Launaskattur
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurna frá hv. 1. þm. Reykv. vil ég taka fram að ríkisstjórnin hefur ákveðið að vinna að endurskoðun á skattlagningu atvinnufyrirtækja og atvinnuvega. Þessi endurskoðun mun miðast við það að skapa samræmda álagningu óháð því í hvaða atvinnugreinum fyrirtækin starfa.
    Eins og hér hefur komið fram er það gjald sem hér er til umræðu lagt á með mismunandi hætti og atvinnugreinarnar sitja ekki við sama borð í þessum efnum. Þess vegna hefur sú hugmynd komið fram, bæði nú og áður, að í stað þessa gjalds gæti vel komið til álita að taka upp annað lægra og samræmdara gjald og fella e.t.v. önnur atvinnuvegagjöld einnig að þeirri breytingu. Þar með væri samkeppnisstaða atvinnulífsins orðin jöfn. Þar með væri orðin samræming milli skattlagningar ólíkra atvinnugreina.
    Á þessu stigi er ekki hægt að skýra nánar frá þessum hugmyndum né heldur niðurstöðum, en ég taldi rétt að verða við þeirri ósk sem hér hefur komið fram og árétta að á vegum ríkisstjórnarinnar er unnið að slíkri endurskoðun og annaðhvort síðar á þessu þingi eða á næsta þingi verða lagðar fram tillögur um það efni fyrir hv. Alþingi til umfjöllunar og afgreiðslu.