Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Föstudaginn 15. desember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Kvennalistinn studdi á sínum tíma að tekinn yrði upp uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla. Það hefur verið fjallað um þetta frv. í Ed. og fulltrúi Kvennalistans í sjútvn. þeirrar deildar studdi frv. Við kvennalistakonur eigum ekki sæti í sjútvn. þessarar deildar en ég vildi lýsa stuðningi mínum við frv. Þó vekur það ýmsar spurningar, eins og t.d. þá að frekar stuttur tími er veittur til leyfis til reksturs.
    En það er vegna 2. gr. frv. sem mig langar til að beina fsp. til hæstv. sjútvrh. ef það má trufla hann. Þar er kveðið á um að leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar megi einungis veita aðilum sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum, og fyrsta skilyrðið er að hafa íslenskan ríkisborgararétt og hafa haft fasta búsetu á Íslandi sl. tvö ár. Mér þykir þetta ákvæði mjög eðlilegt, en mig langaði til að spyrja hvort það hafi verið athugað hvort þetta muni samrýmast þeim reglum um evrópskt efnahagssvæði sem nú er talað um að setja og Ísland gerist hugsanlega aðili að. Mig langar sérstaklega til að spyrja að þessu í ljósi þess að íslenska ríkisstjórnin hefur samþykkt að fallast á þær reglur að útlendingar jafnt sem Íslendingar hafi rétt til búsetu og stofnunar fyrirtækja hér á landi. Og þá velti ég því fyrir mér hvort þetta ákvæði í lögum muni halda gagnvart þeim reglum eða hvort við munum þurfa að breyta okkar lögum ef af fyrirætlunum um aðild Íslands að þessu evrópska efnahagssvæði verður. Mig langar til að spyrja ráðherra hvort þetta hafi verið athugað í tengslum við þau mál.