Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Þessar fsp. sem ég hef borið fram með þinglegum hætti voru bornar fram í umræðum í Ed. í nóvembermánuði, eftir miðjan nóvember. Þá voru inni í deildinni bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. Þá óskaði ég eftir að fá svar við þeim spurningum sem ég hef nú borið fram með þinglegum hætti. Samtímis óskaði ég eftir því við einn af starfsmönnum Alþingis að hann kynnti sér og gæfi mér upplýsingar um hvernig fyrirheit ríkisstjórnarinnar frá því í vor hefðu verið efnd. Og eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið í fjmrn. hefur verið lagt lántökugjald á þau lán sem tekin voru vegna skipasmíðaverkefna á þessu ári. Með öðrum orðum var ekki staðið við yfirlýsingu viðskrh. frá því í maímánuði.
    Ég get ekki sætt mig við það, hæstv. forseti, ef þingmaður við meðferð máls ber fram fyrirspurn til einstakra ráðherra og þeir svara ekki, þá get ég ekki sætt mig við það eftir að ég ber fyrirspurnina fram með þinglegum hætti að henni sé heldur ekki svarað, þá sé hún áfram látin danka. Til hvers eru þá þessar fyrirspurnir? Og af hverju er verið að tala um það í þingsköpum að fyrirspurnir eigi að setja á dagskrá eftir viku ef aldrei á svo að svara þeim? Ég hef beðið það lengi, hæstv. forseti, að ég get vel fallist á það að hæstv. fjmrh. verði gefið tóm til morguns eða til mánudags að afla upplýsinga um fyrirspurnina, reyna að finna svörin í trausti þess að hann muni nota tímann þangað til til að endurgreiða þeim mönnum sem hafa tekið lán vegna viðhalds og endurbóta á skipum, lán vegna framkvæmda af þessu tagi sem unnin hafa verið hér á landi. Ég yrði auðvitað mjög ánægður yfir því ef hann gæti sagt okkur frá því eftir helgina að það hefði verið staðið við samþykkt ríkisstjórnarinnar um að ekki yrði greitt lántökugjald af þessum lánum. En ég get ekki sætt mig við það að þingi ljúki svo fyrir jól að ekki fáist svar við fyrirspurninni, af þessum ástæðum sem ég segi: Ef ráðherrar ekki svara
spurningum einstakra þingmanna þegar þær eru bornar fram við umræður, þá verður forseti að sjá til þess ef þingmenn flytja fyrirspurnirnar með þinglegum hætti að þeim fáist svarað.