Fiskveiðasjóður Íslands
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Frsm. minni hl. sjútvn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá minni hl. sjútvn. á þskj. 316, um frv. til laga um viðauka við lög nr. 44 frá 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Minni hl. tekur undir nauðsyn þess að efla rannsóknir og þróunarstarf í íslenskum sjávarútvegi eins og markmiðið með þessu frv. er.
    Í athugasemdum með frv. segir m.a. um hlutverk þróunardeildar Fiskveiðasjóðs: ,,Deildin veiti lán eða styrki til rannsókna og þeirra nýjunga sem orðið gætu til að efla markaðsstöðu íslensks sjávarútvegs.`` Minni hl. vill benda á að ekki er síður nauðsynlegt að efla vöruþróun og fræðslu í íslenskum sjávarútvegi jafnframt því að efla markaðsstöðuna.
    Á 110. löggjafarþingi fluttu þingmenn Kvennalistans fjölmargar brtt. við frv. til laga um stjórn fiskveiða. Tillögurnar gerðu ráð fyrir að 80% af leyfðum heildarafla yrði skipt milli byggðarlaga eða útgerðarstaða með hliðsjón af lönduðum heildarafla síðustu fimm ára. 20% heildaraflans skyldu renna í sameiginlegan sjóð og verða til sölu, leigu eða sérstakrar ráðstöfunar eftir ákveðnum reglum. Gjald byggðarlaga fyrir kvóta skyldi miðast við ákveðið meðalverð á afla upp úr sjó og tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda varið til eftirtalinna verkefna: Í fyrsta lagi til fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fiskvinnsluskóla, símenntunar fiskvinnslufólks, sjómannafræðslu og öryggisfræðslu sjómanna. Í öðru lagi til rannsókna í tengslum við sjávarútveg, grunnrannsókna á lífríki sjávar, rannsókna á ónýttum og vannýttum tegundum, vöruþróunar í sjávarútvegi, markaðsöflunar og markaðshönnunar fyrir sjávarafurðir. Í þriðja lagi til verðlauna til handhafa veiðiheimilda fyrir sérstaka frammistöðu í nýtingu og meðferð aflans eða fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks.
    Tillögur Kvennalistans eru því nokkuð víðtækari en ráð er fyrir gert í frv. þessu. Tekjustofn til þessara verkefna er í tillögum Kvennalistans tryggður með veiðileyfasjóði en frv. þetta gerir einungis ráð fyrir heimild en ekki skyldu til handa Fiskveiðasjóði til að veita þróunardeild lán eða styrki.
    Að mati minni hl. er frv. þó spor í rétta átt og mun minni hl. því styðja það.``