Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það er auðvitað hárrétt sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. að frv. er spegilmynd vanáætlana ríkissjóðs. Það kemur í ljós að hinn mikli halli á yfirstandandi ári leiðir til þess að fjármagna þarf greiðslur ríkissjóðs með lánum þar sem tekjur koma ekki á móti útgjöldum, fyrst og fremst vegna þess að útgjöld hafa orðið miklu meiri en ráð var fyrir gert á fjárlögum yfirstandandi árs.
    Hæstv. ráðherra sagði að það skipti máli hvort markaðurinn byði upp á betri pappíra sem stærri aðilar sæktust eftir að kaupa fram að áramótum vegna þess að stjórnendur slíkra aðila bíða með ákvarðanir sínar fram á síðasta dag, t.d. vegna þess að fyrir liggur frv. á Alþingi sem gæti orðið til þess að stórir aðilar vildu fremur beina fjármunum sínum annað en í þessi ríkisskuldabréf. Í raun, frá mínum bæjardyrum séð, hefði verið heppilegra að þessir aðilar gætu séð hvað samþykkt yrði fyrir jól og þannig tekið ákvarðanir sínar. Þar á ég við verðbréf eins og t.d. hlutabréf sem gætu verið til sölu og sumir lífeyrissjóðanna hafa leyfi til þess að kaupa. Enn fremur á það við aðra aðila en lífeyrissjóðina og í tekjuskattsfrv. er getið um önnur verðbréf sem reyndar eru ekki komin á markaðinn enn, eins og húsbréf og fleiri slík verðbréf. Það sem auðvitað skiptir samt öllu máli er ekki markaðurinn sem hæstv. ráðherra talaði um því að hann er dómari í þeirri sök, um vextina, spurningunni um hvernig vaxtastigið verður, heldur er miklu stærra atriði að ríkissjóður fylgi sínum áætlunum og það sem hér er verið að fjalla um er það að ríkissjóður hefur eytt langt umfram tekjur sínar og það skapast þess vegna viss hætta á að ríkisskuldabréf seljist ekki eins og ráð hafði verið fyrir gert. Það vantar núna einn og hálfan milljarð upp á það --- ég kann ekki að nefna töluna ef tekið er tillit til innlausnanna --- og á næsta ári getum við horft upp á það að enn meiri vandræði skapast sem hljóta að leiða til þess að vextir munu
hækka, eða a.m.k. ekki lækka, innan lands, en það hefur verið staðfest annars staðar og komið fram í öðrum umræðum og óþarfi að endurtaka það hér í þessari umræðu.
    En vegna orða hæstv. ráðherra um kaup Seðlabankans á skuldabréfum, hugsanleg kaup Seðlabankans á skuldabréfum ríkisins má ugglaust hugsa sér einhverja meiri festu í slíkum viðskiptum, en þá þyrfti hæstv. ráðherra að sjá svo til að Alþingi fengi a.m.k. að fjalla um það mál með hliðsjón af því hvað gerist um yfirdráttarheimild ríkisins hjá Seðlabankanum því að það hlýtur að þurfa að setja einhver mörk og ef gerður er samningur við Seðlabankann um kaup á skuldabréfum ríkisins, sem ég ætla ekki að mæla gegn og gæti verið skynsamlegt, er það auðvitað út í bláinn að ríkissjóður geti eftir sem áður gengið í Seðlabankann og reyndar í okkar gjaldeyrisvaraforða þar með og tekið lán eins og ríkissjóði sýnist. Vonast ég til þess að hæstv. ráðherra,

ef hann lætur kanna skuldabréfakaup Seðlabankans, taki tillit til þess. Þegar til framtíðar er horft, hins vegar, hlýtur það að vera meginþáttur í starfi Seðlabankans að koma í veg fyrir skammtímasveiflur í genginu og kaup og sala Seðlabankans ætti kannski fyrst og fremst að miðast við það að halda genginu sem allra stöðugustu. Það er eðli seðlabanka hverrar þjóðar.
    Fleira var það ekki, virðulegur forseti, sem ég tel ástæðu til að taka fram. Þetta mál þarf að fara fyrir eina umræðu enn í þessari deild og síðan til Ed. og það er beðið eftir þeim heimildum sem verið er að gefa einstökum aðilum til erlendrar lántöku og reyndar innlendrar líka í þessu frv.