Nefndastörf
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu stjórnarandstöðu að taka virðisaukaskattsfrv. til 2. umr. á föstudag. Hins vegar man ég ekki eftir því á fundi í hv. fjh.- og viðskn. Ed. í morgun að ákveðið væri að halda þar fund kl. 10 í fyrramálið. Ég hygg að sú tillaga hafi komið fram á fundi meiri hl. eftir á. Ég hef í sjálfu sér ekki mótmælt þeim fundi kl. 10--12 á morgun og vissi reyndar ekki að þar ætti að kynna brtt. Það er í fyrsta skipti sem ég heyri það nú. Ég hygg að þessi tillaga hafi einnig komið upp á fundi meiri hl.
    Hins vegar þrengist nú æ meir um þann tíma sem afgangs er til þess að ganga frá málum. Ég hef verið boðuð á fund í fjh.- og viðskn. frá 10--12 í fyrramálið. Kl. 12 er búið að tilkynna að hefjist fundur í Sþ. en á sama tíma er ég líka boðuð á fund í iðnn. Ed. Síðan var mér að berast fundarboð þar sem báðar menntamálanefndir þingsins eru boðaðar á fund kl. 12.30 á morgun. Þetta er kannski allt hægt að kljúfa og skarast ekki um of, en ég verð samt sem áður að vekja athygli á því að iðulega eru boðaðir fundir í nefndum á sama tíma og mér hefur þótt leitt að ég hef þurft að velja á milli heilbr.- og trn., þar sem talsvert ágreiningsmál er á ferðinni til umfjöllunar, og fjh.- og viðskn. þar sem annað stórt ágreinngsmál er til umfjöllunar eða virðisaukaskattur. Þetta er náttúrlega afleitt því að ég get ekki frekar en þið hin verið á tveimur stöðum í einu og verð að velja á milli þingstarfanna.
    Það væri heppilegt ef hægt væri að koma því við að ekki væru boðaðir fundir á sama tíma eða þannig að þeir sköruðust þannig að maður gæti í raun sinnt skyldum sínum hér.