira? Það væri ekki úr vegi að fá svör hæstv. fjmrh. við því og heyra síðan viðhorf ASÍ og BSRB til þess á eftir.
    Þegar þetta fjárlagafrv. er skoðað sést að engin breyting verður á neinu, nái það fram að ganga. Að því þó undanskildu að skattheimta vex og óráðsíuskuldir verða meiri og þeim verður hlaðið upp hraðar en verið hefur að undanförnu og finnst þó mörgum nóg um. Ekki er gerð tilraun í þessu fjárlagafrv. til að marka neina sérstaka stefnu í ríkisfjármálum aðra en þá að stjórna frá degi til dags.
    Einu sinni var konungur í Frakklandi sem hét Loðvík, og hafði að ég hygg tölustafinn 15. Hann þótti eyðslusamur og tók við af eyðslusömum föður. Hann hafði þá stefnu í ríkisfjármálum að það gengi meðan hann lifði. Annað kom honum ekki við. Þau orð sem eftir honum eru höfð og helst hafa lifað eftir hann eru: ,,Það lafir meðan ég lifi.``
    Það var líka þannig að byltingin í Frakklandi varð ekki fyrr en í tíð barnsins hans. Þetta ,,lafir líka`` meðan hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson situr í sæti þess embættis. En hlutirnir verða ekkert betri. Það leysast ekki nein vandamál, vandamálin magnast. Og á þeim munu börnin okkar þurfa að taka.
    Það sem er verst í þessu og fyllir menn nokkru vonleysi, er að það virðist ekki skipta máli þó að skipt yrði um ríkisstjórn og t.d. flokkur ráðdeildar og sparnaðar, eins og hann kallar sig stundum, sjálfur Sjálfstfl., kæmist í valdaaðstöðu. Til marks um það má benda á að formaður þess flokks hafði örlítið fitlað við fjárhirslur ríkisins en ekki lækkuðu skattarnir. Hvorki
lækkuðu útgjöld ríkissjóðs né var ríkissjóður rekinn hallalaus.
    Viðbrögð þingmanna flokksins, þegar upp koma gæluverkefni, sýna það síðan ótvírætt að þessi flokkur mun ekki valda neinun straumhvörfum í íslenskri pólitík. Flokkurinn virðist hafa glatað hugsjónum sínum. Eini möguleiki þess flokks er að hann beri gæfu til að mynda meirihlutahægristjórn með Frjálslynda hægriflokknum sem mundi vafalaust verða til þess að flokkurinn kæmist á ný á beinu brautina.
    Ég fæ því miður ekki séð annað en að við munum áfram fljóta að feigðarósi í ríkisfjármálum. Við munum áfram auka skattheimtu og hallarekstur ríkissjóðs. Ég sé engin merki þess að fjvn. sé reiðubúin til að taka á málum eins og nauðsyn er ef

unnt á að vera að sigla hjá þeim skerjum sem fram undan eru og það eru ekki blindsker. Hver og einn sæmilega skynsamur maður á að sjá þetta. En af hverju er ekki brugðist við? Hvað veldur því að það sama gerist ár eftir ár?
    Á hverju hausti er dustað rykið af gömlu fjárlögunum og sagt: Hvað fengu nú þessir mikið og er ekki eðlilegt að hækka þá um það sem nemur verðbólgu?
    Árlega segir fjmrh. að stefnt sé að einhverju í ríkisbúskapnum sem síðan stenst aldrei. Af hverju ekki? Er hann með svona slaka ráðgjafa eða hvað veldur? Væri e.t.v. lausn fólgin í því að setja eitt hagfræðingagengið í viðbót við þau sem fyrir eru eða væri e.t.v. betra að hafa bara eitt hagfræðingagengi og vita hvernig það gengi? Varla getur það orðið verra.
    Þetta leiðir til þess að við getum í raun gert okkur sæmilega grein fyrir því hvert stefnir og þurfum ekki að hlusta á ruglandann í ríkisstjórninni. Við vitum að fjárlagahallinn verður í kringum 6--8 milljarðar í ár og líklega á bilinu 10--20 milljarðar næsta ár. Hvað ætlum við að gera í því? Afgreiða fjárlög svo sem verið hefur og láta síðan gera lítið úr okkur sem fjárveitingarvaldi með því að heimila í raun viðbótarútgjöld eftir á upp á fleiri, fleiri milljarða?
    Meðan svona er ástatt, er þá umræða á Alþingi Íslendinga um fjárlög og afgreiðslu þeirra nokkuð annað en léleg skrýtla? Er hér nokkuð annað að gerast en að við komum með einhverja tillögu um smáatriði sem síðan ná yfirleitt ekki fram að ganga og síðan er málið afgreitt í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar? Enda ekki óeðlilegt þegar í það stefnir að meiri hluti stjórnarþingmanna sitji í ríkisstjórn.
    Hvað geta þm. gert annað en að koma með einhverjar smáathugasemdir þegar málið liggur ekki fyrir umræðuhæft fyrr en í lok desember? Til hvers er hægt að ætlast? Að þingmenn komi með einhver töfraorð á tveim, þrem dögum sem fjmrh. hefur ekki fundið á heilu ári og finnur aldrei?
    Það sem hægt er að gera við þessa umræðu og ég vil leggja áherslu á er að ræða með hvaða hætti megi koma í veg fyrir að við keyrum það öngstræti á enda sem við erum komnir langt á veg með að gera. En hvernig? Það gerum við ekki með því að samþykkja þessi fjárlög. Það gerum við ekki með því að beita sömu gömlu vinnubrögðunum ár eftir ár. Við gerum það einungis með því að beita fyrir okkur róttækum niðurskurði á kerfinu og sparnaði á öllum sviðum. Ríkisstjórnir hafa sýnt að þær eru nánast ófærar til að gangast fyrir sparnaðartillögum. Svo virðist sem þingmenn almennt líti ekki á það sem hlutverk sitt. Hugsanlega gæti þó verið fólgin lausn í því að Alþingi og eða stjórnmálaflokkarnir tilnefndu menn til að fara ofan í ríkisfjármálin og beita sér fyrir tillögum um róttækan niðurskurð.
    Ef menn eru ekki tilbúnir að spara vefst þeim oft tunga um tönn. Alþjóð fékk að sjá sem dæmi um slíkt um daginn hvernig fyrrv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson var leikinn þegar hann reyndi að fara í sparnaðarfötin.

Hann gat það ekki, getur það ekki og mun ekki geta það. Til þess er flokkur hans of hallur undir sérhagsmuni vítt og breitt í þjóðfélaginu. Þeir sem vilja berjast fyrir sparnaði verða að gera það í einlægni, vitandi að stórir hópar sérhagsmuna munu reyna að gera þá tortryggilega og draga úr öllu sem til er lagt í sparnaðarskyni. Þrátt fyrir þetta vil ég leyfa mér að geta um nokkur atriði sem mér sýnist einsýnt að þurfi að taka á í sparnaðarskyni.
    Ég nefni aðeins nokkur dæmi en vil jafnframt geta þess að innan míns flokks er hafin markviss vinna í þessum málaflokki. Þeirri vinnu verður ekki lokið í bráð og við erum tilbúnir til samstarfs við alla þá sem vilja beita sér fyrir samdrætti í ríkisbúskapnum. Við lítum á málin með þeim hætti að hér sé um þvílíka þjóðarvá að ræða að nauðsynlegt sé að ná sem víðtækastri samstöðu til að ná sem fyrst árangri í baráttu fyrir niðurskurði ríkisútgjalda.
    Eins og ég gat um áðan er varla hægt að ætlast til þess af þingmönnum að þeir geti í einu vetfangi fundið það sem fjmrh. átti að leita að frá því hann tók við embætti. En það er samt hægt að gera grein fyrir nokkrum meginlínum sem frjálslyndir hægrimenn telja nauðsynlegt að fylgt verði til að ná niður skattbyrðinni og reka ríkissjóð án halla.
    Nauðsynlegt er að draga úr almennum rekstrarkostnaði ríkissjóðs á öllum sviðum, m.a. með ströngum takmörkunum í starfsmannahaldi og nýtingu vinnutíma. Fækka verður starfsmönnum með því að ráða ekki nýtt fólk til starfa en flytja
það fólk sem fyrir er úr þeim störfum sem lögð verða niður í þau störf sem þörf verður á að manna. Gera verður yfirvinnuramma fyrir hvert ráðuneyti og hverja stofnun. Endurskoða þarf mötuneytismál og við það miðað að ríkið reki ekki mötuneyti. Vel má hins vegar hugsa sér að afhenda starfsmönnum núverandi mötuneyti til áframhaldandi starfrækslu, ef þeir óska, á sína ábyrgð og kostnað.
    Skipulagsleysi í fjárfestingum hefur verið einkennandi hjá ríkisvaldinu. Þannig getur jafnan að líta fjölda hálfkláraðra bygginga sem nýtast ekki svo árum skiptir. Hálfkláraðar hafnir, vegi og brýr. Nauðsynlegt er að hætta að þjóna lund einstakra stjórnmálamanna með þessum hætti og raða verkefnum í forgangsröð og ljúka þeim áður en ráðist er í önnur hliðstæð. Þá verði líka við það miðað að verk verði fullhönnuð áður en í þau er ráðist. Með skipulagi á þessu sviði mætti spara verulega fjármuni.
    Nauðsynlegt er að einfalda stjórnkerfið, fækka þarf alþingismönnum allt að því um helming og nú er ljóst að setja þarf skorður við fjölda ráðherra. Fjöldi þeirra í dag fer eftir því hversu sterk ríkisstjórn er. Ráðherrar ættu ekki að þurfa að vera fleiri en fimm en hægt væri að hugsa sér að hámarkstala gæti verið sjö til átta. Þá þarf einnig að einfalda stjórnkerfið á öðrum sviðum með sameiningu og fækkun í stjórnum og ráðum.
    Við höfum byggt upp stjórnkerfi sem er mörgum sinnum of stórt, fjölmennt og flókið fyrir jafnfátt fólk og hér býr. Með þessum hætti verður stjórnkerfið

dýrara og óskilvirkara en það þyrfti að vera ef miðað væri við þarfir þjóðarinnar og hætt að þjóna einhverjum sérsjónarmiðum eins og duttlungum einstakra kjördæma og landshluta. Á sama tíma og við erum að dreifa og sundurlima stjórnkerfið eftir kjördæmum á fjölmörgum sviðum, sennilega í þágu einhvers sem sumir kalla byggðastefnu, en er það ekki og þjónar engum öðrum tilgangi en að gera stjórnkerfið stærra og flóknara, er fólkið utan þéttbýlissvæðisins við Faxaflóa að sýna fram á hversu fáránlegt þetta er með því að hagnýta sér nútíma samgöngutækni sem skipuleggjendur ríkiskerfisins virðast ekki hafa gert sér grein fyrir að hefur þróast verulega mikið síðustu árin.
    Þannig er ekki þörf á því í dag að hafa sérstakar fræðsluskrifstofur í hverju kjördæmi, að hafa sérstakar skattstofur í hverju kjördæmi, sérstakar svæðisstjórnir í hinu og þessu í hverju kjördæmi o.s.frv. Hvers vegna er þetta svona og hvaða tilgangi þjónar það? Skiptir það einhverju máli fyrir íbúa á Patreksfirði hvort hann fær skattseðilinn sinn sendan frá Hafnarfirði eða Hnífsdal? Skiptir það skólastjóra í Stykkishólmi einhverju máli hvort hann þarf að sækja ráð til Akraness eða Reykjavíkur?
    Frjálslyndir hægrimenn telja nauðsynlegt að einfalda stjórnkerfið m.a. með því að fækka stjórnsýslustofnunum eins og að framan greinir. Slíkt er, auk þess að spara mikla fjármuni, til þess fallið að auka jafnræði borgaranna þannig að þeir sitji frekar við sama borð hvað afgreiðslu yfirvalda varðar en nú er.
    En það er fleira. Stundum er talað um að laun alþingismanna séu há. Við sem hér sitjum vitum að laun alþingismanna er ekki hár liður í fjárlögum en þau mættu samt lækka með því að þingmönnum yrði fækkað, sem sjálfsagt er að gera. Þá finnst mér eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir greiði sjálfir fyrir sérfræðiaðstoð sér til handa en krefji ekki skattgreiðendur um það. Litlar 23 millj. ganga til þessa. Þá er og einn liður sem heitir Uppbætur á lífeyri starfsmanna stjórnmálaflokkanna. Þetta er að mínu viti algjört siðleysi. Það eru engin rök til annars en að stjórnmálaflokkarnir greiði sjálfir þær uppbætur á lífeyri sem starfsmenn þeirra kunna að eiga rétt á. Vilji menn gangast fyrir verulegum sparnaði þá getum við þingmenn gengið á undan með því fordæmi að hætta tímabundið kynnisferðum á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og getum með þeim hætti gefið tóninn gagnvart ferðabruðli ríkisins.
    Einu sinni sagði ágætur maður sem starfaði við ferðamannaiðnaðinn við mig, en þessi maður þarf vegna starfs síns að ferðast mikið: Þegar ég kem í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli þegar helsta ferðamannatímanum er lokið, t.d. yfir vetrarmánuðina, þá bregst það ekki að í hvert skipti er stór hópur pólitíkusa að fara á ráðstefnu, fundi eða eitthvað þess háttar. Skyldu nú allir þessir fundir og allar þessar ráðstefnur vera ómissandi? Væri ekki fróðlegt að sjá skýrslu yfir allar ferðirnar og yfirlit um hvað út úr þeim kom?

    Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju þurfi að vera sérstök Þjóðhagsstofnun. Af hverju má ekki sameina Þjóðhagsstofnun og Hagstofuna í sparnaðarskyni? Nú hefur Hagstofan fengið sérstakan ráðherra. Væri það ekki gott fyrir hann, svo hann hefði nú eitthvað að gera í ráðuneyti sem ekki er til, að vinna að því að sameina þessar tvær stofnanir?
    Frjálslyndir hægrimenn telja að bein framlög til lánasjóða eigi ekki að eiga sér stað. Í samræmi við það teljum við að lánasjóðir eigi að fjármagna sig sjálfir og lána peninga á því verði að endurgreiðslur dugi fyrir starfrækslu sjóðanna. Í samræmi við þessa skoðun teljum við óeðlilegt að leggja fram af skattpeningum almennings t.d. til Atvinnutryggingarsjóðs og Byggðasjóðs svo
eitthvað sé nefnt. Ef tillit væri tekið til þeirra hugmynda mundu útgjöld ríkissjóðs lækka verulega, sennilega um hálfan eða heilan milljarð. Væri miðað við þessa stefnu hvað Lánasjóð ísl. námsmanna áhrærir mundu sparast rúmlega tveir milljarðar til viðbótar. Ef einungis þannig væri fylgt þeirri stefnu frjálslyndra hægrimanna að lánasjóðir standi undir sjálfum sér, bæði í rekstri og útlánum, þeir yrðu að fjármagna starfsemi sína með því að taka fé að láni til endurlána þegar þess þyrfti með, þá mundi það lækka ríkisútgjöld um tæpa þrjá milljarða. --- Hvað eru svo þrír milljarðar? Það er sama fjárhæð og öll innflutningsgjöld á bensíni. Það er hærri fjárhæð en eignarskattar, erfðafjárskattar og sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði samanlagt.
    Fræðslu-, skóla- og heilbrigðismál þarf að skoða sérstaklega í sparnaðarskyni. Við erum með mjög góða heilbrigðisþjónustu og við erum með skólakerfi sem er að mörgu leyti gott. Við viljum ekki fórna því að búa við gott skóla- og heilbrigðiskerfi. En þó við fórnum engu er þá ekki hægt að spara í þessum greinum? Spyrja má: Hvers vegna eru íslenskir nemendur tveimur árum lengur að ná þeim almenna áfanga í námi sem stúdentspróf heitir en félagar þeirra í nágrannalöndum okkar? Ég er sannfærður um að það er ekki vegna þess að okkar unglingar séu verr gefnir eða að öðru leyti verr af guði gerðir en jafnaldrar þeirra erlendis. Hér er um skipulagsleysi að ræða sem kemur fyrst og fremst niður á unglingunum og tefur þá í námi en veldur ríkinu líka gífurlegum tilkostnaði.
    Forustumenn íslenskra menntamála hafa verið óskaplega íhaldssamir að mörgu leyti. Mér finnst mál til komið að öðrum sjónarmiðum verði beitt og fremur hugsað um hagsmuni nemenda en kennara. Þá er nauðsynlegt að nýta í auknum mæli kosti nútímafjölmiðlunar, t.d. sjónvarps, með því að vera með gott skólasjónvarp. Má t.d. auka jafnræði með borgurunum og draga úr þeim mun sem óhjákvæmilega hlýtur að verða á milli þéttbýlis og dreifbýlis í aðstöðu til menntunar. Auk þess að draga úr aðstöðumun mætti spara verulega fjármuni með þessum hætti og koma upp góðu fræðslusafni sem mætti nota í einhver ár.
    Sumir halda að stjórnmálamenn eigi að kunna skil á öllum hlutum og vita ráð við öllu. Ég kom það

snögglega inn í stjórnmálin að ég hef ekki lært að tileinka mér þetta. Mér finnst því betra að segja hlutina eins og þeir eru. Þannig geri ég mér grein fyrir því að mjög mikla vinnu þarf að leggja í skoðun á skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu sem og dómstólakerfinu áður en hægt er að leggja fram raunhæfar tillögur til sparnaðar. Þá vinnu verður hins vegar að vinna og ég og mínir flokksmenn erum staðráðnir í því að vinna að þessu á næstu missirum með eða án aðstoðar annarra, en þó helst með.
    Frjálslyndir hægrimenn telja það siðleysi að niðurgreiða matvæli ofan í útlendinga. Við viljum að þegar í stað verði hætt að greiða niður útfluttar afurðir. Með því að hætta því sparast --- ja, rúmlega hálfur milljarður, ég man nú ekki töluna nákvæmlega. Niðurgreiðslur á vöruverði eru áætlaðar um 4 milljarðar. Af hverju má ekki afnema niðurgreiðslur á vöruverði með þessum hætti og lækka þess í stað virðisaukaskatt á matvæli sem því nemur og þá á öll matvæli? Ég vil benda á þetta atriði vegna þess að mér finnst það skjóta svolítið skökku við að skattleggja þegnana með annarri hendinni og rétta þeim síðan til baka með hinni eftir geðþótta stjórnmálamanna. Niðurgreiðslur á vöruverði hafa verið notaðar til að mismuna framleiðendum. Þær hafa verið notaðar af stjórnvöldum í því skyni að stjórnvöld réðu matarkörfu heimilanna. Það er þvingun og neyslustýring sem frjálslyndir hægrimenn geta ekki sætt sig við. Slíkt viðgengst líkast til enn í ríkjum Austur-Evrópu en er þar sjálfsagt líka á hröðu undanhaldi eins og annað í stirðnuðu stjórnkerfi þeirra landa. Væri nú ekki eðlilegt að við byrjuðum á því hér að taka upp leikreglur frelsisins í þessum málum og leyfðum neytendum að ráða hvað þeir vilja helst kaupa í matinn? Af hverju ættum við ekki að gera það?
    Með því að afnema niðurgreiðslurnar getum við unnið margt. Við getum hætt að mismuna framleiðendum. Við hættum að stjórna innkaupum neytenda, við hættum að stuðla að óhagkvæmni í framleiðslu og við getum lækkað virðisaukaskattinn á öllum matvælum verulega. Það mundi vera betri búbót fyrir láglaunafjölskyldur í landinu en niðurgreiðslurnar.
    Hæstv. forseti. Áður en ég sný mér að nál. frá meiri hl. fjvn. get ég ekki látið hjá líða að gagnrýna harðlega formann nefndarinnar, hv. þm. Sighvat Björgvinsson, fyrir þá óviðunandi vanvirðu er hann sýndi Alþingi og alþm. í gær þegar hann lét hafa viðtal við sig á báðum sjónvarpsstöðvunum til að kynna niðurstöður vinnu fjvn. sem við erum hér að ræða. Fjölmiðlasýki einstakra þingmanna og ráðherra er slík að ef þingmenn vilja í raun fylgjast með þeim málum sem væntanleg eru inn á þing og jafnvel störfum þingnefnda þá er öruggara að setjast fyrir framan sjónvarpið en að sitja hér í þessum sal. Slíkum vinnubrögðum vil ég harðlega mótmæla og vona að slíkt endurtaki sig ekki.
    Hv. formaður fjvn. hefur verið iðinn við að telja þjóðinni trú um að nú hafi í fyrsta sinn verið tekin upp heilbrigð vinnubrögð með nýjum hætti og sé það

ekki síst að þakka því að nú hafi hv. fjvn. ríkisreikning undanfarins árs sér til hliðsjónar. Hér er auðvitað verið að slá ryki í augu fólks því að eftir því sem ég kemst næst hafa nauðsynlegar upplýsingar alltaf verið til staðar og því ekkert nýtt hér á ferðinni annað en sjónhverfing. Annars er það hlálegt að tala um ný vinnubrögð en segja svo strax í fyrstu setningu nál., með leyfi forseta: ,,Afgreiðsla fjárlaga í fjvn. hefur að þessu sinni verið með hefðbundnum hætti.`` Nýju vinnubrögðin felast sem sé í því að starfið var með hefðbundnum hætti. Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum. Annars er nál. í sjálfu sér ekki merkilegt plagg og ekki mikið á því að græða nema e.t.v. það sem vekur nokkra athygli að allhressilega er sett ofan í við hæstv. fjmrh. í áliti meiri hl. Þar segir m.a. á bls. 3, með leyfi forseta:
    ,,Ef litið er á heildartillögur nefndarinnar um viðbótarútgjöld sem nema nú fyrir 2. umr. 1 milljarði 182 millj. 262 þús. kr., þá eru tillögur hennar um hækkun rekstrarliða þar af um 570 millj. 205 þús. kr. og er sú fjárhæð svo til öll vegna lagfæringa á áætlunum frv. um útgjöld vegna launa miðað við óbreyttan rekstur, vegna rangrar verðuppfærslu í frv. eða vegna vanáætlana um önnur rekstrarútgjöld.``
    Þarna er sagt berum orðum að frv. hæstv. fjmrh. hafi verið svo illa unnið að á stórum liðum hafi orðið að gera veigamiklar breytingar vegna lagfæringa á áætlun frv., vegna rangrar verðuppfærslu í frv. og vegna vanáætlana. Það virðist svo sannarlega ekki vanþörf á því að endurskoða frá grunni fjárlagavinnuna í ár.
    Þá er einnig í álitinu á sömu bls. sýnt fram á óvönduð vinnubrögð menntmrn. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. var áformað sérstakt sparnaðarátak af hálfu menntmrn. að fjárhæð 200 millj. kr. og var sú fjárhæð tilgreind á einum fjárlagalið án sundurliðunar á viðfangsefni. Fjvn. fékk sundurliðaðar tillögur ráðuneytisins um niðurfærslu gjalda og námu þær tillögur samanlagt um 169 millj. kr. eða nokkru lægri fjárhæð en áform voru um í frv.``
    Þarna kemur skýrlega fram að ráðuneytið hefur hér aðeins kastað fram einhverri tölu svona til málamynda, en þegar að því kemur að gera grein fyrir henni, þá koma vinnubrögðin í ljós. Ég vil þó hrósa fjvn. fyrir slík gagnrýnin vinnubrögð og tel að nefndin mætti að ósekju gera meira af slíku því ekki virðist veita af.
    Á bls. 4 kemur enn fram hörð gagnrýni á ráðamenn en þar segir, með leyfi forseta: ,,Fjárveitinganefnd Alþingis hefur farið mjög vandlega yfir áætlanir menntmrn. um stöðu framkvæmda, sem áður voru sameiginlegar með sveitarfélögum, miðað við nk. áramót. Sjálfsagt eru einhver atriði þar sem sveitarfélögin mun greina á við ríkisvaldið um fjárhæðir þó að nokkuð ljóst sé um heildarfjárhæðir vangreiddra framlaga ríkisins vegna þessara framkvæmda, en þær munu nema á bilinu 1200--1400 millj. kr. Nefndin hefur hins vegar enn ekki gert tillögu um hvernig að þessum uppgjörsmálum skuli staðið við afgreiðslu fjárlaga, en mun gera tillögu um

það fyrir 3. umr. Hefur það nokkuð tafið störf nefndarinnar í þessari vinnu að reglugerðir lágu lengi vel ekki fyrir og liggja raunar ekki fyrir enn að því er varðar reglugerð um uppgjörið við sveitarfélögin vegna framkvæmda á sviði skólamála, dagvistunar og íþróttamála. Þá hefur fjvn. ekki heldur getað við þessa umræðu gert tillögur um hvernig staðið skuli að skiptingu fjárframlags á fjárlögum til íþróttamála skv. hinum breyttu verkaskiptingarlögum. Falla nú niður greiðslur úr ríkissjóði til íþróttaframkvæmda á vegum sveitarfélaga en haldast hins vegar áfram hvað varðar greiðslur úr ríkissjóði til íþróttaframkvæmda á vegum frjálsra félagasamtaka. Það var fyrst nú fyrir örfáum dögum sem nefndin fékk í hendur reglugerð hvað þennan nýja íþróttasjóð varðar og hún hefur ekki haft ráðrúm til þess fyrir þessa umræðu að ganga frá tillögum sínum þar um.``
    Hér staðfestist enn einu sinni að slóðaháttur ríkisstjórnarinnar í viðbót við slæm vinnubrögð veldur verulegum töfum á starfi fjvn. Reglugerðir lágu ekki fyrir og liggja ekki enn fyrir allar.
    Hvað varðar íþróttirnar væri hægt að hafa langt mál sem ég ætla þó ekki að gera að sinni. Hins vegar vil ég ítreka það sem ég margsagði og varaði við þegar verið var að ræða frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að íþróttamálin áttu ekki að færast yfir á sveitarfélögin. Hv. þm. munu verða varir við þau mistök innan fárra ára. Hvað varðar Íþróttasjóðinn fyrir frjáls félagasamtök, þá er hann ekkert nema nafnið eitt því ljóst er að honum er svo naumt skammtað fé að hann er í raun til einskis. Um nál. meiri hl. ætla ég ekki að hafa mikið fleiri orð en vil í lokin geta þess að skýringar við brtt. eru afar fátæklegar og allvíða engar.
    Hæstv. forseti. Það er nú ljóst eftir meðferð hv. fjvn. að ekki stendur steinn yfir steini í frv. hæstv. fjmrh. og þegar ljóst að enn frekari björgunaraðgerða er þörf. Það er því í raun til lítils að vera að eyða miklum tíma í að ræða aðeins hálfunnin fjárlög, fjárlög sem fyrst og fremst útheimta vinnu við að lagfæra eitthvert verst unna frv. sem litið hefur dagsins ljós. Þegar frv. var lagt fram var gert ráð fyrir tæpum þriggja milljarða halla.
Hann er nú þegar kominn upp í rúma 4 milljarða og stefnir jafnvel í um 6 milljarða. Af þeirri reynslu sem við höfum af fjármálastjórn hæstv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar má vera nokkuð ljóst að halli á ríkissjóði árið 1990 verður umtalsvert meiri en þær tölur sem ég hef hér nefnt. Yrði ég ekki undrandi þó að hallinn yrði í kringum 10 milljarðar eða jafnvel meiri, enda ljóst að mætra manna mati að í frv. leynist meiri vandi.
    Frv. boðar harkalegan niðurskurð á fjölmörgum sviðum. Skattpíning heimila og fyrirtækja eykst stöðugt, atvinnuleysi er enn að aukast, kaupmáttarránið heldur áfram og gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja sömuleiðis. Alls staðar birtist kreppan okkur, öllum er gert að axla byrðar. En þeim byrðum er ójafnt skipt og hafa reyndar fjölmargir orðið að láta undan. En hafa stjórnendur þessa lands axlað byrðar? Nei og

aftur nei. Sjálfur æðsti prestur fjármálanna gerir þveröfugt. Hann hækkar fjárveitingu til fjmrn. um 51%. Þetta ber vott um þvílíka vanvirðingu fyrir þegnunum að með ólíkindum er. En það sem meira er er að þetta kemur ekki nokkrum manni á óvart úr þessari átt því hér er á ferðinni hinn ókrýndi skattakonungur Íslandssögunnar. Og hann er ekki aldeilis hættur, enda liggur nú fyrir þm. frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem mun auka allverulega skattbyrði meginþorra vinnandi fólks. Fyrir þinginu liggur einnig frv. til laga um nýjar álögur á bifreiðaeigendur þar sem gert er ráð fyrir að hækka kílóagjald á almenningsbifreiðir upp í 5,20 kr. pr. kg sem er aðeins 90% hækkun á þeim skatti. Þær munar víst lítið um það, barnafjölskyldurnar. Og svona sem jólaglaðning, sérstaklega fyrir landsbyggðina, verður lagður á orkuskattur, þar sem fjmrh. er ljóst að orka víða um land þolir vissulega að hækka til neytenda.
    Alla þessa nýju skatta sem ég hef hér nefnt vantar að sjálfsögðu inn í frv. Þeir eru þó taldir eiga að skila ríkissjóði nettó 100 millj. kr. tekjum þegar reikningslegt tekjutap ríkissjóðs vegna ákvörðunar um upptöku virðisaukaskattsins var ákveðið og fært úr 26% niður í 24,5%. Á sama tíma og ríkisstjórnin leggur allar þessar álögur á fólk og fyrirtæki er ljóst að ríkisbáknið mun halda áfram að þenjast út og er sýnilegt að fleiri hundruðum nýrra starfsmanna verður bætt á jötuna. Með sama áframhaldi verður leitun að launþega sem ekki vinnur hjá hinu opinbera. Takmark sósíalista færist nær.
    Hæstv. forseti. Meginforsendur frv. eru í meira lagi vafasamar. Skv. því er til að mynda gert ráð fyrir því að verðlag hækki aðeins um 16%. Gott er ef satt væri en því miður sjást ekki merki þess á þessari stundu. Við í Frjálslynda hægriflokknum sjáum ekki ástæðu til að leggja fram brtt. nú við 2. umr., enda sennilega til lítils að gera slíkt þar sem okkar tillögur mundu snúast um það að gera öllu venjulegu fólki líft í þessu landi skattpíningar. Á slíkt mundu stjórnarliðar ekki geta fallist, enda væru þeir þá að brjóta gegn stjórnarstefnunni.
    Hæstv. fjmrh. mætti íhuga eftirfarandi lokaorð sem eiga vel við hann og fólkið í landinu sem allt er tilbúið að greiða sína skatta og skyldur innan eðlilegra marka, en þau eru:

Að setja skatta auðvelt er,
en að greiða skatta, guð hjálpi mér.