Eftirlaun til aldraðra
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Út af síðustu orðum hæstv. ráðherra vil ég taka fram í sambandi við að þetta hafi verið samþykkt og afgreitt í Nd. samhljóða. Það er alveg rétt, en ég er ekki viss um að allir sem fjölluðu um þetta mál í hv. Nd. hafi gert sér raunverulega grein fyrir því hvað þeir voru að samþykkja að svona lítt athuguðu máli.
    Því miður kemur þetta frv. seint fram á þessu þingi með tilliti til þess að hér er um að ræða mál sem þarf að taka afstöðu til miðað við 1. jan. nk., þ.e. með hvaða hætti ætti að tryggja þeim sem fá þær viðbótartryggingabætur sem frv. gerir ráð fyrir.
    Ég vil, virðulegi forseti, vekja athygli á því að það er ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði þegar hann hélt því fram að það hefði verið ákveðið sl. vor, þannig var hægt að skilja ræðu hans, af samningsaðilum á vinnumarkaðinum að það ætti að framlengja lögin óbreytt. Það er alls ekki rétt. --- Ég sé að hæstv. menntmrh. telur vænlegast að flýja salinn meðan ég flyt mína ræðu. Það vill svo til að hæstv. menntmrh. er í flokki með forseta Alþýðusambands Íslands, Ásmundi Stefánssyni, þannig að ég geri ráð fyrir að hæstv. menntmrh. viti vel hvað ég ætla að segja hér á eftir. Það snýr nefnilega, virðulegi forseti, að þeim flokki og þeim mönnum sem eru í forustu verkalýðshreyfingarinnar og hafa fjallað um þetta mál og á ég þar alveg sérstaklega við forseta ASÍ.
    Eins og virðulegi forseti veit, þá var hér á sl. vori gert samkomulag milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og aðila vinnumarkaðarins hins vegar um nokkur atriði sem ríkisstjórnin lofaði að fullnægja til viðbótar því sem samið var um beint í samningum og þar á meðal var þetta atriði. Nú kann að líta þannig út, svona við fyrstu sýn, að hér sé ekki um stórmál að ræða sem er þetta frv. En
ef nánar er að gætt, er hér um miklu, miklu stærra mál að ræða en þingheimur gerir sér grein fyrir.
    Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því áður en ég vík að efni frv. að með þessu frv. og með þeirri greinargerð og á grundvelli þeirrar ræðu sem hæstv. ráðherra flutti hér áðan er raunverulega verið að fresta því um tvö ár að taka lífeyriskerfið í heild til endurskoðunar. Það er ekki lítil ákvörðun út af fyrir sig að taka þessa afstöðu á sama tíma og verið er að halda kerfinu áfram óbreyttu. Þar á ég sérstaklega við að taka ekki afstöðu til þess hvernig á að samræma lífeyriskerfið, þ.e. ef við skoðum lífeyriskerfi opinberra starfsmanna annars vegar og svo það lífeyriskerfi sem aðrir verða að búa við hins vegar, þar á meðal það fólk sem þetta snertir. Maður hafði gert ráð fyrir því að núv. hæstv. ríkisstjórn mundi leggja fram frv. til laga um starfsemi lífeyrisssjóða sem hefur legið í skúffunum hjá fjármálaráðherrum undangenginna ríkisstjórna og liggur þar enn. Þ.e. frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða þar sem tekið er á þessu vandasama máli sem lífeyriskerfið er í heild og einnig það atriði sem þetta frv. snýr að. En það er sem sagt í fyrsta lagi verið að fresta því að þetta

komi til umræðu á hinu háa Alþingi. Hér er um stórmál að ræða, miklu stærra en þingmenn yfirleitt vilja viðurkenna, enda sýnist mér flestir þeirra vera fælnir þegar talað er um lífeyrismál vegna þess að menn vilja ekki fá hér inn á borðið umræðu um það misrétti sem tíðkast í lífeyriskerfi þjóðarinnar. Í öðru lagi er verið að skattleggja ákveðna sjóði í sambandi við þær greiðslur sem þetta frv. gerir ráð fyrir að renni í gegnum umsjónarnefnd eftirlauna. Ég vek athygli á því og ítreka að aldrei var um það samið í samningum verkalýðshreyfingarinnar við vinnuveitendur í vor né því lofað af hálfu ríkisstjórnarinnar að framlengja ætti þessi lög óbreytt enda kemur það hér skýrt og skorinort fram í greinargerð með þessu frv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Af þessum sökum gaf ríkisstjórnin í tengslum við lausn kjarasamninga í lok aprílmánaðar sl. fyrirheit um að hún mundi beita sér fyrir framlengingu laga um eftirlaun til aldraðra.`` Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Ekki var tiltekið nákvæmlega með hvaða hætti lífeyrisgreiðslum þessum skyldi fram haldið. Heilbr.- og trmrn. fól umsjónarnefnd eftirlauna að kanna þetta mál.`` Síðan kemur fram að umsjónarnefnd hafi fjallað um þetta og leggur fram sínar hugmyndir og í þeim hugmyndum kemur m.a. fram sem segir svo í greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Þykir heppilegra að framlög sjóða verkalýðsfélaga til greiðslu verðtryggingar skv. I. kafla laganna og framlög annarra sjóða til greiðslu eftirlauna skv. II. kafla verði lækkuð í áföngum á tveimur árum heldur en að þau verði felld niður þegar í stað eins og tillögur umsjónarnefndar gera ráð fyrir.``
    Þetta er sem sagt skoðun ráðuneytisins, þ.e. þeirra sem semja greinargerðina og leggja fram þetta frv., að það sé heppilegra að halda þessu áfram með skattlagningu ákveðinna lífeyrissjóða, en umsjónarnefnd sem er framkvæmdaaðili þessara mála, umsjónarnefnd sem stofnuð var á sínum tíma í samningum verkalýðshreyfingarinnar, því þetta byrjar á sínum tíma sem samkomulagsatriði
innan verkalýðshreyfingarinnar, leggur til að þessari skattlagningu linni og að það verði gert sem allir aðilar gera ráð fyrir, eins og kemur skýrt fram í frv., að ríkissjóður taki þessar greiðslur að sér. Þ.e. að lífeyrissjóðir á samningssviði aðila vinnumarkaðarins sem flestir eru með öfugan höfuðstól fengju að halda því fé sem þetta frv. gerir ráð fyrir að skattleggja í sjóðunum til þess að styrkja stöðu þessara sjóða og þar með tryggingalegar forsendur þessara lífeyrissjóða. En það er öðru nær. Þessi hæstv. ríkisstjórn ætlar með þessu fyrirkomulagi að skerða enn frekar höfuðstóla þessara lífeyrissjóða sem berjast í bökkum, allflestir.
    Nú geri ég mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að það er eins og að tala inn í tóma tunnu að ræða um þessi mál hér vegna þess að hv. þm. og hæstv. ríkisstjórn --- ekki bara þessi heldur fleiri --- telja svo sjálfsagðan hlut að ganga á þennan samningsrétt verkalýðshreyfingarinnar, ganga þannig á höfuðstól verkalýðshreyfingarinnar þótt hann sé orðinn öfugur,

þ.e. hann fullnægir ekki sem skyldi tryggingalegum skuldbindingum miðað við 30 ára tímabil, þeim þykir sjálfsagt að halda áfram þessari skattlagningu á sama tíma sem við erum að samþykkja að greiða á annan milljarð með lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Þá skal skattleggja þetta fólk sjálft úti í atvinnulífinu til þess að færa peninga í því tryggingakerfi sem er það veikburða að það getur ekki staðið undir sér sjálft sem slíkt. Þá skal skattleggja innan kerfisins sem er með neikvæðar forsendur á sama tíma sem við samþykkjum hér á hinu háa Alþingi í gegnum fjárlög á annan milljarð til að verðtryggja lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna.
    Nú geri ég mér grein fyrir því að opinberum starfsmönnum hefur fjölgað gífurlega í íslensku þjóðfélagi og það þykir kannski ekki vænlegt til árangurs í stjórnmálum að vekja athygli á þessu. En það skiptir ekki máli. Það er nóg um það hér á hinu háa Alþingi og þeir eru nógu margir hv. þm. sem þegja þunnu hljóði vegna þess að þeir eru annaðhvort sjálfir opinberir starfsmenn eða vilja ekki koma nálægt málunum og berjast fyrir þeim sem verr eru staddir í þessum málum en þeir sjálfir, þá hentar þessi aðferð. ( KP: Það er nú ekki alltaf.) Nei, guði sé lof, hv. þm., og ég er feginn því að hv. þm. Karvel Pálmason, 3. þm. Vestf., skuli vera hér staddur vegna þess að hann þekkir til þessara mála. Þess vegna segi ég að þótt þetta hafi verið afgreitt samhljóða í Nd., þá er það fyrst og fremst vegna þess að allir hv. þm. í þeirri deild gera sér ekki grein fyrir því hvað þeir voru að afgreiða, enda þori ég að fullyrða að þeir hafi ekki tekið til máls í umræðum þótt þeir hafi afgreitt þetta í gegnum nefndarálit.
    Ég vil þess vegna segja, virðulegi forseti, að hér er á ferðinni mál sem er þess eðlis að það er ekki hægt að afgreiða það þegjandi og hljóðalaust. Ég geri þær kröfur til þessarar ríkisstjórnar sem annarra ríkisstjórna að þegar þær vita það að í staðfestum loforðalista --- ég man ekki hvaða dag bréf hæstv. forsrh. var til aðila vinnumarkaðarins þar sem talin voru upp þessi atriði. Kannski er hæstv. heilbr.- og trmrh. með þetta bréf hér og gæti lánað mér það. ( Heilbr.- og trmrh.: Því miður þá er ég ekki með það.) En hæstv. ráðherra man eftir bréfinu. ( Heilbr.- og trmrh.: Já.) Það kemur skýrt fram einmitt í því bréfi að það er ekki gert ráð fyrir því eins og hér var sagt í ræðu að álögum á iðgjaldatekjur skuli framlengt, heldur er, eins og kemur fram í grg., gert ráð fyrir því að það skuli skoðað með hvaða hætti þessar viðbótarlífeyrisgreiðslur skuli byggðar. Og þá var gert ráð fyrir því af hálfu verkalýðshreyfingarinnar --- ég get fengið það staðfest bréflega hjá forseta ASÍ ef þörf krefur --- þá var gert ráð fyrir því að þetta yrði ekki með þeim hætti sem þetta frv. gengur út á. Ég mótmæli því að það sé verið að skattleggja lífeyrissjóði á samningssviði vinnumarkaðarins með þessum hætti.
    Nú vill svo til að sá sem mótmælir þessu hér og nú tók þátt í því árið 1976 í samningum verkalýðshreyfingarinnar innbyrðis og við

vinnuveitendur að vera með þessar greiðslur, þ.e. við tókum það á okkur sem vorum í ábyrgð og í forustu fyrir verkalýðshreyfingunni þá og í forustu fyrir lífeyrissjóðunum að hefja þessar greiðslur í gegnum umsjónarnefnd. Þetta var árið 1976 og það var gert m.a. vegna þess að þá voru lífeyrissjóðirnir flestir ekki nema 6--7 ára gamlir á sama tíma sem nokkrir sjóðir voru þetta 15--20 ára gamlir og voru með þá aldursdreifingu að það var talið rétt á því stigi á meðan sjóðirnir væru að byggja sig upp að þessi tilfærsla fjármuna ætti sér stað. Og þetta var gert þannig að það var gert samkomulag á milli þessara aðila og lagt fyrir aðalfundi og félagsfundi viðkomandi félaga í verkalýðshreyfingunni og fundi hjá vinnuveitendum þannig að það var á hreinu. Hins vegar lá ljóst fyrir að það var aldrei gert ráð fyrir því að þetta fyrirkomulag ætti að vera til frambúðar. Aldrei. Það veit hæstv. ráðherra og það veit hv. þm. Karvel Pálmason. Það var gert ráð fyrir því að þegar þessi sjóðir væru orðnir 15--20 ára þá mundu þeir sjálfir taka að sér þessar greiðslur. Og einmitt með tilliti til þess sem hæstv. ráðherra sagði, það er annars vegar að þá væri sjóðsuppbygging orðin sterkari og einnig með tilliti til þess að þá fækkaði þeim sem greiða þurfti aldursins vegna, þá mundi þetta geta runnið saman með
þessum hætti, þannig að það lá alveg ljóst fyrir. Hins vegar kom þetta síðar inn í lög og þá var gert ráð fyrir því að þessu lyki í árslok 1989 eins og fram hefur komið og m.a. kom fram í ræðu ráðherra.
    Það kann svo að vera að mönnum þyki það ekki mikið mál að framlengja lögum þar sem gert er ráð fyrir 2% skattlagningu eða álagi á iðgjaldatekjur sjóðanna. Það getur verið að það þyki ekki mikið, en ef menn skoða þetta út frá þeim stærðum sem um er að ræða, þá er hér um að ræða tilfærslur upp á 200--300 millj. kr. og það er allverulegt fé, sérstaklega ef maður hefur það í huga að það eru til fleiri leiðir í þessum efnum og einnig með tilliti til þess að það er nauðsynlegt að sjóðirnir fái að halda því fé sem kemur inn í þá til þess að styrkja sinn eigin grundvöll. Það er ekki hægt að styrkja stöðu hinna almennu lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna lengur með þeim hætti að skattleggja þetta innbyrðis. Þeir sjóðir sem hafa lakari stöðu verða að ná því að laga þá stöðu, m.a. með því að semja um hærri iðgjöld. Það kemur að því hvort eð er fyrr en síðar.
    Ég nefni sem dæmi að mismunurinn á því hvaða iðgjöld þyrftu að vera í sjóðum á hinum almenna vinnumarkaði annars vegar miðað við það hvernig staða opinberra starfsmanna er hins vegar, þá yrðu iðgjöldin að vera 25% í stað þess að þau eru 10% í dag til þess að fullnægja sambærilegum tryggingaskilyrðum, miðað við sambærilegt tryggingarmagn ef ég má orða það þannig eins og á sér stað á opinbera kerfinu. Auðvitað gera menn sér grein fyrir því að það er óframkvæmanlegt. En þetta ranglæti gengur ekki.
    Til þess að upplýsa hv. þm. um það hvað hér er um að ræða vil ég lesa upp hvernig greiðslur koma

út í þessu kerfi. Það er gert ráð fyrir því að árið 1989 séu iðgjaldagreiðslur inn í lífeyrissjóðakerfið, þ.e. þeirra sjóða sem hér um ræðir, um 6 milljarðar. Nú má gera ráð fyrir því að árið 1990 hækki þetta um 20--25% þannig að við erum að tala þarna um 6--7 milljarða, þ.e. við erum að ræða þarna um 210 millj. hið minnsta. --- Nei, þetta er ekki alveg rétt hjá mér, það var árið 1988 sem iðgjaldatekjur sjóðanna sem um er að ræða voru 5,8 milljarðar. Það þýðir að á þessu ári má gera ráð fyrir að iðgjaldatekjur miðað við upplýsingar úr sjóðunum sjálfum --- ég er hér með töflu yfir iðgjaldagreiðslur inn í sjóðina eins og þeir snúa að umsjónarnefnd eftirlauna --- þá má gera ráð fyrir því að iðgjöldin á þessu ári verði rúmlega 6 milljarðar og á árinu 1990 er ekki óvarlegt að áætla að iðgjaldagreiðslurnar geti verið 8--9 milljarðar. Nú er ég að tala um raunhæfar tölur. Það vill svo til að ég sit í stjórn eins lífeyrissjóðs þar sem fylgst er nákvæmlega með þessu. Þannig að ef við gerum ráð fyrir því að iðgjaldagreiðslurnar séu 8--9 milljarðar þá erum við að tala þarna um eins og ég sagði um 200 millj. kr. hið minnsta.
    Þeir sjóðir sem borga helst inn í þetta kerfi eru þeir sjóðir sem eru með það sem er kallað hagkvæm aldursdreifing, þ.e. þar sem mikið er um ungt fólk í viðkomandi starfsgrein. Það á við í þjónustugreinum og það á einnig við í sjómannastéttinni þannig að ef við skoðum hvaða skattlagning er hér á ferðinni, þá sést það t.d. að Lífeyrissjóður sjómanna borgaði árið 1988, þá var 3% af iðgjöldum, 25 millj. inn í kerfið. Hann fær sáralítið til baka. Lífeyrissjóður verslunarmanna borgaði árið 1988 37,7 millj. Lífeyrissjóður samvinnustarfsmanna borgaði tæplega 10 millj. o.s.frv. Á sama tíma fá þessir sjóðir ekki til baka þannig að nettógreiðslur þeirra eru gífurlegar inn í þetta kerfi, skattlagningin, á sama tíma og greiðslur inn í sjóð eins og t.d. Lífeyrissjóð Dagsbrúnar til þess að styrkja tryggingagreiðslur þar eru um 28 millj. Um þetta er auðvitað allt gott að segja og við viljum auðvitað halda áfram að tryggja þennan tryggingargrundvöll. En það er ekki hægt að gera það á þeim forsendum sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það eru örfáir sjóðir sem eru látnir axla þessa byrði og það gengur ekki.
    Ég vil segja það fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að hér hefur verið talað um það eins og hæstv. ráðherra sagði að á næstu tveimur árum verði tóm til aðlögunar. Þetta eru nákvæmlega sömu orð og viðhöfð voru á sínum tíma þegar þau lög voru til meðferðar á hinu háa Alþingi sem nú eru að renna út. Þá var sagt nákvæmlega eins, að það ætti að nota þennan tíma til aðlögunar, en það er nú gert með þessum hætti, þ.e. að halda þessu áfram.
    Ég geri ráð fyrir því að það séu ekki margir sem hafa samúð með því fólki sem er í þessum lífeyrissjóðum. Ég hef ekki orðið var við það hér á þessu háa Alþingi að menn hefðu yfirleitt samúð með fólki sem er úti á hinum almenna vinnumarkaði, ekki hér í sölum Alþingis. Þann tíma sem ég hef setið á þingi hef ég sjaldnast orðið var við það að menn

hefðu mikinn áhuga eða samúð með þessu fólki. En það er alltaf vilji til þess annaðhvort að binda fjármuni þessa fólks, eins og gert er t.d. í sambandi við húsnæðislánakerfið, 55% af árlegu ráðstöfunarfé og svo einnig með þessari skattlagningu. Þetta, virðulegi forseti, gengur ekki til lengdar. Í þessu felst mikið þjóðfélagslegt ranglæti sem menn vilja annaðhvort ekki taka eftir eða vilja ekki taka á. Ég vil frekar gera ráð fyrir því að menn vilji ekki taka á því því ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt og ekki til vinsælda fallið að þurfa að taka þetta til
endurskoðunar. En ég held að hv. þm. komist þó ekki hjá því.
    Jafnframt vil ég vekja athygli virðulegs forseta á því að í Sþ. liggur fyrir þáltill. frá nokkrum framsóknarmönnum þar sem þeir gera ráð fyrir því að það sé hægt að leysa upp alla lífeyrissjóði landsmanna og flytja greiðslur, þ.e. iðgjaldagreiðslur á sérreikning þannig að viðkomandi ætti bara sinn sérreikning í banka í stað þess að vera aðili að lífeyrissjóði. Það gefur náttúrlega auga leið að það þýðir ekki að koma með svona hugmyndir á sama tíma sem menn eru að skattleggja þá stofna, þ.e. höfuðstóla sem þeir ráðast á fyrir það að þeir séu ekki nógu burðugir og standist ekki samkeppnina á svokölluðum frjálsum markaði. Framsóknarmennirnir segja að það sé betra að vera með þetta á sérreikningum. Og þegar vikið er að því hvernig eigi þá að tryggja það að menn fái lágmarkslífeyrisréttindi, þá er sagt: Það getum við haft áfram í almenna tryggingakerfinu. Svo geta verkalýðsfélögin séð um að tryggja það að viðkomandi fólk sé með sína sérreikninga í viðkomandi bankastofnunum. Ég vildi nú sjá það í framkvæmd því að ég hef áratuga reynslu í verkalýðshreyfingunni og þekki það vel hversu erfitt er að passa upp á réttindastöðu og rétt einstakra. Og þar á ég ekki við það að verkalýðsfélögin bregðist, heldur eru það aðrir sem bregðast og sjá til þess að verkalýðsfélögin geta oft ekki framkvæmt það nauðsynlega eftirlit sem þetta mundi krefjast ef það yrði útfært. En þetta bíður náttúrlega þeirrar umræðu um þetta mál sem verður þegar það kemur til umræðu á hinu háa Alþingi.
    Og þó að blaðinu mínu, Morgunblaðinu, hafi nú orðið fótaskortur á því að rannsaka ... ( KP: Ha?) Ég sagði: Þó að blaðinu mínu, Morgunblaðinu, ég held nú alltaf upp á Morgunblaðið eins og hv. þm. veit, hafi orðið fótaskortur á því að kynna þetta frumhlaup, þáltill. þessara framsóknarmanna um það að leysa upp lífeyrissjóðina þá held ég að það verði nú ekki mjög oft endurtekið á síðum þess blaðs þegar þeir eru búnir að átta sig á því að hér eru á ferðinni óraunhæfar hugmyndir. Þær mundu ekki einu sinni ganga upp í háborg kapítalismans í Bandaríkjunum, hvað þá (Gripið fram í.) Var það Velvakandi? ( KP: Nei, er það?) Var það Víkverji? Nei, Staksteinar. Það var rétt, hæstv. ráðherra. Það var í Staksteinum, með myndum. En ég var að tala um háborg kapítalismans. Meira að segja Wall Street dettur ekki svona í hug. En hér væri þó um það að ræða að auðveldara væri að skattleggja

einstaklingana náttúrlega með sína sérreikninga í bönkunum þegar það væri komið út á það svið. Og svo er þetta með grunntryggingarnar eins og alltaf þegar fjallað er um almannatryggingakerfið hér á hinu háa Alþingi. Það er undir hælinn lagt hvernig sú staða er á hverjum tíma. Það fer dálítið eftir því hvað hv. þm. telja sig aflögufæra handa gamla fólkinu til þess að greiða tryggingabætur í gegnum tryggingakerfið. Það þekkjum við. Þannig að verkalýðshreyfingin taldi rétt á sínum tíma að semja um lífeyrissjóðina til þess að tryggja tryggingastöðu launafólks enn betur. En því miður er alltaf verið að ráðast á uppbyggingu lífeyrissjóðanna. Það er ekki verið að leggja drög að því á hinu háa Alþingi að byggja upp lífeyrissjóðakerfi verkalýðshreyfingarinnar eða hins almenna vinnumarkaðar. Það er hins vegar alltaf verið að veikja stöðu sjóðanna. Og það er alltaf verið að fresta því að þeir sem eiga þessa sjóði, þ.e. sjóðina úti á hinum almenna vinnumarkaði, fái réttarstöðu til þess að tryggja það að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar. Þessi tilfærsla veikir stöðu þeirra sjóða sem eru þó betur staddir en ýmsir aðrir, um 2% miðað við iðgjaldagreiðslur.
    Ég er út af fyrir sig ekki að ásaka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir það að hann skuli leggja þetta frv. fram. En ég tel mér rétt og skylt að vekja athygli á þessum atriðum. Einnig vil ég vekja athygli á því að á 17. þingi Landssambands ísl. verslunarmanna --- en í því eru eitthvað um 14 eða 15 þúsund manns. Það er ekki bara fólk sem vinnur í verslunum og hjá heildsölum. Það er fólk sem vinnur í þjónustugeiranum, hjá flugfélögunum, tryggingafélögunum og víðar og víðar, sem sagt vítt og breitt um þjóðfélagið, og þar á meðal eru einnig samvinnustarfsmenn að sjálfsögðu --- þar var fjallað um þessi mál. Og ég vil, með leyfi forseta, lesa upp ályktun þessa þings þannig að hæstv. ráðherra geri sér ljóst hver er skoðun þeirra sem hér eiga hlut að máli, alla vega þeirra sem eru skattlagðir og hafa staðið með þessu kerfi hingað til en telja að nú sé aðlögunartímanum lokið, þ.e. nú séu hinir almennu lífeyrissjóðir orðnir það gamlir að þeir verði að gera aðrar ráðstafanir til aðlögunar heldur en að halda þessu, ég vil segja innhverfa kerfi áfram þar sem verið er að skattleggja sjóðina með þeim hætti sem hér um ræðir. En ég les upp samþykkt 17. þings LÍV um þetta mál. Hún er svohljóðandi:
    ,,17. þing Landssambands ísl. verslunarmanna haldið í Reykjavík 13.--15. okt. 1989, telur að tímabært sé að endurskoðun fari fram á tryggingalegum forsendum Lífeyrissjóðs verslunarmanna og samvinnulífeyrissjóðsins með það í huga að tryggingagreiðslur verði hækkaðar. Þingið vekur athygli á að í lok þessa árs falla úr gildi lög um greiðslu til umsjónarnefndar eftirlauna. Greiðslur þessar voru millifærslur milli lífeyrissjóða til styrktar þeim sjóðum sem verr voru staddir og höfðu starfað í stuttan tíma. Nú eru flestir þessara sjóða 20
ára og eldri og hafa fengið nægan tíma til eigin aðlögunar lífeyrisþegum viðkomandi sjóða til hagsbóta.

Með tilliti til þessa hlýtur því nú að teljast eðlilegt, þar sem Lífeyrissjóður verslunarmanna hættir þessum greiðslum til umsjónarnefndar eftirlauna um næstu áramót, að hækkun eigi sér stað á lífeyrisgreiðslum sjóðsins til eigin félaga sem þessu nemur.``
    Þetta var samþykkt samhljóða. Þetta frv. til laga gerir þessum tveim sjóðum sérstaklega erfiðara um vik að styrkja enn frekar tryggingalegar greiðslur sinna sjóða. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á þessu án þess að ég ætli að gera hann einan persónulega ábyrgan fyrir því. Við höfðum því gert ráð fyrir því og undirbúið það að hækka tryggingargreiðslur alla vega í Lífeyrissjóði verslunarmanna sem nemur þessum mismuni. Nú tel ég að með þessu frv. sé verið að torvelda það ef ekki að koma í veg fyrir það, svo að ekki sé meira sagt.
    Ég vil, virðulegi forseti, að lokum segja þetta: Ég harma það að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki geta farið aðrar leiðir í þessum efnum heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég tel það ekki vera í anda þess samkomulags sem verkalýðshreyfingin gerði við hæstv. ríkisstjórn sl. vor um framkvæmd þessa máls.