Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Frsm. minni hl. allshn. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og tóku undir nokkrar af þeim brtt. sem við höfum borið hér fram. Ég vil kannski fyrst segja varðandi það sem kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur, þ.e. að hún hafi ekki fengið möguleika á að taka þátt í störfum nefndarinnar, að um það var fjallað og því erindi var í raun ekki hafnað en skoðanir manna voru skiptar um áheyrnarfulltrúana yfirleitt. Þar lét ég í ljós þá skoðun mína að það ætti að fylgja þeirri stefnu sem orðið sjálft segir til um, að áheyrnarfulltrúar eigi að vera fyrst og fremst til að fylgjast með störfum nefndarinnar en ekki að taka virkan þátt í þeim störfum og tefja þar með nefndarstörfin. Fyrir minn hlut gæti ég því fallist á að Kvennalistinn fengi áheyrnarfulltrúa í þessari nefnd.
    Hv. þm. kom inn á að það væri sjálfsagt eðlilegt að það væru einhvers konar undanþáguheimildir í frv. Ég get alveg tekið undir það en þær heimildir eiga að byggjast á fengnu leyfi hins skráða, þess aðila sem verið er að skrá upplýsingar um. Eins get ég alveg fallist á það með hv. þm. og mér er það ekkert heilagt þó að greinin um skoðanakannanir standi þarna inni á meðan verið er að vinna að nýjum lögum. Hins vegar tel ég það óþarft og það mundi sennilega frekar ýta á eftir löggjafanum að taka á því máli ef þessi grein stæði ekki.
    Hv. þm. Friðjón Þórðarson kom hér aðeins inn á brtt. einnig. Hann bar í fyrsta lagi fyrir sig þau rök að um áramót yrðu lögin að taka gildi. Fyrir mína parta tek ég ekki slík rök góð og gild. Ef að mínu viti er um gölluð lög að ræða eigum við að endurskoða þau og það er enn tími til þess að taka á þeim þáttum og gera þau þá þannig úr garði að viðunandi sé. Að sjálfsögðu tek ég undir með hv. þm. að þeir aðilar sem stóðu að samningu frv. eru vandaðir og góðir menn og hafa sjálfsagt haft góðar meiningar á bak við það sem þeir sendu frá sér.
    Það kom einnig fram hjá hv. þm. að tölvunefnd ofnoti ekki heimild sem hún hefur í dag til að fylgjast með störfum þeirra sem leyfi hafa. Það eru í sjálfu sér ekki rök í málinu að nefndin geti fyrirvaralaust ráðist inn í hvaða fyrirtæki sem er sem hefur leyfi frá nefndinni til að starfa að þessum þáttum og skoða þeirra gögn. Varðandi það sagði reyndar formaður nefndarinnar að meginrökin væru þau að það væri ósköp einfalt að eyða upplýsingum með því að ýta á einn takka. Ég get heldur ekki tekið þau rök góð og gild vegna þess að það er afskaplega einfalt að taka allar upplýsingar upp á diskettu og geyma þær einhvers staðar og einhvers staðar þannig að ekki nokkur skapaður hlutur sé í raun inni á tölvunni. Þau rök sem hér hafa verið færð fram fyrir því að veita tölvunefnd jafnvíðtæka heimild og farið er fram á í frv. tel ég að falli um sjálf sig.
    Ég sakna þess nú reyndar --- eftir því sem mér sýndist fyrr á fundinum, að hæstv. dómsmrh. ætlaði sér ekki að taka þátt í þessari umræðu þrátt fyrir að

til hans hafi verið beint spurningum frá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur, en það verður hæstv. ráðherra vitanlega að eiga við sjálfan sig.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Það varð smámisskilningur milli mín og forseta hér áðan við lok síðasta fundar þar sem ég var á leiðinni upp í ræðustól að þiggja ágætt boð forseta.