Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 hefur verið í meðferð fjvn. undanfarnar vikur. Samstarfið í nefndinni hefur gengið vel og ber að þakka það. En nú hafa verið lögð fram nál. meiri og minni hluta sem gefa til kynna að nokkur ágreiningur er milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga í stórum málum og smáum. Það er margt rétt sem sagt er frá í almennum athugasemdum um störf fjvn. á þskj. 278, nál. meiri hl. Nefndarmenn eru að sjálfsögðu mjög önnum kafnir um þetta leyti árs. Í áliti meiri hl. nefndarinnar er kvartað yfir því að vinnuálag sé nú meira en nokkru sinni áður. Hafi það m.a. orðið til þess að fjárveitinganefndarmenn hafi meira og minna slitnað úr tengslum við önnur störf sem fram fara á Alþingi og orðið að vera fjarverandi frá fundum og umræðum í deildum og sameinuðu þingi. Segir svo í áliti meiri hl. m.a., með leyfi forseta:
    ,,Er þetta vitaskuld mjög bagalegt bæði fyrir nefndarmenn og fyrir þingstörf og gefur auga leið að hér verða menn að rata nýjar leiðir í vinnubrögðum svo þeir þingmenn sem í fjárveitinganefnd sitja geti tekið eðlilegan þátt í öðrum störfum þingsins.``
    Þetta er auðvitað kórrétt athugasemd svo langt sem hún nær. Úr þessu er reynt að bæta m.a. með því að láta nefndinni í té ágætt aðstoðarfólk frá Hagsýslu og Ríkisendurskoðun og vel þykir mér koma til álita sú hugmynd sem varpað hefur verið fram, að gera fjvn. að heilsársnefnd þannig að nefndin geti starfað með formlegum hætti milli þinga eins og utanrmn. Sýnist mér raunar að þetta sé aðkallandi mál m.a. með hliðsjón af aukafjárveitingum ráðherra sem nauðsynlegt þykir að hafa hönd í bagga með. Með sama hætti er athugandi hvort ekki sé rétt að breyta ákvæðum þingskapa á þann veg að varamenn séu kosnir í fjvn. eins og aðrar þingnefndir.
    Eitt er þó sem ég tel rétt að leggja sérstaka áherslu á. Að mínum dómi verða menn að eiga kost á því að koma á fund nefndarinnar og gera grein fyrir málum sínum hér eftir sem hingað til. Á sama hátt er æskilegt að nefndin skoði með eigin augum, eftir því sem við verður komið, opinberar framkvæmdir sem fé er veitt til á fjárlögum um allt land. Í þessu skyni hefur nefndin tekið sér ferð á hendur um einhvern hluta landsins á sumri hverju í allmörg ár að undanförnu til að kynna sér stöðu mála og sjá hvernig spilast úr því fé sem samþykkt er til framkvæmda hverju sinni. Þetta tel ég mjög mikilvægt auk þess sem ómetanlegt er að þingmenn í fjvn. sem og allir þingmenn að sjálfsögðu ferðist um landið og kynnist því af eigin raun.
    Okkur þingmönnum er oft legið á hálsi fyrir það að við hugsum eingöngu um eigið kjördæmi, séum uppþembdir af hreppapólitík og þar fram eftir götunum. Þetta kann að eiga við einhver rök að styðjast en má þó ekki ganga of langt eins og hver maður getur séð. Sérhver þingmaður þarf að hafa heildarsýn yfir landið allt og bera alþjóðarhag fyrir brjósti þó að heimabyggðin standi honum næst af

eðlilegum ástæðum, svo sem vel kemur fram í þessari alkunnu vísu:

Vel er flest um Vesturland,
vinsemd fest við Norðurland,
sól er mest um Suðurland,
samt er mér best við Austurland.

    Þó að stjórnarsinnar ráði ferðinni í fjvn., svo sem lög gera ráð fyrir, er hlutur stjórnarandstöðu nokkur. Tel ég að við megum allvel við una að þessu sinni þar sem sagt er í nál. meiri hl. að minni hl. nefndarinnar hafi lagt sig fram um að greiða vel fyrir öllum störfum nefndarinnar. Hafi hann, þ.e. minni hlutinn, auðveldað það á alla lund að störf hennar gætu gengið vel fyrir sig og lagt ýmislegt gott til mála, eins og þar stendur.
    Það er auðvitað þakkarvert að fá svona umsögn. Á hitt er að líta að fulltrúar minni hlutans --- og á ég þar fyrst og fremst við okkur sjálfstæðismenn --- við erum mjög gagnrýnir á margt sem fjárlagafrv. hefur að geyma, eða þegir yfir, eða tengist því á einn eða annan veg. Við erum einnig áhyggjufullir út af þróun mála á ýmsum sviðum undir því stjórnarfari sem þjóðin á nú við að búa.
    Eitt kom fram í ræðu formanns sem e.t.v. er vert að minnast sérstaklega á. Hann gat þess að trúnaðarmál væru sérstaklega vel varðveitt í fjvn. og lýsti ánægju sinni með það sem von var. Ég verð að segja að þetta eru einkar góð og athyglisverð tíðindi á þeim tímum þegar illa gengur að varðveita fréttir innan fjögurra veggja og gæta þagnarskyldu þar sem hún á við.
    Um fjárlagafrv. sjálft má margt segja. Það var lagt fram með tekjuhalla upp á tæpa 3 milljarða. Nú hefur sá halli aukist mikið þegar 2. umr. fer fram og stefnir áfram hærra. Það er þó fjarri lagi að skrifa þá hækkun alla á reikning stjórnarandstöðunnar, hvað þá heldur sjálfstæðismanna einna. Sannleikurinn er sá að frv. er þannig úr garði gert, á einn og annan hátt, að tölur breytast og hækka yfirleitt í meðförum áður en tekst að vinna úr því venjulegan fjárlagatexta sem hæfir venjubundinni fjárlagagerð. Kom þetta einkar skýrt fram hjá formanni fjvn. í ræðu hans í dag þar sem hann vék að því að nefndin
gerði nú tillögur um allverulegar hækkanir frá frv. Meginhlutinn af þeim hækkunum, sagði hann, er tilkominn vegna leiðréttinga á launaliðum, verðuppfærslum og öðrum rekstrargjöldum sem Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur staðfest að séu réttmætar leiðréttingar á grundvelli nýjustu upplýsinga sem fyrir liggja úr ríkisreikningi og yfirferð nefndarinnar yfir fjáraukalagafrv. fyrir árið 1989.
    Svo er einnig á hitt að líta sem greinilega hefur komið fram í máli manna og skjölum málsins, að mörgum stórmálum hárra talna er skotið á frest til 3. umr. fjárlaga sem væntanlega fer fram 19. des., nær imbrudögum og vetrarsólhvörfum. Það er fyrst þá sem hægt verður að gera sér full grein fyrir lokatölum fjárlagafrv. og niðurstöðu mála.

    Í nál. minni hl. fjvn. á þskj. 280 er gerð ítarleg grein fyrir afstöðu minni hl. til fjárlagafrv. og þeirrar stefnu eða stefnuleysis sem liggur því til grundvallar. Framsögumaður minni hl., hv. 2. þm. Norðurl. v., hefur og gert þeim meginmálum góð skil í framsöguræðu sinni í dag. Það er því ekki brýn þörf að fara langt út í þá sálma af minni hendi hér í kvöld þó að af nægu sé að taka og umræðuefnin raunar óþrjótandi.
    Það er býsna fróðlegt að líta til baka yfir 14 mánaða valdaferil hæstv. ríkisstjórnar um leið og fjárlagafrv. er rætt, en afgreiðsla frv. skiptir mestu máli um alla framvindu, þróun mála og þjóðarhag. Þá blasir alls staðar við augum ríkisbúskapur í vanda. Mikill halli á ríkissjóði í fyrra og enn stefnir í verulegan halla á þessu ári eins og sýnt hefur verið fram á. Ríkisstjórnin hefur gert jafnvægi í ríkisfjármálum að meginmarkmiði og staðið að stórfelldum skattahækkunum sl. tvö ár. En allt kemur fyrir ekki. Og nú hefur verulegt atvinnuleysi gert vart við sig í fyrsta sinn um langt skeið. Aðalatvinnuvegir landsmanna standa höllum fæti til lands og sjávar og gjaldþrotin flæða yfir og þyrma engu. Allt sígur á ógæfuhlið. Efnahagshorfur fyrir árið 1990 benda til áframhaldandi samdráttar í þjóðarbúskapnum, mikil óvissa ríkir um verðlags- og tekjuþróun á næsta ári. Þannig mætti halda áfram lengi dags og vitna í spádóma helstu sérfræðinga okkar sem reyna að skyggnast inn í framtíðina. En horfur í alþjóðaefnahagsmálum eru sagðar góðar. Bjart er nú yfir efnahagsmálum í heiminum, stendur þar. Spár alþjóðastofnana eru flestar á þá lund að framhald verði á því vaxtarskeiði sem staðið hefur hjá þeim þjóðum frá árinu 1982. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gera ráð fyrir u.þ.b. 3% hagvexti í iðnríkjunum svokölluðu á næsta ári. En hvað um okkur? Kunnum við að stjórna okkar eigin málum? Kunnum við fótum okkar forráð? Höfum við lært að sníða okkur stakk eftir vexti?
    Formaður fjvn. benti á í ræðu sinni í dag að mesta hækkun á fjárlagafrv. milli 1. og 2. umr. hefði orðið á útgjaldaliðum þeim sem snerta æðstu stjórn ríkisins. Þar hefði orðið mikil hækkun, sagði hann. Í næstu sætum kæmu ráðuneytin hvert af öðru þó að benda mætti á margt sem tengdist sparnaði, svo sem í menntmrn. Þær niðurskurðartillögur sem eru lagðar fram af því ráðuneyti virðast þó vera með afbrigðum handahófskenndar og óraunsæjar, a.m.k. við fyrstu sýn. Og svo er um margt sem snertir þetta frv.
    Fé til opinberra framkvæmda út um landsbyggðina er mjög af skornum skammti. Það er auðvitað sjálfsagt að fara gætilega og rasa ekki um ráð fram, fresta dýrum framkvæmdum þar sem því verður við komið o.s.frv. En stundum verður þessi eltingaleikur allt að því broslegur þegar um lágar fjárhæðir er að ræða. Ég tek sem dæmi: Lagt er til að veita 3 millj. kr. til lendingarbóta sem eiga að skiptast og dreifast um landið. Þetta á að auðvelda mönnum að róa til fiskjar og draga björg í bú. Hætt er þó við að svo lág fjárhæð minnki fljótt við skipti og komi að

takmörkuðum notum. Minnir þetta óneitanlega dálítið á landhelgismál aldarinnar sem lýst var í blöðum í gær þar sem tveir gamlir skipstjórar voru að róa á þriggja tonna trilluhorni þegar flaggskipið í flota Landhelgisgæslunnar eyddi átta klukkutímum í að vakta þá og standa að ólöglegum veiðum, að því er segir í blaðafrétt sem ég hef auðvitað ekki kynnt mér eftir öðrum heimildum og hef því ekki fleiri orð um að þessu sinni.
    En það er deginum ljósara að ætlist æðstu valdhafar til þess að þjóðin spari almennt á öllum sviðum verða þeir sjálfir að ganga á undan með góðu fordæmi. Það ber síst að vanmeta allar þær fróðlegu umræður sem farið hafa fram í fjvn. að undanförnu og þær upplýsingar sem fram hafa verið bornar og flæða um borð og bekki, og sjálfsagt er að þakka snemmborið frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 sem lagt hefur verið fram til umræðu og afgreiðslu. Ýmsum góðum málum hefur vonandi verið þokað áfram á sæmilegan veg svo að menn fái við unað. En önnur veigamikil mál eru óneitanlega verr á vegi stödd og óvissan meiri um afdrif þeirra. Ekki er kostur að nefna þau öll en þar eru margir óvissuþættir.
    Hver verða áhrifin af breyttum verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga? Hvað um Jöfnunarsjóðinn sem á að koma sveitarfélögum til aðstoðar, en hefur svo oft orðið að sæta skerðingaraðgerðum á liðnum árum? Hvað um þá samninga um skólabyggingar milli ríkis og heimaaðila sem gerðir hafa verið á undanförnum árum? Eiga þeir að gilda áfram eða falla úr gildi? Enn hafa ekki fengist svör
við því. Hvernig horfir með þær landshafnir sem á að afhenda sveitarfélögum um næstu áramót, t.d. Rifshöfn á Snæfellsnesi? Eru þessar hafnir í söluhæfu ástandi, ef svo má spyrja? Vegamálin eru að sjálfsögðu kapítuli út af fyrir sig. Um þau er þó víðtæk samstaða meðal alþingismanna að því er ég ætla og svo auðvitað allrar þjóðarinnar. Þannig mætti halda áfram að spyrja fram eftir kvöldi, en margt verður að bíða 3. umr.